Unfrosted McCarthy og Seinfeld ná ekki að kitla hláturtaugarnar.
Unfrosted McCarthy og Seinfeld ná ekki að kitla hláturtaugarnar. — Skjáskot/Netflix
Þeir sem þekkja mig vita hversu mikil áhrif sjónvarpsþættirnir Seinfeld hafa haft á líf mitt. Ég get nánast þulið upp heilu þættina fram og til baka, og oftar en ekki get ég vísað til þeirra í hinum ýmsu aðstæðum sem ég lendi í

Stefán Gunnar Sveinsson

Þeir sem þekkja mig vita hversu mikil áhrif sjónvarpsþættirnir Seinfeld hafa haft á líf mitt. Ég get nánast þulið upp heilu þættina fram og til baka, og oftar en ekki get ég vísað til þeirra í hinum ýmsu aðstæðum sem ég lendi í.

Ég varð því skiljanlega mjög spenntur þegar ég sá að Jerry Seinfeld, sem bjó til Seinfeld-þættina ásamt Larry David og lék aðalhlutverkið í þeim, hefði ákveðið að búa til kvikmynd sem fjallaði um það þegar „Pop-Tarts“-sætabrauðið var fundið upp, en Netflix tók myndina, sem heitir Unfrosted, til sýningar á dögunum.

Seinfeld hefur lengi verið með bæði morgunkorn og sætindi af þessu tagi á heilanum og var því yrkisefnið skiljanlegt, en hann náði þar að auki að fá sumar af helstu kanónum Bandaríkjamanna í gamanleik til þess að leika í myndinni. Má þar t.d. nefna gamanleikkonurnar Melissu McCarthy og Amy Schumer, auk þess sem Christian Slater og Hugh Grant láta einnig til sín taka í misstórum hlutverkum.

Myndin nær samt aldrei neinu flugi og hún byggist í raun á einni hálffyndinni hugmynd, sem verður fljótt frekar þunn. Það er helst að Peter Dinklage nái að kitla hláturtaugarnar í gestahlutverki sínu sem nokkurs konar „mjólkur-mafíósi“. Gagnrýnendur vestanhafs hafa sumir sagt myndina eina þá verstu sem gefin hafi verið út. Ég er ekki alveg sammála því, en Seinfeld skaut hins vegar fram hjá markinu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson