Flóð Stöðulón hafa myndast víðs vegar um landið vegna flóða og mun taka tíma að koma öllu í svipað horf og áður.
Flóð Stöðulón hafa myndast víðs vegar um landið vegna flóða og mun taka tíma að koma öllu í svipað horf og áður. — AFP/Luis Tato
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil flóð hafa geisað í Kenía sem tekið hafa líf margra og skilið enn fleiri eftir á götunni. Morgunblaðið ræddi við Önnu Þóru Baldursdóttur sem búsett er í Kenía um flóðin og hvort þau hefðu haft áhrif á hennar starfsemi þarna úti

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Mikil flóð hafa geisað í Kenía sem tekið hafa líf margra og skilið enn fleiri eftir á götunni. Morgunblaðið ræddi við Önnu Þóru Baldursdóttur sem búsett er í Kenía um flóðin og hvort þau hefðu haft áhrif á hennar starfsemi þarna úti.

Anna rekur áfangaheimili fyrir ungar stúlkur sem hafa orðið mæður á unga aldri. Þar fá þær allan þann stuðning sem þær þurfa á að halda, t.d. til náms auk sálfræðiaðstoðar.

Rignt hefur nánast stanslaust síðan í febrúar og fór ekki að stytta almennilega upp fyrr en í síðustu viku. Anna hefur búið og starfað í Kenía í um níu ár og hefur aldrei séð önnur eins flóð og eyðileggingar eins og fylgdu þessu rigningartímabili. Anna býr og rekur áfangaheimilið í bænum Kiambu sem er í útjaðri höfuðborgarinnar Nairobi. Flóðin á þeim stað voru heldur léttari en á öðrum stöðum og varð hún ekki fyrir jafn miklum búsifjum og margir. Samt sem áður flæddi helling á þessu svæði og voru miklar aðgerðir til að bjarga hennar húsi og húsunum í kring.

Skólahald féll niður um tíma

Einu áhrifin sem flóðin hafa haft á starfsemi áfangaheimilisins eru þau að skólahald féll niður í tvær vikur.

Anna sagði að mikil á hefði myndast og flætt í gegnum garðinn hennar. Áin flæddi í gegnum hús starfsmanns hennar og hefði hún ekki verið stöðvuð er líklegt að straumurinn hefði orðið það sterkur að hann hefði skemmt vegginn sem liggur utan bæði húss Önnu og áfangaheimilisins.

Mörg tré hafa fallið vegna flóðanna og sótti Anna fræðslu á vegum barnaverndar þegar ástandið í landinu var sem verst. Á heimleiðinni var tré við það að falla á veginn. Hún þurfti að keyra undir tréð til að komast áleiðis, en það hékk á aðeins einni rafmagnslínu.

„Ég hélt ég myndi deyja, með dóttur mína í bílnum“

Mest tjón í fátækrahverfum

Fátækustu hverfin hafa orðið fyrir langmesta tjóninu sem flóðin ollu. Ekki er jafn auðvelt að kippa hlutunum í lag þar eins og í hverfinu hennar Önnu.

Mikið af innkomu fólks í Kenía er frá daglegum störfum, því hömluðu flóðin því að margir gætu haldið til vinnu og þar af leiðandi aflað sér tekna.

Í fátækari hverfunum hafa hús sem byggð voru of nálægt árbökkunum verið rýmd til niðurrifs vegna skemmda, sem skilur marga eftir heimilislausa.

Á áfangaheimili Önnu eru stúlkur á aldrinum 12-20 ára sem allar eru í námi af einhverju tagi, fyrir utan þær stúlkur sem eiga nýfædd börn, en þær munu fara í skóla þegar börnin eru orðin hálfs árs. Anna og starfsmenn heimilisins passa börnin á meðan stúlkurnar sækja skólann.

Víðs vegar um landið hafa myndast hálfgerð stöðulón sem mun taka tíma að láta hverfa og vonar Anna að fólk verði öruggt sem allra fyrst.

Höf.: Drífa Lýðsdóttir