Hólmar Hólm
Hólmar Hólm
Söfn þjóna í eðli sínu almenningi og bjóða upp á margs konar tækifæri til þess að nálgast heiminn og hugleiða stöðu okkar innan hans.

Hólmar Hólm

Í dag er Alþjóðlegi safnadagurinn haldinn hátíðlegur á vegum ICOM, Alþjóðaráðs safna, sem hefur staðið fyrir deginum síðan 1977. Þá er markmiðið að vekja athygli á hlutverki safna, starfsemi þeirra og skyldum, sem og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Á hverju ári er safnadeginum jafnframt gefin sérstök yfirskrift en að þessu sinni er það „Söfn í þágu fræðslu og rannsókna“ sem tengist beint kjarnastarfi safna sem menntunar- og fræðslumiðstöðva, sem búa til og miðla þekkingu.

Á þessum degi munum við einnig fagna hérlendri safnastarfsemi á Íslensku safnaverðlaununum, sem afhent verða í 14. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Um er að ræða viðurkenningu sem veitt er annað hvert ár en að þessu sinni eru fimm söfn tilnefnd: Gerðarsafn, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Sauðfjársetur á Ströndum og Þjóðminjasafn Íslands. Þá varpa tilnefningarnar ljósi á fjölbreytt verkefni á sviði fræðslu og miðlunar, sem og margvíslegar tengingar safna við samfélagið.

Söfn þjóna í eðli sínu almenningi og bjóða upp á margs konar tækifæri til þess að nálgast heiminn og hugleiða stöðu okkar innan hans. Þannig dýpka söfn skilning okkar og auka samkennd þvert á menningarheima, með því að deila ólíkum frásögnum og opna á ný samtöl. Í því felst jafnframt mikil ábyrgð og mikilvægt er að söfn staðni ekki, heldur séu síleitandi og hreyfist í takt við samtímann.

Þá þurfa söfn á virkri þátttöku almennings að halda, svo að þau megi halda áfram að þróast og endurspegla samfélagið. Aðhald og gagnrýni eru sömuleiðis nauðsynleg tól til að hjálpa söfnum að átta sig á því hvar þau geta gert betur. Sú krafa er skýr, jafnt innan og utan safna, að þau séu opin og aðgengileg fyrir öll og beiti sér fyrir auknum jöfnuði og inngildingu. Þar þurfa söfn að gera sér grein fyrir sögu- og stofnanalegri slagsíðu og beita sér markvisst fyrir því að lyfta upp röddum sem hafa áður fengið lítið rými í almennri umræðu, einkum röddum minnihlutahópa og þeirra sem hafa lengi átt undir högg að sækja.

Ábyrgð safna er mikil að þessu leyti en söfnin sjálf eru oft lítil og fáliðuð. Starfsemi íslenskra safna er eigi að síður afar metnaðarfull og drifin af ríkri hugsjón. Þá geyma þau ómetanleg menningarverðmæti sem okkur ber siðferðisleg skylda til að varðveita svo að komandi kynslóðir fái að njóta þeirra og túlka á eigin forsendum. Því að söfnin vekja upp óþrjótandi spurningar um heiminn og hvetja okkur til að líta sífellt á hlutina í nýju ljósi, í þeirri von að byggja í sameiningu betri heim.

Hægt er að kynna sér Alþjóðlega safnadaginn og Íslensku safnaverðlaunin nánar á icom.is.

Höfundur er formaður Íslandsdeildar ICOM, Alþjóðaráðs safna.

Höf.: Hólmar Hólm