Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Við höfum sett heilmikla vinnu í að greina stöðu allra mála í þingnefndum og átt samtöl á milli stjórnarflokkanna. Afraksturinn af því er þegar farinn að birtast okkur í samþykkt mála í þessari viku sem fengið hafa sérstakan forgang, eins og breytingar á lögum um útlendinga,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður að því hvort farið væri að skýrast hvaða lagafrumvörp ríkisstjórnin legði höfuðáherslu á að verði að lögum fyrir sumarleyfi Alþingis.
Samkvæmt starfsáætlun Alþingis verða ekki haldnir þingfundir það sem eftir lifir þessa mánaðar sökum forsetakosninga sem haldnar verða 1. júní, en þó verða þingnefndir að störfum þrjá daga í næstu viku. Alþingi kemur saman á nýjan leik 3. júní og áformað er að þingfrestun verði 14. júní, en mögulegt er að þing starfi eitthvað lengur og fer það eftir því hvernig málum vindur fram.
Bjarni segir að næst verði sest niður með stjórnarandstöðunni til að ræða fyrirkomulag þinghaldsins í júní.
„Það verður að meta eftir atvikum hvort ástæða sé til eða sérstök þörf á að lengja þingfundi eins og oft hefur gerst í sögunni. Þetta er tiltölulega knappur tími en málafjöldinn er í sögulegu samhengi ekki ægilegur,“ segir Bjarni.
Tugir þingmála bíða afgreiðslu
Margir tugir þingmála bíði afgreiðslu, en hann kveðst bjartsýnn á að takast muni að ljúka bróðurparti þeirra mála sem fyrir liggja frá ríkisstjórn.
Spurður um hvaða mál ríkisstjórnin setji í algeran forgang, sagði Bjarni að ríkisstjórnin hefði verið skýr með að frumvörp dómsmálaráðherra um hælisleitendamál og lögreglumál væru í forgangi.
Útlendingafrumvarpið um hælisleitendur var samþykkt eftir 2. umræðu á Alþingi í gær, en gert er ráð fyrir að þriðja og síðasta umræða um það frunvarp fari fram í byrjun júní.
„Það eru fleiri mál frá ráðherrum í mínum flokki, eins og nokkur mál frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, en sum þeirra eru að klárast nú en önnur eru enn til meðferðar. Úr mínu ráðuneyti get ég nefnt frumvarp um mannréttindastofnun sem er að klárast,“ segir Bjarni.
Stór mál í forgangi
„Frá ríkisstjórninni eru ýmis stór og mikilvæg mál í forgangi. Þar get ég m.a. nefnt frumvarp um lagareldi sem ætlað er að ná utan um með skýrari hætti og í ljósi reynslunnar það regluverk sem gilda á hér á landi um fiskeldi í sjó og heiti frumvarpsins vísar til og hefur breiðari skírskotun fyrir allt lagareldi. Það er mikilvægt mál.
Við erum með sögulegt frumvarp í þinginu frá félagsmálaráðherra um breytingar á örorkukerfinu. Það er frumvarp sem hefur verið kallað eftir að lágmarki í 10 ár, með einum eða öðrum hætti. Við höfum áður, til dæmis í ríkisstjórninni sem mynduð var árið 2017, tekið frá fjármagn til að vinna í anda þeirra breytinga sem nú er verið að kynna, þannig að þetta er frumvarp sem á sér mjög langan aðdraganda. Það er mikið fagnaðarefni að það er loksins að verða að veruleika. Það eru góðar kerfisbreytingar, mestu kerfisbreytingar í örorkulífeyriskerfinu sem við höfum séð í fjölda ára,“ segir Bjarni.
„Þetta eru dæmi um nokkur mikilvæg mál; hælisleitendamálin, lögreglumálin, örorkumálin, lagareldismálin, en það liggja líka fyrir ýmis frumvörp frá öðrum ráðherrum sem vert væri að nefna sem áhersla er lögð á að komist í gegn á þessu þingi,“ segir Bjarni.