Hrannar Daði Þórðarson fæddist 1. febrúar 2006. Hann lést 2. maí 2024.
Útför hans fór fram 17. maí 2024.
Líklega hafa fáar setningar verið sagðar jafn oft á okkar heimili og: „Getum við hitt Hrannar og Heiðar?“
Hrannar var svo stór hluti af lífi okkar og hans er svo sárt saknað. Krakkarnir okkar hafa ekki bara misst frænda heldur frábæran vin sem var alltaf spenntur að hitta þau, líkt og þau hann. Þrátt fyrir búsetu sitt hvorum megin á landinu hefur samgangur milli barnanna verið mikill, ótal samverustundir sem byggðu upp náin tengsl. Tæknin tengdi þau enn betur saman, enda auðvelt að spjalla og spila tölvuleiki milli landshluta.
Það gat gengið mikið á þegar fjölskyldurnar hittust, mikið hlegið og ærslast. Þegar lætin í yngri frændsystkinunum keyrðu um þverbak drógu Hrannar og Þorbjörg sig stundum í hlé og ræddu málin en fyrr en varði var hópurinn sameinaður á ný. Við vorum líka svo heppin að fá Hrannar nokkrum sinnum einan í heimsókn til Akureyrar. Þá var alltaf ákveðin dagskrá, farið í krokket og kubb, á Hamra og völlinn, út að borða og í ísbúð. Hann var eftirsóttur heiðursgestur.
Við höfum fylgst með Hrannari vaxa og þroskast. Við munum lítinn strák í enskum skólabúningi sem vissi allt um risaeðlur. Við munum bjarthærðan dreng í Barcelona-treyju, ákafan í að fá fólk með sér út á völl, engin miskunn fyrir miðaldra frænku. Við munum sjálfstæðan peyja sem hikaði ekki við að velja United í fjölskyldu af eldheitum Liverpool-aðdáendum. Við munum myndarlegan ungling með flotta klippingu og smekk fyrir logandi sterkum sósum.
Við eigum ótal minningar um Hrannar með börnunum okkar. Við sjáum hann fyrir okkur að borða kolkrabba á Grikklandi með Þórarni, í bökunarkeppni með Önnu, á leyniskrafi með Þorbjörgu. Við sjáum þau fyrir okkur fjögur saman í fjörunni á Borðeyri að horfa á hnúfubaka leika sér nærri flæðarmálinu; Hrannar alveg heillaður enda ákafur dýravinur.
Hrannar var ljúfastur allra en ekki laus við skap, kappsamur en hljóðlátur. Hann var einlægur og hreinskilinn, hafði sínar meiningar. Hann var lúmskur húmoristi og sýndi leynda hæfileika í myndböndum frændsystkinanna, lék afa sinn meistaralega. Hann vissi ótrúlegustu hluti og fylgdist með öllum tækninýjungum, að því er virtist áður en þær urðu til. Hann var áhrifavaldur í frændsystkinahópnum. Við eldhúsborðið heima voru hugmyndir foreldranna um tölvumál iðulega leiðréttar með formálanum: „Nei, þetta er ekki rétt, Hrannar segir að …“
Í síðasta sinn sem við sáum Hrannar sat hann í sófanum heima hjá sér að horfa á fótbolta, svolítið slappur að sjá en líka þreyttur eftir pílukeppni með frændsystkinunum. Hann var á leið á spítala í lyfjameðferð, við á leið norður. Við vorum varla búin að meðtaka krabbameinsgreininguna þegar stóra höggið reið yfir. Við náum þessu ekki enn.
Það er óskiljanlegt að hann sé dáinn og óendanlega erfitt en einhvern veginn verðum við að halda áfram. Elsku Þórður og Eyrún, Heiðar og Unnur Sara, Hrannar var einstakur. Við minnumst hans af mikilli hlýju og þakklæti fyrir að hafa fengið að vera þátttakendur í lífi hans. Hann verður alltaf með okkur, ævinlega einn af hópnum.
Brynhildur Þórarinsdóttir og Þóroddur Bjarnason.
Elsku Hrannar Daði er látinn. Það er gersamlega ómögulegt að ná utan um þá staðreynd og höfum við reynt, án árangurs, að skilja hvað hefur gerst. Hann fékk allt of skamman tíma á þessari jörð og fylgir andláti hans óbærileg sorg í hjörtum allra sem hann þekktu. Hrannar var ljúfur og klár drengur og átti gríðarlega bjarta framtíð fyrir sér. Fótunum hefur verið kippt undan Þórði, Eyrúnu og börnum þeirra og sendum við þeim alla okkar strauma svo þau megi finna styrk til að halda áfram.
Elsku Hrannar Daði er nú farinn
og eftir standa öll heimsins spurnarorð.
Hjartað verður sárt og sálin marin
er sannur drengur fellur fyrir borð.
Nú heyrist ekkert stef þó klukkan slái.
Hann stöðvað hefur stundaglassins sand.
Ég óska þess að góða ferð hann fái
er flytur hann í minninganna land.
(GGG)
Gunnar Geir, Fríða Björk, Kristinn Örn og María Dís.
Kveðja frá Tækniskólanum.
Það var okkur í Tækniskólanum mikil harmafregn að frétta af andláti nemanda okkar Hrannars Daða.
Hrannar Daði hóf nám við Tækniskólann haustið 2022. Hann lagði stund á grunnnám rafiðna og stefndi í framhaldinu á nám í rafeindavirkjun en þar lá hugur hans.
Hrannar Daði var dagfarsprúður, kurteis og ljúfur drengur. Hann var eldklár og einbeittur og með skýra sýn á hvað hann vildi læra. Hann var samviskusamur og sjálfstæður í verkefnavinnu og kom oft með öðruvísi lausnir en hópurinn. Hann vandaði til verka og lagði áherslu á að skilja það sem hann gerði. Þá var hann hjálpsamur og liðsinnti samnemendum sínum í þeim fögum sem lágu sérlega vel fyrir honum eins og rafmagnsfræði og stýringum. Samnemendur hans lýsa honum sem hugljúfum og þægilegum vini sem gott var að leita til. Hann hafi verið skemmtilegur og hjálpsamur og í reynd góður kennari.
Við kveðjum Hrannar Daða með söknuð og hlýju í hjarta. Við þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast þessum einstaka og góða dreng ásamt foreldrum hans sem studdu son sinn á svo fallegan og góðan hátt.
Við sendum Eyrúnu Maríu, Þórði Heiðari, Unni Söru, Heiðari og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
F.h. Tækniskólans,
Hildur skólameistari,
Inga Jóna náms- og starfsráðgjafi og Einar Gunnar kennari og fagstjóri.