Ingvar Hólmgeirsson, skipstjóri og útgerðarmaður, fæddist á Látrum í Eyjafirði 15. júní 1936. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 9. maí 2024.

Foreldrar hans voru Hólmgeir Árnason, f. 27. mars 1910, d. 10. febrúar 1988, og Sigríður Sigurbjörnsdóttir, f. 24. janúar 1913, d. 2. nóvember 2001.

Ingvar var elstur sjö systkina, en hin eru: Jóhanna Árný, f. 1937, d. 1960, Guðmundur Aðalbjörn, f. 1939, Sigurjón Ævar, f. 1941, d. 1967, Sigrún Björg, f. 1942, d. 1984, Ása Dagný, f. 1945, og Elsa, f. 1951.

Ingvar kvæntist Björgu Gunnarsdóttur frá Marahúsi á Húsavík, f. 11. janúar 1939, d. 13. júlí 1999. Ingvar og Björg eignuðust tvær dætur, Jóhönnu, f. 1961, og Sigríði, f. 1965. Barnabörnin eru fimm talsins: Ingvar Þór, f. 1983, Marta Björg, f. 1988, Halldóra, f. 1996, og tvíburarnir Andri Þór og Sandra Rún, f. 1998.

Sambýliskona Ingvars til nokkurra ára, eftir lát Bjargar, var Særún Sigurgeirs.

Útför fór fram í kyrrþey.

Pabbi okkar Ingvar Hólmgeirsson fæddist á Látrum í Eyjafirði árið 1936 á þeim tímum sem menn stunduðu sjálfsþurftarbúskap og lifðu á því sem landið og sjórinn gáfu á hverjum tíma.

Þegar hann var á þriðja ári, árið 1939, fluttu foreldrar hans, Hólmgeir Árnason og Sigríður Sigurbjörnsdóttir, til Flateyjar á Skjálfanda og þangað hafa ræturnar legið æ síðan.

Það verður ekki annað sagt um pabba en að hann hafi fæðst inn í sjómannsfjölskyldu enda var faðir hans, Geiri afi, útgerðarmaður og sjómaður góður til fjölda ára. Enda fór svo að pabbi fór sem liðléttingur aðeins átta ára gamall með föður sínum til veiða frá Flatey á fjögurra tonna eikarbát sem bar nafnið Sævar TH 215. Nokkru síðar, eða þegar hann var 11 ára gamall, var hann munstraður sem fullgildur sjómaður á Sævar TH. Gert var út frá Flatey á línu og handfæri og fiskaðist yfirleitt vel.

Eftir hefðbundna skólagöngu í Flatey, Reykjum í Hrútafirði og á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu, þaðan sem hann útskrifaðist með landspróf, lá leiðin í Stýrimannaskólann, þar sem hann aflaði sér skipstjórnarréttinda. Það var mikið gæfuspor því í gegnum tíðina var hann einstaklega farsæll skipstjóri og sagði gjarnan stoltur frá því að hann hefði átt áfallalausa útgerðarsögu.

Pabbi og mamma bjuggu lengst af í Laugarbrekku 20 á Húsavík. Þegar pabbi var 29 ára að aldri keypti hann bát frá Hrísey og stofnaði útgerðarfélagið Vísi hf. á Húsavík ásamt feðgunum Herði og Þórhalli og Dagbjarti og Sigtryggi. Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. rak Svan ÞH 100 og síðan Sigþór ÞH 100. Það rak einnig fiskvinnslu í landi á Húsavík, þar sem verkað var í skreið og saltfisk.

Það var alltaf talað af miklu stolti um sjómannsstarfið á okkar heimili og ófáar ræðurnar fengum við að heyra um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar á þeim tíma. Það var fylgst með veðurfréttum og aflabrögðum eins og spennandi framhaldsþáttum og vinsælustu dægurlögin í útvarpinu fengu gjarnan að víkja fyrir „bátabylgjunni“, sem oftar en ekki var stillt á, svo að hægt væri að hlusta á samskipti skipstjóra á sjó í beinni útsendingu.

Pabbi var alla tíð afar músíkalskur og naut þess að taka fram harmonikuna, hvenær sem tækifæri gafst. Glíman við harmonikuna hófst þegar hann var aðeins tíu ára gamall. Hann fór þó aldrei í tónlistarskóla, en hafði músíkina meðfædda og spilaði alltaf eftir eyranu, eins og sagt er um þá sem ekki „þarf“ að skóla til í tónlistinni.

Pabbi var öflugur liðsmaður í Sambandi íslenskra harmonikuunnenda (SÍHU) um langt árabil og formaður þess um hríð. Á seinni árum stofnaði hann „Hljómsveit Ingvars Hólmgeirssonar“ og tróð upp á böllum hér og þar og rifjaði þar með upp „gamla“ takta frá unglingsárum, en Ingvar og Jóhanna Árný systir hans spiluðu gjarnan saman á dansleikjum í Samkomuhúsinu í Flatey á Skjálfanda, þegar eyjarskeggjar ákváðu að lyfta sér upp.

Pabbi var alla tíð mjög virkur í félagsmálum ýmiss konar og má þar nefna 15 ára stjórnarsetu hans fyrir útgerðarmenn á Húsavík í stjórn Fiskiðjusamlags Húsavíkur. Einnig var hann stjórnarformaður í Vélsmiðjunni Foss um nokkurra ára skeið og tvö ár í Slippnum á Húsavík.

Hann sat í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna í átta ár og í stjórn Síldarútvegsnefndar í sex ár.

Nú hefur pabbi okkar og skipstjórinn Ingvar Hólmgeirsson leyst landfestar við þessa jarðvist og lagt upp í sína hinstu siglingu til sumarlandsins.

Jóhanna og Sigríður.

Elsku afi minn. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þér og fá að njóta nærveru þinnar alla mína ævi. Ég kynntist þér átta daga gamall og var ávallt mikið fjör þegar við tveir komum saman. Gæðastundunum á Húsavík og í Flatey mun ég aldrei gleyma. Á seinni árum ævi þinnar naut ég þess að annast þig og sérstaklega að fara með þér í útilegur. Sú staðreynd að þú varst afi minn var aukaatriði, þú varst einfaldlega minn besti vinur. Það er sárt að þurfa að kveðja þig á þessum tímapunkti en svona er lífið. Ég bið fyrir kveðju til Boggu ömmu og kætist yfir því að þið séuð sameinuð á ný. Takk fyrir allt, elsku afi.

Ingvar Þór Kale.