Endurkoma Kári Jónsson sneri aftur í Valsliðið eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Hann komst mjög vel frá sínu, þrátt fyrir að vera eilítið ryðgaður.
Endurkoma Kári Jónsson sneri aftur í Valsliðið eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Hann komst mjög vel frá sínu, þrátt fyrir að vera eilítið ryðgaður. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Deildarmeistarar Vals eru komnir yfir í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta eftir sigur á Grindavík í fyrsta leik á heimavelli sínum á Hlíðarenda í gærkvöldi, 89:79. Liðin voru hnífjöfn í hálfleik, 37:37, en Valur lagði grunninn að sigrinum með góðum þriðja leikhluta

Á Hlíðarenda

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Deildarmeistarar Vals eru komnir yfir í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta eftir sigur á Grindavík í fyrsta leik á heimavelli sínum á Hlíðarenda í gærkvöldi, 89:79. Liðin voru hnífjöfn í hálfleik, 37:37, en Valur lagði grunninn að sigrinum með góðum þriðja leikhluta.

Heimamenn byrjuðu leikhlutann af krafti, náðu mest 15 stiga forskoti og sigldu sigrinum af öryggi í höfn í lokaleikhlutanum. Grindvíkingar gerðu hvað þeir gátu til að minnka muninn undir lokin en Valur var með svar við öllu sem gestirnir reyndu.

Um mikla liðsframmistöðu var að ræða hjá Val því sex leikmenn skoruðu átta stig eða meira. Kristinn Pálsson skoraði mest fyrir heimamenn eða 18 stig. Kristófer Acox gerði 17 og Taiwo Badmus 15.

Kári sneri aftur

Þá sneri Kári Jónsson aftur í lið Vals eftir um hálfs árs fjarveru vegna meiðsla. Kári lék 13 mínútur, skoraði átta stig og gaf þrjár stoðsendingar. Hann er skiljanlega aðeins ryðgaður en sýndi flott tilþrif inn á milli.

Stigahæsti maður vallarins var Bandaríkjamaðurinn DeAndre Kane hjá Grindavík með 37 stig. Dedrick Basile skoraði 22 stig og Ólafur Ólafsson níu. Aðrir komust varla á blað og eiga leikmenn eins og Kristófer Breki Gylfason, Daniel Mortensen, Julio De Asisse og Valur Orri Valsson mikið inni.

Það verða fleiri að spila vel hjá Grindavík til að eiga möguleika á að vinna sterkt Valslið í sjálfu úrslitaeinvíginu. Kane vinnur ekki Val einn síns liðs, þrátt fyrir að hann sé góður. Hann virtist lítið treysta liðsfélögum, enda gaf hann ekki eina einustu stoðsendingu í leiknum.

Næsti leikur fer fram í Smáranum, þar sem Grindvíkingar hafa komið sér afar vel fyrir og ekki tapað einum einasta leik á árinu. Síðasta tap Grindavíkur á heimavelli var gegn Stjörnunni 7. desember, en ef eitthvert lið getur unnið Grindavík á útivelli er það Valsliðið.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson