Gunnar Gunnarsson fæddist 21. apríl 1940. Hann lést 6. maí 2024.

Útför hans var gerð 17. maí 2024.

Gunnar Gunnarsson, einn af höfðingjum Ólafsvíkur, er fallinn frá. Hann var vinur minn, vinur okkar allra sem lékum með Víkingi Ólafsvík. Og hann naut svo sannarlega virðingar okkar. Gunni var ein af styrkustu stoðum bæjarfélagsins. Brosið, góðmennskan, greiðviknin og keppnisandinn ævinlega við lýði. Grjótharður stuðningsmaður Víkings og vantaði sjaldan á völlinn.

Ég sé Gunna fyrir mér á sjónum, í söluskálanum, í eldhúsinu og á vellinum þar sem stöku blótsyrði hnaut af vörum hans. Annað slagið. Sjálfur átti hann langan feril að baki sem markvörður. Eldsnöggur, segja mér eldri menn, berhentur. Gunni var Framari inn við beinið en nokkrir slíkir leyndust fyrir vestan. Og grjótharður Arsenal-maður. Vitaskuld var hann fenginn til að vígja nýja völlinn í Ólafsvík, ásamt Gylfa Scheving, annarri goðsögn í bæjarfélaginu.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera með Gunna í golfi þegar kappinn fór holu í höggi. Auðvitað á Fróðárvelli. Það merkilega augnablik var endrum og sinnum rifjað upp við eldhúsborðið á meðan elsku Ester dekraði við okkur. Heiðurshjónin buðu fjölmörgum Valsmönnum í kaffi og meðlæti þegar Valur lék gegn Víkingi í efstu deild. Gestrisnin tíðrædd á Hlíðarenda.

Í áratugi var Engihlíð 6 ein mín ánægjulegasta stoppistöð á ferðum mínum um heimahagana. Gunni og Ester tóku mér, og mínum gestum, opnum örmum. Mannvinir hinir mestu.

Fyrir hönd okkar strákanna, sem Ólafsvík ól upp, sendi ég Ester, börnum, barnabörnum, vinum og ættingjum hugheilar samúðarkveðjur.

Þorgrímur Þráinsson.

Það var mikið lán fyrir Olís árið 1991 þegar þau hjón Gunnar Gunnarsson og Ester Gunnarsdóttir tóku við Olís-umboðinu í Ólafsvík. Þótt Gunnar hafi verið titlaður útibússtjóri þá var framlag Esterar mikið.

Gunnar var ætíð mjög þjónustulipur, duglegur og framtakssamur í öllum sínum störfum fyrir Olís. Það var mjög gaman að fylgjast með þeim hjónum hvað þau höfðu mikinn áhuga á öllum störfum sem tilheyrðu Olís sem og málefnum sveitarfélagsins.

Þá var Gunnar mjög áhugasamur um allar íþróttir og fylgdist grannt með framgangi knattspyrnufélagsins Víkings í Ólafsvík og Arsenal í enska boltanum. Einnig hafði hann mikinn áhuga á skák og golfi, svo fátt eitt sé nefnt af öllu því sem fram fór í Ólafsvík.

Fyrir mig var það mikill styrkur að hafa Gunnar sem umboðsmann á Snæfellsnesi. Hann lét af störfum árið 2013.

Við Sigga ásamt fleiri vinum okkar fórum í ógleymanlega ferð með þeim hjónum til Parísar á úrslitaleik á HM í fótbolta í júlí 1998 ásamt því að fara þar á tónleika með frægustu tenórum heims, þeim Pavarotti, Domingo og Carreras.

Það er ómetanlegt að hafa átt svona vin og félaga eins og Gunnar var.

Við Sigga vottum Ester og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Góður maður er genginn til feðra sinna.

Gunnar Sigurðsson,
fv. framkvæmdastj.
Olís á Vesturlandi.

Gunnar var skemmtilegur náungi. Maður kynntist honum ágætlega á minningarmótum um Ottó Árnason í Ólafsvík. Gaman að spjalla við hann.

Síðasta haust kom nafni í heimsókn í Skáksambandið. Var þá að endurvekja minningarmótið eftir mjög langa pásu.

