Það eina sem borgarstjórn hefur sameinast um í þessu máli á fimm árum er samþykktin um samningsmarkmiðin frá 9. maí 2019. Þar var ekki vikið að vildarkjörunum sem síðan birtust.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Nú eru fimm ár frá því að samþykkt voru samningsmarkmið í borgarráði Reykjavíkur í viðræðum borgaryfirvalda við rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðvalóða í Reykjavík.

Þar má miða við dagsetninguna 9. maí 2019. Þá setti borgarráð það markmið að semja við olíufélögin um fækkun bensínstöðva í borginni. Allir flokkar í borgarstjórn stóðu að baki ákvörðuninni. Á þeim tíma var hins vegar engum ljóst, nema ef til vill Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, að ætlunin væri að veita umfangsmiklar uppbyggingarheimildir á lóðunum án endurgjalds.

Í framhaldi af samþykkt borgarráðs ritaði borgarstjóri, 14. maí 2019, undir erindisbréf fyrir samninganefnd Reykjavíkurborgar vegna viðræðna við rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðva í Reykjavík. Ætlunin var að viðræður um breytingu lóðanna gengju hratt fyrir sig. Hættan af hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga réð för.

Í sumarleyfi borgarstjórnar, 24. júní 2021, fengu borgarráðsmenn „minnisblað um áfangaskil samningaviðræðna við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík um uppbyggingu á ýmsum lóðum“. Þá voru einnig lögð fram rammasamkomulög við olíufélögin og samningar um uppbyggingu á lóðunum.

Borgarráðsfulltrúar meirihlutans, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, töldu í bókun að gögnin sýndu „stórt skref í bættri og grænni landnýtingu“.

Fulltrúar minnihlutans á fundi borgarráðs, Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins, lýstu andstöðu við afgreiðslu málsins. „Hér er um stórt og mikið hagsmunamál að ræða sem þarf að vanda mun betur en leggja það fyrir fund borgarráðs í sumarfríi borgarstjórnar sem trúnaðarmál,“ sögðu sjálfstæðismenn. Fulltrúi Miðflokksins sagði í bókun sinni að nú hefði komið í ljós að fækkun bensínstöðvanna snerist ekki um umhverfismál og orkuskipti heldur um að „úthluta dýrmætum lóðum á besta stað í borginni til valdra aðila til að viðhalda þéttingar- og þrengingarstefnu borgarinnar“.

Miðflokksfulltrúinn lagði síðan 1. febrúar 2022 fram tillögu í borgarstjórn um að innri endurskoðun borgarinnar yrði falið að skoða og leggja mat á lögmæti trúnaðarsamninganna frá 24. júní 2021 við olíufélögin.

Meirihlutinn sagði enga óvissu ríkja um lögmætið en vísaði tillögunni til borgarráðs. Sjálfstæðismenn töldu sjálfsagt og eðlilegt að innri endurskoðun færi yfir þessa samninga til að tryggja að jafnræðis væri gætt meðal þeirra sem hefðu hug á uppbyggingu í borginni. Þarna væri um að ræða margra milljarða verðmæti. Fulltrúi Flokks fólksins, sem einnig studdi tillögu Miðflokksins, varaði við því að með breytingu á lóðanýtingu bensínstöðvanna „hagnist núverandi lóðarhafar um milljarða“.

Samningarnir sem voru kynntir 24. júní 2021 náðu ekki til allra bensínsala í borginni og á borgarráðsfundi 10. febrúar 2022 kynnti borgarstjóri samninga við þá sem eftir stóðu.

Í bókun meirihlutans til stuðnings þessum samningum sagði að í loftslagsstefnu borgarinnar væri lagt til að þróaðir yrðu hvatar til að fækka eldsneytisstöðvum í Reykjavík. Þarna mátti sjá að meirihlutinn reyndi að fóta sig á rökum fyrir sérkjörum handa olíufélögunum.

Á borgarráðsfundi 28. apríl 2022 vísaði meirihlutinn frá tillögunni um að innri endurskoðun kannaði lögmæti bensínstöðvasamninganna. Þannig lauk málinu fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022.

Það eina sem borgarstjórn hefur sameinast um í þessu máli á fimm árum er samþykktin um samningsmarkmiðin frá 9. maí 2019. Þar var ekki vikið að vildarkjörunum sem síðan birtust. Allt sem gerst hefur eftir þann dag er á ábyrgð meirihlutans. Nú er framsóknarmaður borgarstjóri í stað samfylkingarmanns. Fram til kosninganna 2022 var Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna.

Bensínlóðunum verður ekki breytt án nýs deiliskipulags og 5. mars 2024 urðu umræður í borgarstjórn um skipulag bensínlóðarinnar við Ægisíðu 102. Íbúar í Vesturbæ hafa mótmælt áformum um umfangsmikla uppbyggingu á lóðinni.

Fréttakonan María Sigrún Hilmarsdóttir sagði frá þessu máli í Kastljósi ríkissjónvarpsins 6. maí 2024 og afhjúpaði gjafagjörninga Dags B. Eggertssonar til olíufélaganna.

Meirihluti borgarráðs samþykkti 7. maí 2024 tillögu sjálfstæðismanna um að innri endurskoðun borgarinnar kannaði þá samninga sem gerðir hafa verið við olíufélögin í skiptum fyrir byggingarrétt.

Dagur B. Eggertsson gaf út bókina Nýja Reykjavík árið 2021. Þar segir hann á blaðsíðu 228:

„Fólk þarf að kjósa einhvern annan flokk en Samfylkinguna í Reykjavík ef það vill gefa lóðir eða uppbyggingarheimildir til einkaaðila á undirverði en koma kostnaðinum vegna uppbyggingarinnar á borgarsjóð og borgarbúa.“

Samningarnir sem höfundur þessara orða gerði við bensínsalana í borginni ómerkja orð hans í bókinni og sjálfshólið þar.

Í lögfræðilegu áliti borgarlögmanns frá 28. mars 2022 er aflétting gjalda af olíufélögunum vegna uppbyggingarheimilda réttlætt, hún sé til „að ná því lögmæta markmiði sem að er stefnt í loftslagsstefnu og aðalskipulagi um kolefnishlutleysi með fækkun bensínstöðva“. Þetta sé ekki eina dæmið um slíka afléttingu gjalda. Má skilja álitið á þann veg að þarna ráði geðþótti hverju sinni. Í þessu sambandi hefur til dæmis verið vakin athygli á ráðstöfun borgarstjórnar á byggingarlandi til ríkisútvarpsins árið 2015. Hvaða yfirmarkmið réðu þar?

Hitt er síðan grátbroslegt þegar látið er eins og fækkun bensínstöðva fækki bensíndælum og skapi kolefnishlutleysi.