Draumar, konur og brauð „Einlæg og falleg saga af kraftmiklum konum.“
Draumar, konur og brauð „Einlæg og falleg saga af kraftmiklum konum.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís Draumar, konur og brauð ★★★·· Leikstjórn: Sigrún Vala Valgeirsdóttir og Svanlaug Jóhannsdóttir. Handrit: Sigrún Vala Valgeirsdóttir og Svanlaug Jóhannsdóttir. Aðalleikarar: Svanlaug Jóhannsdóttir og Agnes Eydal. 2024. Ísland. 90 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Titill myndarinnar ­Draumar, konur og brauð gefur góða innsýn í hvað myndin fjallar um en hún fjallar um drauma, konur og brauð eða kannski frekar sætindi. Myndin fylgir tveimur ólíkum konum, Svönu söngkonu (Svanlaug Jóhannsdóttir) og Agnesi líffræðingi (Agnes Eydal) á töfrandi hringferð um landið þar sem þær heimsækja kraftmiklar konur sem reka hugguleg kaffihús en sérhvert kaffihús hefur sín sérkenni og sjarma.

Sagan hefst á því að Svana kemur við á kaffihúsinu við víkina í leit að hattinum sínum en þar kemst hún að því að heiðursgesturinn á Sólstöðuhátíð sveitarinnar eftir viku er enginn annar en Milla Kristjánsdóttir formaður menningarnefndar. Svana ákveður þá að skrifa nýja útgáfu af leikritinu sínu, Í hennar sporum, til að sýna Millu á hátíðinni og fer af stað í hringferð til að sækja sér innblástur. Hún býður Agnesi, sem þarf að fara austur á firði að sækja sjósýni, far. Á leiðinni koma þær við á fimm kaffihúsum og kynnast þar ólíkum konum, draumum þeirra og töfrunum á bak við uppskriftirnar sem Agnes uppljóstrar að sjálfsögðu fyrir vinkonu sinni Sigrúnu (Sigrún Vala Valgeirsdóttir).

Leikstjórarnir og handritshöfundarnir Sigrún Vala Valgeirsdóttir og Svanlaug Jóhannsdóttir blanda saman ýmsum kvikmyndagreinum en jafnvel þó að konurnar í myndinni séu bara að leika sjálfar sig þá er ekki um að ræða heimildarmynd þar sem hringferðin sjálf er algjör uppspuni. Eflaust væri mest viðeigandi að flokka Drauma, konur og brauð sem tegund af töfraraunsæi þar sem höfundarnir flétta hversdagslegum veruleika saman við draumkennda veröld sem sækir til þjóðsagna. Aðalpersónurnar, Svana og Agnes, eru eflaust ýktustu útgáfurnar af sjálfum sér þar sem þær þurfa mest að móta sig að frásagnarframvindunni. Svana er mjög skrautlegur karakter og í byrjun eiga eflaust einhverjir áhorfendur erfitt með að samþykkja hana sem raunverulega persónu en þegar þeir læra að söguheimurinn lýtur öðrum lögmálum en raunveruleikinn samþykkja þeir hana. Það verður ekki ótrúlegt að Svana skuli allt í einu vera komin í síðkjól og farin að syngja hástöfum einhvers staðar úti í náttúrunni, líkt og Maria (Julie Andrews) í Söngvaseiði (1965), af því líkt og í þeirri mynd er það í takt við persónuna og söguheiminn. Leikhúslegur leikur Svanlaugar verður því ekki lengur truflandi. Það sem undirritaðri fannst hins vegar stinga í stúf við söguna er þegar Svana syngur á öðru tungumáli. Atriðin þar sem hún syngur á íslensku eru í takt við viðfangsefnið af því myndin fjallar um íslenskar konur víðs vegar um landið, það tók því undirritaða út úr sögunni þegar Svana söng á öðru tungumáli eins og um væri að ræða einhverja erlenda söngvamynd. Annað sem undirritaðri fannst ekki í takt við söguna er þegar Svana ákveður að fara með kokkinum (Örn Helgason) fyrr af Sólstöðuhátíðinni og í staðinn fyrir að vera eftir með öllum áhugaverðu konunum sem hún er búin að kynnast í þessari ferð.

Agnes á, ólíkt Svönu, að vera miklu jarðbundnari, kannski stundum einum of stíf, en hún er greinilega úr heimi áhorfenda, þ.e. raunveruleikanum. Hún á að vera „venjuleg“ en leikur hennar er ónáttúrulegur sem gerir það að verkum að hún er ekki sannfærandi persóna sem er mikill ókostur þar sem myndin fylgir þeim tveimur nánast allan tímann.

