Sviðsljós
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Það voraði seint árið 1989. Morgunblaðið sagði frá því 1. júní, að vorið hefði verið eitt það kaldasta í manna minnum, snjóskaflar enn víða og næturfrost. Og blaðið sagði að kaldir vindar hefðu blásið um Keflavíkurflugvöll er Frónfari, farþegaþota Flugleiða, lenti þar um hádegisbil laugardaginn 3. júní með Jóhannes Pál páfa II. og fylgdarlið hans innanborðs.
Karol Józef Wojtyła fæddist árið 1920 í Póllandi, lést árið 2005 og var tekinn í dýrlingatölu árið 2014. Hann var valinn páfi árið 1978 og tók sér nafnið Jóhannes Páll II. Hann ferðaðist allra páfa mest, fór alls til 129 landa og var Ísland 84. landið sem hann heimsótti. Íslandsheimsóknin var hluti af 10 daga ferð páfa til Norðurlanda, hingað kom hann frá Noregi og hélt síðan áleiðis til Finnlands, Danmerkur og Svíþjóðar. Þetta var í fyrsta skipti í sögu kirkjunnar að Rómarbiskup, arftaki Péturs postula, heimsótti löndin nyrst í Evrópu.
Heimsóknin hingað til lands var skipulögð í þaula. Byggður var stór pallur á Þingvöllum þar sem páfi tók þátt í samkirkjulegri athöfn ásamt biskupi Íslands og leiðtogum annarra kristinna safnaða á laugardeginum. Þá var reist svið á Landakotstúni í Reykjavík, þar sem páfi söng útimessu á sunnudagsmorgninum.
Ströng gæsla
Ströng öryggisgæsla var skipulögð og hafði Morgunblaðið eftir Böðvari Bragasyni, lögreglustjóra í Reykjavík, að allt tiltækt lögreglulið í borginni yrði nýtt vegna heimsóknarinnar og sérsveit lögreglunnar hefði verið á æfingum að undanförnu. Lausafréttir höfðu verið um það í dönskum blöðum, að hugsanlega yrði páfa sýnt banatilræði á ferð hans um Norðurlönd. Íslenska lögreglan sagðist þó ekki hafa fegnið slíkar ábendingar en Böðvar sagði að lögregluyfirvöld væru í stöðugu sambandi við önnur norræn lönd vegna ferðar páfans.
Þrettán norrænir blaðamenn ferðuðust með páfa um Norðurlöndin og í þeim hópi var Anna Bjarnadóttir, sem var fréttaritari Morgunblaðsins í Sviss. Daginn sem páfi kom til landsins birti Morgunblaðið viðtal við hann á forsíðunni, sem Anna tók, og þar sagði Jóhannes Páll II. að hann hefði ekki oft leitt hugann að Íslandi fram að þessu. „Ég lærði ekki mikið um Ísland á skólaárunum í Póllandi. En nýlega las ég þykka og mikla bók í pólskri útgáfu með kveðskap úr íslenskri goðafræði,“ sagði hann. „Mér hefur einnig verið sagt frá klaustri Karmelítasystra frá Kraká í Póllandi.“
Morgunblaðið sagði frá því að systurnar í klaustri Karmelítareglunnar í Hafnarfirði hefðu mánuðina á undan saumað ellefu hökla handa páfa og klerkum, sem myndu aðstoða við messuna á Landakotstúni. Reglur Karmelítanunna mæli svo fyrir að þær yfirgefi ekki klaustrið nema til náttúruhamfara eða stríðs komi, og til að sækja sér læknishjálp. En páfi hafði gert sérstaka undantekningu og leyft þeim að fara í Kristskirkju til að hitta hann á laugardeginum og taka þátt í messunni á sunnudagsmorgninum.
Smakkaði á laxi
Á forsíðu Morgunblaðsins 4. júní er frétt um komu páfa til Keflavíkurflugvallar. „Flugvélin var skreytt fánum Páfagarðs og Íslands. Skömmu síðar gekk páfi niður landganginn, kraup á kné og kyssti íslenska jörð. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson kirkjumálaráðherra, biskup Íslands, hr. Pétur Sigurgeirsson, og hr. Alfred Jolson, biskup kaþólskra hér á landi, tóku, ásamt fleirum, á móti páfa og buðu hann velkominn til Íslands. Með páfa í för er um 30 manna fylgdarlið auk um 50 blaðamanna en alls munu um 100 erlendir blaðamenn fylgjast með heimsókninni,“ segir blaðið.
Þar er einnig frétt sem Anna Bjarnadóttir skrifaði um flugferðina til Íslands. Haft er eftir Ernu Hrólfsdóttur, fyrstu freyju um borð í flugvélinni, að páfi hafi verið vingjarnlegur, brosað til áhafnarinnar og spurt um veðrið á Íslandi en helst viljað fá að vera í friði.
„Páfi borðaði lítið á leiðinni, smakkaði á reyktum og soðnum laxi en fékk sér mest af osti. Hann dreypti á hvítu og rauðu víni en hvíldi sig annars eða las í Biblíunni. Hann gluggaði líka í tvær bækur sem Flugleiðir færðu honum um Ísland á ítölsku,“ segir í fréttinni.
Í Almannagjá
Páfi kom við á Bessastöðum á leiðinni frá Keflavík og átti fund með Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands. Síðan var haldið til Þingvalla þar sem samkirkjuleg guðsþjónusta var haldin. Morgunblaðið segir að talið sé að 6-7 þúsund manns hafi hlýtt á guðsþjónustuna. Fólk var þegar farið að safnast saman neðan við Almannagjá upp úr kl. 14 en athöfnin hófst kl. 16.45. Kalt var í veðri, og fór sumt fólk áður en athöfninni lauk.
Athöfninni er ýtarlega lýst í blaðinu og vitnað í ræður sem þar voru fluttar. Páfi lagði áherslu á nauðsyn þess að hefja siðferðileg verðmæti aftur til vegs. „Vér erum samankomin í Almannagjá. Getum við þá ekki hugsað okkur íslenska kaþólikka og lúterstrúarmenn vinna saman að því að leysa verkefni komandi áratugar.“
Fyrir guðsþjónustuna var bænastund í Þingvallakirkju og þaðan ekið að messustaðnum við Almannagjá. Fjórir sérútbúnir Volvo-bílar höfðu verið fluttir til landsins til að aka páfa og fylgdarliði hans milli staða. En uppi varð fótur og fit hjá öryggisvörðunum, sem gættu páfa, er hann settist ekki upp í einkabifreið sína eftir bænastundina heldur tók sér sæti í rútubílnum, sem flutti biskupa og kardínála til messustaðarins.
Um kvöldið hitti páfi kaþólska söfnuðinn á Íslandi í Kristskirkju og daginn eftir söng hann messu í morgunkuldanum á Landakotstúni. Hann hélt síðan af landi brott um hádegisbil. Í frétt frá Önnu Bjarnadóttur í Morgunblaðinu 6. júní segir að páfi hafi á leiðinni héðan játað að sér hefði verið kalt á samkirkjulegu bænastundinni á Þingvöllum. „Það var kalt,“ sagði hann, „en kuldi fyllir mig lífsþrótti.“