Dekkjaskipti Mikilvægt er að herða felgurær samkvæmt stöðlum.
Dekkjaskipti Mikilvægt er að herða felgurær samkvæmt stöðlum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Drífa Lýðsdóttir drifa@mbl.is Nokkur dæmi eru um að dekk losni undan bílum eftir dekkjaskipti og dregið hefur úr upplýsingagjöf verkstæða. Þetta segir Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), í samtali við Morgunblaðið.

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Nokkur dæmi eru um að dekk losni undan bílum eftir dekkjaskipti og dregið hefur úr upplýsingagjöf verkstæða. Þetta segir Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), í samtali við Morgunblaðið.

Oftast kemur það í ljós strax eftir að bíl er ekið út af verkstæðinu ef eitthvað er að dekkjunum. Þá er bíllinn sjaldnast á miklum hraða og því auðveldara að koma í veg fyrir tjón. Í flestum tilfellum liggur ábyrgð á tjóni hjá verkstæðinu.

Ástæður þess að dekk losna undan bílum geta verið margar. Til dæmis vegna þess að felgurær eru of fáar, en í flestum tilfellum er það vegna herslu þeirra. Þetta er varasamt mál þar sem tjón getur orðið ýmist ef rær eru ekki nægilega hertar en einnig ef þær eru hertar umfram þær herslumælingar sem verkstæðin eiga að fylgja.

Mikilvægt að upplýsa fólk

Björn segir félagið hafa undanfarið séð fleiri atvik þar sem felgurær eru hertar um of. Ofhersla leiðir af sér að rærnar brotna og getur tjón af þeim toga orðið kostnaðarsamt.

Aðspurður segir Björn að dregið hafi úr því að verkstæði láti fólk vita að vert sé að hafa eftirlit með dekkjunum. Fer það þó alfarið eftir verkstæðum þar sem sum þeirra skilja eftir miða í bílum, þess efnis að fólk ætti að herða felgur bíla sinna eftir einhverja uppgefna kílómetra. Vandinn er þó sá, að sögn Björns, að mörgum nýrri bílum fylgir ekki felgulykill eða annar búnaður. Hinn almenni bifreiðareigandi á því erfiðara með að ganga úr skugga um að allt sé í lagi. Sum verkstæði bjóða þó upp á fría endurkomu.

Traustið á að verkstæðin gangi vel frá bílum verður samt sem áður að vera mikið.

FÍB ítrekar mikilvægi þess að verkstæðin fylgi þessu betur eftir. Verkstæðin eru þó tryggð fyrir tjónum af þessu tagi og alla jafna leysast þessi mál friðsamlega.

Hvað segja tryggingafélög?

Samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá er ekki vitað hve tjón af völdum þessa er mikið. Tilkynningar til Sjóvár um dekk sem losna eru fáar. Ef hvorki er hægt að sýna fram á sök verkstæðis né eiganda hafa kaskótryggingar viðkomandi komið til bjargar. Sömuleiðis staðfestir tryggingafélagið Vörður við blaðið að fá tilfelli berist þeim, en þó séu nokkur á ári. Eigi tjónið sér stað stuttu eftir dekkjaskipti sé líklegt að verkstæði beri ábyrgð, en ef tjón verður löngu eftir skiptin sé hæpið að rekja það til verkstæðisins.

Höf.: Drífa Lýðsdóttir