Þuldi upp fyrirtækin sem hann var búinn að fá til að styrkja mótið og einnig þau fyrirtæki sem hann ætlaði að fá til að styrkja mótið. Allt gekk þetta eftir. Með krafti sínum virkjaði hann alla í kringum sig og afar vel heppnað mót var haldið. Hann komst reyndar ekki sjálfur á skákstað vegna veikinda – en fylgdist með.

Menn eins og Gunnar, sem keyra upp skáklífið í heimahéraði, eru mikilvægustu sendiherrar skákarinnar.

Ég votta ættingjum og vinum Gunnars samúð mína.

Gunnar Björnsson,
forseti Skáksambands Íslands.

Föstudaginn 17. maí var borinn til grafar frá Ólafsvíkurkirkju Snæfellingurinn Gunnar Gunnarsson. Mikill félagsmálamaður og einn af framámönnum skákíþróttarinnar fyrir vestan. Gunnar var borinn Reykvíkingur en fluttist tvítugur að aldri til Ólafsvíkur þar sem hann bjó til dánardags. Við flutninginn vestur gekk Gunnar til liðs við taflfélagið á staðnum og reyndist virkur allar götur síðan. Síðustu 30 árin gegndi hann stöðu gjaldkera. Gunnar var vel liðtækur skákmaður, einn þeirra Ólsara sem ég minnist frá æskuárum mínum á héraðsskákmótum Snæfellsness- og Hnappadalssýslu. Þeir voru lærisveinar Ottós Árnasonar frumkvöðuls skákíþróttarinnar á Snæfellsnesi sem þjálfaði fjölmarga slynga skákmenn í Ólafsvík. Það var mér mikil ánægja og heiður þegar Gunnar leitaði til okkar Hrafns Jökulssonar á fyrstu árum aldarinnar við að skipuleggja minningarskákmót í Ólafsvík um Ottó Árnason. Ásamt Tryggva Óttarssyni höfðu þeir Gunnar forystu um að koma á veglegum minningarmótum um 10 ára skeið. Allt skipulag skákmótanna var unnið af einstökum metnaði og reyndust geysivinsæl og vel mönnuð. Þátttakendur allt frá áhugasömum byrjendum til okkar þekktustu stórmeistara. Teflt við bestu aðstæður, há verðlaun og stórkostlegar veitingar með kaffinu og grillmáltíð í lok móts. Í byrjun árs 2023 ákvað Gunnar upp á sitt eindæmi að endurvekja minningarmótið um Ottó og bæta nafni Hrafns Jökulssonar við heiti mótsins. Hrafn hafði andast fyrr um haustið en minningin um Hrafn og hans kynngikraft við fyrri mót var Snæfellingum hugleikin, geymd en ekki gleymd. Þrátt fyrir heilsuleysi gekk Gunnar með sínu þægilega viðmóti og eldhug á fund fyrirtækja og félagasamtaka fyrir vestan biðjandi um styrk og stuðning. Gunnar, eins sannfærandi og áhugasamur sem fyrr, fékk einungis jákvæð svör. Minningarmótið um Hrafn og Ottó var haldið hinn 6. maí í fyrra. Líkt og áður einstök skákveisla á allan hátt. Það skyggði þó vissulega á mótið að Gunnar var þá orðinn rúmfastur á Sjúkrahúsi Akraness en náði með hjálp tækninnar að fylgjast með mótinu í beinni. Verðskuldað var kappinn gerður að fyrsta heiðursfélaga taflfélagsins að viðstöddu fjölmenni heimamanna og á annað hundrað þátttakenda.

Ég minnist Gunnars félaga míns sem mikils félagsmálamanns í sinni heimabyggð þar sem jákvæðni og metnaður fylgdi öllu hans starfi. Ég tel mig vita fyrir víst að á næsta ári verður að nýju efnt til veglegs minningarmóts og þá í minningu þeirrar heilögu þrenningar Gunnars, Hrafns og Ottós. Þá fjölmennum við að sunnan líkt og áður og njótum einstakrar gestrisni heimafólks.

