— Morgunblaðið/Eggert
Það er skemmtilegt að sjá fyrir sér það þegar Jón forseti var í einni af ferðum sínum heim frá Kaupmannahöfn. Þær ferðir voru ekki mjög margar. Þá var m.a. róið með hann úr Skerjafirði og yfir á Álftanes til að hitta nafngreinda merkismenn og á heimleiðinni sótti Jón Sigurðsson Grím Thomsen heim á Bessastaði, þar sem Grímur dvaldi þá með foreldrum sínum.

Nú er tæplega hálft ár í bandarísku forsetakosningarnar, en barátta forsetaefnanna, þeirra vegna, hefur þegar staðið meira eða minna í heilt ár þar á undan! Sumum okkar hér uppi á skerinu skondna, svo elskulegt sem það er á alla lund, sýnist að svo sem mánuður dugi í okkar kosningar og eru þó kandídatarnir hér komnir upp í tólf og fjarri því að margir háttvirtir kjósenda komi þeim öllum fyrir sig. Frambjóðendur hér á landi eru skikkaðir í fjölmiðlaviðtöl og gera það auðvitað glaðir. En í slíku fjölmenni frambjóðenda, sem eru óneitanlega af margvíslegu tagi, eru svör, rök og skoðanir æði margbreytileg. En þar er þeim ætlað að gera landsmönnum grein fyrir því, hvernig þeir ætli sér að umgangast forsetaembættið, löggjafarsamkunduna og hina raunverulegu ráðamenn landsins, verði kjósendur svo skynsamir eða að minnsta kosti svo vinsamlegir að velja viðkomandi mann í virðingarsætið á Álftanesi. Það er ekki laust við að það geti vafist fyrir frambjóðendum að svara slíkum spurningum og hvað þá kjósendum. Ekki síst ef allmargir frambjóðenda hafa lent í því að verða á undan þeim til svars, sem fer eftir reglum spyrjendanna, sem reyna örugglega að hafa röðina eins sanngjarna og hægt er, eða að minnsta kosti að láta hana lúta eins konar tilviljunum.

Stjórnarskrá er höggvin í grjót

Vandinn er sá að leiðarvísirinn eini sem frambjóðendum er fært að starfa eftir er stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og er þó fremur takmarkaður um bein verkefni forsetans og skyldur og ekki síst takmarkar að auki þau verkefni sem forsetanum er heimilt að taka til sín og öðrum skuli falin. En sumir frambjóðendur hafa reynt að slá í gegn í augum kjósenda með því að gefa til kynna að þeir, verði þeir forsetar að kosningum loknum, muni „taka sér vald“ til að gleðja kjósandann eða gefa honum von og hafa þeir sumir leitast við að útskýra þann galdur sinn. Fullyrða má, að minnsta kosti, að yrði viðkomandi sem þannig lofar upp í ermina á sér að ósk sinni um úrslitin í slag um Bessastaði, yrði stjórnarskránni fjarri því að vera skemmt, þótt hún tjáði sig ekki.

Það sem gerir þennan þátt umræðunnar sérlega vandræðalegan er að nú er komin nokkur reynsla á forsetaembættið og allmargir ágætir menn og velviljaðir flestir hafa fengið tækifæri til að sýna okkur á spil embættisins. Nokkrir frambjóðendur hafa lofað að beita „neitunarvaldi forsetans“ sem er þó ekki neitunarvald, rétt eins og það vald sé endilega brýnt hagsmunamál almennings. Nú er það orðið svo, að flest lagasetningarefni síðari tíma er sent inn í íslenska stjórnkerfið frá Brussel og millilendir í hinum og þessum ráðuneytum og þaðan er því fleytt inn í þinghúsið og lítið lesið þar. Í umræðum um „neitunarvaldið“ er þessi afgreiðsluþáttur þingsins sjálfsagt talinn með, en íslenskir ráðherrar skrifa blindandi undir öll þau plögg frá yfirboðurum sínum ytra. Það er jafnvel svo, að þótt það liggi glöggt fyrir við afgreiðslu íslenska þingsins að tilteknar sendingar séu ekki bindandi, þá eru þær allar sem ein teknar þannig af þinginu, að sendingin hafi ekki komið frá Brussel heldur frá einhvers konar himnaríki svo að öllum beri að bukta sig og signa.

Það er ótvíræð meginregla að samþykktir sem tengjast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru ekki bindandi fyrir Alþingi Íslendinga og forsetar geti neitað þeim og beint í atkvæðagreiðslu fjöldans. Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur var sérstaklega tekið fram, og það af miklum meirihluta þingsins, sem augljóst væri, að þingið væri ekki bundið því að samþykkja slíkar sendingar. Íslendingar ættu val. EES ætti þá rétt á viðbrögðum. Á það mætti sannarlega láta reyna. Allir íslenskir fræðimenn voru þeirrar skoðunar þá að binding þar sem hallaði á Ísland væri alvarlegt brot á íslensku stjórnarskránni. Þeir sem samþykktu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið tóku hver og einn undir þann skilning. Þessi regla var forsenda samningsins.

Nýlegt dæmi, um enn einn delluúrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu minnti á að íslenska dómsvaldið verður ekki flutt út héðan og úr landinu að stjórnarskrá landsins óbreyttri. Hér er því hægt að skera úr um það, hvort sú niðurstaða sem tveir eða þrír dómarar hafa komist að í Strassborg, á milli veisla, sé tæk hingað. Hreyfi slík niðurstaða eitthvað við íslenskum hagsmunum, þá þarf að fá samþykki Íslands sérstaklega fyrir því, ella hefur delluákvörðunin ekkert gildi fyrir okkur. Væri betra að þeir sem ætla sér að fljúga á gullvængjum yfir til Bessastaða horfi til grundvallaratriða eins og þeirra sem fyrr voru nefnd. Jón Sigurðsson var raunverulegur baráttumaður og þótt hann væri fjarri því að verða lýðræðiskjörinn forseti hefur enginn sterkari ímynd „forsetans“ en Jón forseti, sem sumir vilja halda sér við að heitið sé frá Bókmenntafélaginu komið, en Jón gegndi einnig forsetaembættum í þinginu 10 sinnum, þótt vald þess væri þá takmarkað. Það er skemmtilegt að sjá fyrir sér það þegar Jón forseti var í einni af ferðum sínum heim frá Kaupmannahöfn. Þær ferðir voru ekki mjög margar. Þá var m.a. róið með hann úr Skerjafirði og yfir á Álftanes til að hitta nafngreinda merkismenn og á heimleiðinni sótti Jón Sigurðsson Grím Thomsen heim á Bessastaði, þar sem Grímur dvaldi þá með foreldrum sínum. Á þeim árum var haft mikið fyrir öllu á Íslandi. Og það er svo sannarlega ekki lakara að Jón forseti hafi sótt Bessastaði heim, eins og aðrir forsetar hafa löngum gert á eftir honum.

Upphafsorðin í bréfinu voru um kosningabaráttuna í Bandaríkjunum og hversu lengi baráttan sú stendur þar. Forsetaefnin eru vissulega fyrirferðarmest og því vill gleymast að einnig er slegist ákaft um fjölda annarra embætta og þar á meðal þau sem eftirsóttust eru. Þá er kosið um þriðjung öldungadeildarþingmanna, til 6 ára í senn, og alla þingmenn fulltrúadeildarinnar, en kjörtímabil þeirra er aðeins 2 ár. Þá er þriðjungur ríkisstjóra einnig kjörinn og fylkisþingin og þannig mætti lengi telja. Um öll þessi valdamiklu embætti er slegist, en forsetaembættið og slagurinn um það yfirskyggir allt.

En þó er það einhver skuggalegasti þáttur í þessum forsetakosningum nú að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna, sem lýtur forsetanum, er beitt út í æsar til að stofna til rannsókna gegn mótframbjóðandanum og tugir rannsóknarefna hafðir þar undir gegn Donald Trump. Ýmsar tilraunir eru gerðar til að pína Donald Trump á milli réttarsala og fylkja til að reyna að koma í veg fyrir að hann geti sinnt kosningabráttu sinni. Fjölda dómsmála hefur þegar verið hent út, m.a. af Hæstarétti Bandaríkjanna, en til að mynda stendur nú yfir skrítið dómsmál, sakamál kallað í New York. Í þeim hluta þessarar borgar höfðu demókratar og Biden fengið 90% atkvæða í kosningunum síðast, en Trump og repúblikanar 10% atkvæðanna. Saksóknarinn er alræmdur um margt, en hann hafði oft og lengi lýst því yfir að hann myndi ekki hætta „fyrr en hann næði Trump!“ Þetta er eina dæmið um slíka misnotkun gegn forseta Bandaríkjanna.

Lögfræðingar bentu á þá óskráðu reglu í málum sem ber að ljúka með kviðdómsmeðferð að þá séu málaferlin flutt til innan fylkis, ef augljóslega hallar mjög á ákærða, og því sé aðeins hreint formsatriði að setja réttarhald á svið. Dómarinn er stuðningsmaður Bidens, en þó ekki í jafn stórum stíl og dóttirin og eiginkona dómarans, sem grætt hafa milljónir dollara í samvinnu við Biden og flokk hans. Dómarinn lét allt þetta eins og vind um eyrun þjóta. Málið snýst í rauninni um minna en ekki neitt, en vonir demókrata standa til að Trump truflist í kosningabaráttu sinni vegna þessara árása, þar sem Biden stendur mjög höllum fæti á flestum vígstöðvum. En hingað til hefur hið furðulegasta gerst að eftir því sem dómstólaárásunum fjölgar styrkist Trump í þeim könnunum sem gerðar eru.

Einir með úrelta reglu

Það er margt sem er kyndugt varðandi lýðræðið í Bandaríkjunum sem kemur Íslendingum spánskt fyrir sjónir þegar þeir kynna sér það. Í fimm fylkjum sem demókratar ráða hefur þeim enn sem komið er tekist að drepa „hugmyndir“ um það að kjósendum sé gert skylt að sýna persónuskilríki, eins og hvarvetna er gert í hinum vestræna heimi. Demókratar bera það fyrir sig að slík krafa sé „rasísk“ þar sem kröfu um persónuskírteini sé beint að blökkumönnum!

Sú viðbára er auðvitað miklu frekar niðurlægjandi. En það sem vekur hvað mesta athygli í núverandi kosningum er að fylgi Donalds Trumps á meðal blökkumanna hefur vaxið ótrúlega hratt! Sama er að segja um spænskumælandi kjósendur, þar sem hóparnir eru nánast orðnir jafnir víða.

Í Bandaríkjunum hefur á síðustu áratugum verið hefð fyrir því að fram fari 2-3 kappræður á milli forsetaefnanna. Joe Biden hefur hafnað því fram til þessa. En nú gerðist það að þrýst var á hann af hans eigin mönnum að hann samþykkti slíkar kröfur, en Trump hafði áður sagt að hann væri sjálfur til í að eiga slíkar kappræður og helst þrjár hvar sem er og hvenær sem er. Nú skyndilega kom tilkynning frá mönnum Bidens um að forsetinn gæti samþykkt kappræður með þeim skilyrðum sem Biden setti, enda hefði Trump sagt að hann skipti sér ekki af stund né stað. Biden segist vilja keppa við Trump með eftirfarandi skilyrðum: Að engir áhorfendur séu á kappræðunni! Kappræðurnar yrðu tvær og stýrt af áköfum fréttamönnum demókrata frá CNN. Forsetaefnin mættu tala í tvær og hálfa mínútu í hvert skipti og þá yrði slökkt á míkrófóni þess sem hefði lokið sínum mínútum. Ekki mætti hafa þriðja kappræðumanninn með (Robert Kennedy jr.). Þrátt fyrir þessi skrítnu skilyrði sagðist Trump standa við að þessu mætti Biden ráða.