Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Á hvítasunnudag biðjum við um andann heilaga.

Gunnar Björnsson

„En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.“

(Jóhannesarguðspjall 14. kapítuli, 26. vers.)

Þegar við höldum okkar kristnu hátíðir, þá er það ekki aðeins í minningarskyni. Að vísu rifjum við þá upp liðna atburði. En um leið er sem þeir gerist að nýju. Og þetta, sem forðum átti sér stað, hefur meiri þýðingu en nokkuð annað, já, meiri en orð fá lýst. Það snertir alla, endurtekur sig sífellt í hjörtum okkar og varðar líf okkar mest alls.

Þetta á við um hvítasunnuna, hátíð andans. Færa má fyrir því rök, að hún sé jafnvel mest allra hátíða kirkjunnar. Og hér er fleira á ferð en einungis að hlýtt sé á frásögnina af því er Drottinn úthellti anda sínum á hvítasunnudaginn. Við gerum ekki einasta að halda upp á og minnast þess mikla dags þegar kirkjan fylltist krafti af hæðum og öðlaðist hugrekki til þess að standa frammi fyrir heiminum og vitna um Jesú Krist, krossfestan og upprisinn. Hvítasunnudagur er enn í dag hátíðin, þegar við í fyllstu alvöru biðjum um andann heilaga og bíðum þess í trú, að Guði þóknist að úthella honum yfir kirkju sína – enn á ný.

Ef til vill finnst okkur að þetta ætti að vera ónauðsynlegt. Þurfum við á því að halda, að andanum sé úthellt yfir okkur, úr því að við höfum öðlast hann í skírninni? En það er nú einu sinni svo, að hið sama gildir um andann og vindinn, að hann blæs þar sem hann vill. Við stjórnum honum ekki. Og við eigum hann ekki eins og innistæðu á bankabók. En andinn er allt um það hjá okkur sem lífgefandi Drottinn, straumur lífs frá sjálfum Guði, sem sífellt kemur til okkar til þess að veita okkur innblástur á ný. Þess vegna þurfum við ævinlega að biðja um endurnýjun andans, biðja þess, að andinn komi til okkar og yfir okkur. Að hann verði hjálpari okkar og huggari.

Himneski faðir! Þú hefur heitið okkur andanum, sem endurnýjar okkur og endurfæðir. Þú sendir okkur hann. Þú miskunnar þig yfir sköpun þína og lætur anda þinn fylla hana gleði og krafti. Láttu heilagan anda þinn einnig koma til okkar. Láttu hann hreinsa okkur og gera okkur að nýrri sköpun, fyllta lifandi trú á þig.

Góði Jesú Kristur! Við biðjum þig um hjálparann, sem þú lofaðir okkur, andann heilaga sem getur kennt okkur allt það sem svo brýnt er að muna og minnt okkur á allt, sem þú hefur sagt. Okkur hættir svo til að gleyma því. Láttu hann stöðugt birta okkur ásýnd þína og rödd.

Góði heilagi andi, þú sem endurfæðir og lætur lífið eilífa blómstra í þessari dauðans veröld, gef oss andans bjarta vor, þar sem allt fyllist lífi, vex og ber ávöxt, þann ávöxt sem þú einn færð veitt. Drottinn, þú sem ár hvert endurnýjar ásjónu jarðar, þú megnar líka að endurnýja kirkju þína. Gef að svo megi verða sakir þíns heilaga nafns. Amen.

Höfundur er pastor emeritus.

Höf.: Gunnar Björnsson