Judi Dench
Judi Dench
Enska leikkonan Judi Dench varð ansi hissa í viðtali við enska tímaritið Radio Times á dögunum þegar hún frétti af því að farið væri að vara leikhúsgesti við því að eitt og annað í leiksýningum gæti komið þeim í uppnám, til dæmis ofbeldi og hávaði

Enska leikkonan Judi Dench varð ansi hissa í viðtali við enska tímaritið Radio Times á dögunum þegar hún frétti af því að farið væri að vara leikhúsgesti við því að eitt og annað í leiksýningum gæti komið þeim í uppnám, til dæmis ofbeldi og hávaði. Slíkar viðvaranir hafa tíðkast til nokkurra ára í ensku leikhúsi.

„Drottinn minn dýri, það hlýtur að vera löng viðvörun fyrir sýningar á Lé konungi eða Títusi Andróníkusi!“ segir Dench. Hún skilji af hverju leikhúsgestir séu varaðir við en séu þeir svona viðkvæmir ættu þeir kannski ekki að fara í leikhús. Þeir eigi á hættu að verða hneykslaðir eða miður sín. „Hvar er hið óvænta, að sjá eða skilja verkið með sínum hætti?“ spyr Dench. Tilefni spurningarinnar var þau ummæli fyrrverandi listræns stjórnanda Royal Shakespeare Company að kvíðið fólk ætti að forðast verk sem kæmu því í uppnám.