Baldur Baldursson fæddist 24. desember 1949. Hann lést 3. maí 2024.

Útför Baldurs fór fram 15. maí 2024.

Elsku Balli frændi er fallinn frá eftir löng og ströng veikindi.

Það er skrýtið að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hitta okkar skemmtilega frænda aftur, sem hefur verið svo stór partur af lífi okkar systkinanna.

Balli frændi var alltaf svo mikill töffari. Hávaxinn, myndarlegur og dökkur yfirlitum, iðulega klæddur í gallabuxur, gallajakka og kúrekastígvél og með tattú, sem var alls ekki eins algengt þegar við vorum börn og það er í dag. Hann var fyndinn, skemmtilegur og góður en einnig mjög kaldhæðinn og stríðinn.

Það var alltaf spennandi að kíkja niður til Balla frænda þegar maður var í heimsókn hjá ömmu á Þorfinnsgötunni því þar kenndi ýmissa að grasa. Hann var með nammistand sem maður gat sett pening í og fékk þá fullt af m&m-nammi. Klósettið hans var líka með spotta sem maður togaði í til að sturta niður!

Það var alltaf mikill samgangur á milli Balla frænda og fjölskyldunnar okkar. Hann kíkti reglulega við í kaffi og þeir bræðurnir hjálpuðust að með ýmislegt. Þegar mamma veiktist af krabbameini hringdi hann á hverjum einasta degi og spurði frétta, hann vildi fylgjast með og vita hvernig mömmu liði og það þótti okkur afskaplega vænt um. Á bak við töffaralegt útlitið og kaldhæðinn húmorinn var svo hlýr og góður karl.

Elsku Balli frændi, takk fyrir samfylgdina. Vonandi ertu að hafa það huggulegt núna og fá þér kók og gúmmelaði með þeim sem fóru á undan. Blessuð sé minning þín.

Elsku Anna Jóna, Valdimar, Malena og fjölskyldur, við samhryggjumst ykkur innilega.

Svanhildur Anna
og Hulda Guðrún.