Líkt og um leikinn hjá Agnesi Eydal vantar oft upp á gæðin í ákveðnum þáttum. Það eru t.d. nokkur smáatriði sem taka mann út út sögunni eins og þegar Sigrún stendur á sviðinu ásamt Siggu í Nesbæ eftir að hafa viðurkennt að hafa svindlað í kökukeppninni en beint frá því sjónarhorni er klippt í skot af salnum klappa en þá er Sigrún allt í einu komin í áhorfendasalinn.

Þótt handritið flokkist undir töfraraunsæi er nauðsynlegt að áhorfendum standi ekki á sama. Miðpunktur myndarinnar, þ.e. þegar það kemur í ljós að Svana færði ­Agnesi marensköku en ekki sýnið, er til dæmis ekki sterkur heldur virkar hann frekar eins og aðeins of langur brandari. Áhorfendur átta sig ekki á því hvað er í húfi og er því alveg sama. Einnig eru nokkur atriði sem virðast tilgangslaus. Atriðið þar sem þær komast að því að galdrasafnið sé lokað í Hólmavík út af athöfn í Ljósadal og þær enda ekki einu sinni í athöfninni heldur týnast, bætir t.d. engu við söguna. Önnur fylgir hjartanu og hin höfðinu en báðar villast þær og finna ekki athöfnina. Það er kannski einhver sögn í því en hún kemst ekki almennilega til skila. Í staðinn eru áhorfendur einfaldlega bara hugsi yfir því af hverju atriðið er í myndinni ef ekkert raunverulega gerist. Á meðan umrætt atriði er óljóst eru áhorfendur heilt yfir mataðir með upplýsingum. Eins og til dæmis í sama atriði, þá sjá áhorfendur læstar dyr og miða fyrir utan galdrasafnið og átta sig á því að það er lokað. En Agnes segir þá: „Af hverju ætli það sé lokað?“ Undirrituð horfði þá bara á skjáinn nánast pirruð og hugsaði: „Lestu bara miðann.“ Þegar Svana les svo af miðanum og Agnes segist ekki vera spennt að fara á galdraathöfnina segir Svana: „Heyrðu, Agnes. Ekki alltaf inni í kassanum.“ Aftur er eins og það sé verið að mata áhorfendur en þeir eru löngu búnir að átta sig á því að Svana og Agnes eiga að vera andstæður. Agnes er föst í kassanum og Svana leikur lausum hala.

Það sem er hins vegar áhugaverðast við myndina eru konurnar sem tvíeykið kynnist á leiðinni. Það er virkilega gaman að heyra sögur kvennanna og hvernig þær eru oft tengdar heimaslóðum þeirra. Sögur þeirra eru oft mjög hjartnæmar, það er farið yfir brostna drauma og missi en þrátt fyrir það virðast þær allar vera mjög hamingjusamar. Sigríði Hafliðadóttur sem rekur kaffihúsið Kaffi-Litlabæ í Skötufirði langaði til dæmis að verða ljósmóðir en eins og hún orðaði það þá hafði hún einfaldlega ekki tök á því. Það er einnig gaman að sjá hóp af konum dýfa kleinum í kaffi og heilu fjölskyldurnar enn þá á sama stað og enn þá í fallegu lopapeysunum okkar.

Strax í upphafi læra áhorfendur að galdrar eru hluti af þessum raunveruleika en í byrjunaratriðinu kynnumst við spákonu (Erna Ósk Arnardóttir Lilliendahl) sem fylgist með ferðalagi tvíeykisins. Konurnar sem reka kaffihúsin kannast flestar líka við galdra og segja ýmsar sögur, ein þeirra, Ólína Gunnarsdóttir sem rekur samkomuhúsið á Arnarstapa segir m.a. frá því að vinkona hennar hafi farið í trans fyrir framan hana og hafi þannig farið aftur í tímann þar sem Ólína var að reka kaffihús í Frakklandi. Áhorfendur trúa sérstaklega sögum þessara kvenna af því þær eru úr raunveruleikanum og hafa enga ástæðu til þess að ljúga. Tónlist spilar stóran þátt í því að koma töfrum myndarinnar til skila. Agnar Már Magnússon tónskáld semur stefin en Una Stefánsdóttir á einnig tvö frumsamin lög.

Draumar, konur og brauð er þrátt fyrir fyrrnefnda vankanta mjög einlæg og falleg saga af kraftmiklum konum víðs vegar um landið. Það er virkilega frískandi að fá að heyra sögur þessara kvenna og eftir að hafa horft á myndina langaði undirritaða að fara að ferðast um landið og kíkja á öll þessi kaffihús sem þessar sterku konur reka.