Fylgi Katrínar Jakobsdóttur og Höllu Hrundar Logadóttur dalar nokkuð á milli kannana í Þjóðarpúlsi Gallup sem gerður er fyrir Ríkisútvarpið. Þær eru þó enn í forystu. Katrín og Halla Hrund mældust með um 25% fylgi í síðasta Þjóðarpúlsi fyrir viku

Fylgi Katrínar Jakobsdóttur og Höllu Hrundar Logadóttur dalar nokkuð á milli kannana í Þjóðarpúlsi Gallup sem gerður er fyrir Ríkisútvarpið. Þær eru þó enn í forystu. Katrín og Halla Hrund mældust með um 25% fylgi í síðasta Þjóðarpúlsi fyrir viku. Katrín mælist nú með 23% fylgi en Halla Hrund 21%.

Baldur Þórhallsson er þriðji með 19% en ekki er tölfræðilega marktækur munur á milli Katrínar, Höllu Hrundar og Baldurs. Halla Tómasdóttir mælist nú með 15% fylgi og bætir við sig fjórum prósentustigum á milli kannana. Aðrir frambjóðendur mælast með svipað fylgi á milli kannana.

Stærsti hluti fylgis Katrínar og Höllu Hrundar kemur frá eldri kjósendum. 37% af 70 ára og eldri svarendum völdu Katrínu og 34% fólks á aldrinum 60-69 ára. 35% af 70 ára og eldri styðja Höllu Hrund en 28% þeirra sem eru 60-69 ára. Aldurshópurinn 50-59 ára velur helst Katrínu, eða 26%, en litlu færri velja Baldur, eða 25%.

Baldur fær mestan stuðning frá fólki á aldrinum 30-59 ára. Um fjórðungur fólks á aldrinum 30-39 ára velur Baldur, en hann er vinsælastur frambjóðenda í þeim aldursflokki. Jón Gnarr fær mest af sínu fylgi frá yngri kjósendum. 30 ára og yngri eru líklegri til að kjósa Jón en nokkurn annan frambjóðanda, eða 23% þeirra.

Katrín sækir stærsta hluta fylgis síns til höfuðborgarsvæðisins en Halla Hrund fær frekar fylgi frá landsbyggðinni. Fólk með háskólapróf velur Katrínu helst, en fólk með grunnskólapróf, sem hefur ekki lokið framhaldsnámi, styður Höllu Hrund frekar en aðra frambjóðendur. Heildarúrtak könnunarinnar var 2.625 manns og þátttökuhlutfall 52,8%. Hún var gerð 10. til 16. maí.

Halla Hrund efst hjá Prósenti

Halla Hrund mældist með 26% fylgi í síðustu vikulegu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið sem var kynnt síðasta mánudag. Hún hafði tapað töluverðu fylgi á milli vikna samkvæmt þeirri könnun, en hún mældist með tæplega 30% fylgi í fyrri könnun.

Katrín mældist með 19,2% fylgi á mánudaginn en Baldur með 17,9%. Jón Gnarr mældist með 13,8% fylgi. Þau Katrín, Baldur og Jón töpuðu öll fylgi á milli vikna. Halla Tómasdóttir mældist með 12,5% fylgi, meira en tvöfalt það sem hún hafði fengið vikurnar áður. anton@mbl.is