Að lokum vil ég þakka Gunnari ánægjuleg og gefandi kynni á vettvangi skáklistarinnar. Minningin um góðan dreng og snjallan skákmann lifir. Við skákmenn og skákforystumenn fyrir sunnan sendum fjölskyldu Gunnars og skákfélögum fyrir vestan innilega samúðarkveðju.

Helgi Árnason.

Lífsskák Gunna Gunn vinar míns er lokið. Tíminn rann út og klukkan féll þann 6. maí sl. Ekki kom það beint á óvart að tímaglasið tæmdist enda hafði hann barist í miklu tímahraki síðustu leiki skákarinnar. Skák sem varði í 84 ár og innihélt marga góða leiki og frumlegar fléttur.

Þó Gunnar væri Reykvíkingur að uppruna má með sanni segja að hann hafi verið einn af bestu sonum Ólafsvíkur, þar sem hann bjó þrjá fjórðu hluta ævi sinnar. Hann var áberandi í bæjarlífinu og oft í forystu í félags- og íþróttalífi. Það var aldamótaárið 2000 sem Gunni kom að máli við mig og bað mig að gerast formaður Taflfélags Snæfellsbæjar, þar sem hann og Gylfi Scheving voru fyrir í stjórn. Ég færðist undan í fyrstu og bar við að hæfileikar mínar við skákborðið væru nú ekki miklir. Ekki kvaðst hann vera að sækjast eftir þeim hæfileikum, en til stæði að halda stórt og mikið skákmót og hann vildi fá mig með í það verkefni. Eins og þeir sem kynnst hafa eldmóði og sannfæringarkrafti Gunna Gunn þá segir enginn nei við slíkri málaleitan. Hófum við undirbúning minningarmóts sem kennt var við Ottó Árnason. Mótið var haldið í desember 2001, nutum við dyggilegrar aðstoðar Skáksambands Íslands og vinar okkar Hrafns Jökulssonar. Þótti mótið vel heppnað og var haldið árlega í mörg ár þar á eftir. Meðal þátttakenda voru fjölmargir stórmeistarar, alþjóðlegir meistarar, börn. Mikill kostnaður fylgir mótum sem þessum. Gekk gjaldkerinn Gunni Gunn vasklega fram í fjáröfluninni og með sinni alkunnu góðmennsku, glaðlyndi og sannfæringarkrafti náði hann alltaf að klára fjármögnun í tæka tíð. Engir lausir endar eða skuldahalar voru að mótum loknum. Í lok árs 2022 hringir Gunni í mig og segir: „Nú endurvekjum við mótið og höldum það í vor.“ Ég hváði og sagði af hverju að vori en ekki í desember eins og vanalega. „Jú sjáðu til, ég held að tíminn á klukkunni minni sé orðinn naumur og ég vil klára þetta áður en að hann rennur út.“ Það var eins og við manninn mælt, allir lögðust á eitt og var mótið haldið í maí 2023. Þátttakendur tæplega 100. Minntumst við ekki einungis Ottós, eins og við fyrri mót, heldur einnig vinar okkar og velgjörðarmanns Hrafns Jökulssonar. Þó Gunni væri orðinn æði ellimóður og farinn að heilsu þá tvíefldist hann í undirbúningnum og kláraði fjármögnun af krafti. Gekk manna á milli, safnaði framlögum, hafði samband við stórmeistara og aðra skákmenn og tryggði þátttöku þeirra. Við mótslok var Gunnari þökkuð 30 ára stjórnarseta í Taflfélagi Snæfellsbæjar og hann gerður að fyrsta heiðursfélaga í félaginu. Til stendur að halda mótið næst vorið 2025 og þá verður Gunnars minnst með viðeigandi hætti.

Ég er þakklátur fyrir að hafa átt vináttu Gunnars Gunnarssonar um langa tíð, eins vil ég þakka þá vináttu og velvild sem hann sýndi föður mínum síðustu árin sem faðir minn lifði.

Ég á eftir að sakna míns góða vinar, allrar gleði, jákvæðni, hvatningar og velvildar sem hann færði mér.

Hans góðu konu Ester og sonum færi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur

F.h. Taflfélags Snæfellsbæjar,

Tryggvi Leifur Óttarsson.