[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef lesið margar góðar bækur upp á síðkastið en það eru nokkrar sem standa upp úr. Náðarstund eftir Hannah Kent segir sögu Agnesar Magnúsdóttur þegar hún bíður aftöku sinnar og er því söguleg skáldsaga

Ég hef lesið margar góðar bækur upp á síðkastið en það eru nokkrar sem standa upp úr.

Náðarstund eftir Hannah Kent segir sögu Agnesar Magnúsdóttur þegar hún bíður aftöku sinnar og er því söguleg skáldsaga. Það er stórkostleg bók sem hélt mér algjörlega fanginni meðan á lestrinum stóð. Að vera komin inn í hugarheim konu árið 1829 sem hafði verið dæmd til dauða var stórmerkilegt.

Gegnumtrekkur eftir Einar Lövdahl er algjörlega dásamleg, hrá, mannleg og falleg. Hún er fyrsta skáldsaga Einars og hann á mikið hrós skilið fyrir. Bókin er mjög vel skrifuð og það er auðvelt að tengja við persónur og leikendur. Einar má vera mjög stoltur af frumraun sinni.

Svo verð ég að nefna Sjö eiginmenn Evelyn Hugo sem er ein af mínum uppáhaldsbókum. Hún á algjörlega sérstakan stað í hjarta mínu. Taylor Jenkins Reid er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég get mælt með öllum hennar bókum sem ég hef lesið. En Evelyn Hugo er einstakur karakter og söguþráðurinn er svo vel fléttaður að útkoman er hreint listaverk.

Sú næsta sem mig langar að nefna er Where the Crawdads Sing eftir Deliu Owens. Það er algjörlega mögnuð saga sem spilar inn á allan tilfinningaskalann. Einstök saga um stúlku sem elst upp við ótrúlegar aðstæður en finnur sínar leiðir til að lifa af.

Í lokin má ég til með að mæla með Næturgalanum eftir Kristin Hannah. Það er söguleg skáldsaga sem gerist í seinni heimsstyrjöldinni í Frakklandi og varpar ljósi á stöðu kvenna í stríði. Þeirra sjónarhorn sést sjaldan og það gerði þessa bók margbrotna. Ég hágrét yfir henni sem er ágætis mælikvarði á tilfinningaþræðina sem spilað var inn á.