Landsréttur Alls bárust réttinum 912 ný mál í fyrra. Þar af voru kærð sakamál 376 talsins og fjölgði um 115 mál eða 44% frá árinu á undan.
Landsréttur Alls bárust réttinum 912 ný mál í fyrra. Þar af voru kærð sakamál 376 talsins og fjölgði um 115 mál eða 44% frá árinu á undan. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is. Ekki dró úr starfsálagi á dómendur við Landsrétt á síðasta ári. Alls bárust Landsrétti 912 ný mál á árinu og hafa þau aldrei verið fleiri á einu ári í sögu réttarins. Til samanburðar bárust Landsrétti 840 ný mál á árinu 2022 og 805 á árinu á undan.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ekki dró úr starfsálagi á dómendur við Landsrétt á síðasta ári. Alls bárust Landsrétti 912 ný mál á árinu og hafa þau aldrei verið fleiri á einu ári í sögu réttarins. Til samanburðar bárust Landsrétti 840 ný mál á árinu 2022 og 805 á árinu á undan.

Þetta má sjá í málatölum Dómstólasýslunnar. Þar kemur fram að inkomnum málum hjá héraðsdómstólunum fjölgaði einnig mikið milli ára, voru 13.618 í fyrra en 10.530 á árinu á undan. Dómar og úrskurðir voru kveðnir upp í 1.818 málum hjá héraðsdómstólunum, töluvert fleiri en á árinu á undan og óafgreidd mál voru 2.597 talsins um áramót.

Hæstarétti bárust 57 áfrýjunar- og kærumál í fyrra, tveimur færri en á árinu á undan. Rétturinn kvað upp 51 dóm á árinu, nokkru færri en á árinu á undan þegar dómarnir voru 60 en þeir voru 55 á árinu 2021. Hæstarétti bárust 160 málskotsbeiðnir á seinasta ári en þær voru 172 á árinu 2022. Málafjöldinn hefur nokkuð sveiflast á seinustu árum. Við breytingarnar á dómstólaskipaninni með stofnun nýs millisdómstigs, Landsréttar, árið 2018 var dómurum við Hæstarétt fækkað og eru nú sjö dómarar við réttinn.

350 óafgreidd mál um áramót

Fram kom í frétt hér í blaðinu í vikunni að Dómstólasýslan hefur vakið athygli fjárlaganefndar á þröngri fjárhagsstöðu dómstóla, vanfjármögnun héraðsdómstóla og að lítið sem ekkert svigrúm sé til lækkunar kostnaðar hjá Landsrétti, Hæstarétti og Dómstólasýslunni.

Talin hefur verið mikil þörf á fjölgun dómara við Landsrétt vegna álags og málahala og var dómurum fjölgað um einn á síðasta ári. Eru nú 16 dómarar við réttinn en alla jafna eru 15 dómarar við störf hverju sinni. Afgreidd voru 928 mál í Landsrétti í fyrra, mun fleiri en á árinu á undan þegar þau voru 854, en í árslok voru 350 óafgreidd mál við réttinn, lítið eitt færri en á árinu á undan.

Gunnar Viðar, skrifstofustjóri Landsréttar, segir heildarfjölda mála hafa aukist umtalsvert. „Það hafa aldrei komið fleiri mál inn til okkar á einu ári,“ segir hann. Þó fjöldinn væri svipaður á fyrsta starfsári réttarins stafaði það af því að 75 sakamál voru send Landsrétti frá Hæstarétti í upphafi ársins. „Þetta veldur augljóslega auknu álagi á réttinn og er ekki líklegt til að gefa okkur færi á að vinna niður málahalann,“ segir Gunnar um málafjöldann í fyrra.

„Fjölgunin er aðallega í kærðum sakamálum. Þar er gríðarlegur vöxtur undanfarin tvö ár og hann heldur áfram á þessu ári. Þau mál eru þess eðlis að þau eru afgreidd á einum til þremur dögum og það þurfa þrír dómarar að koma að hverju slíku máli.“

Þróunin hefur verið sú sama það sem af er þessu ári. „Kærðum sakamálum heldur áfram að fjölga. Þau eru orðin fleiri en á sama tímabili í fyrra. Annað er á svipuðu róli og á seinasta ári en mér sýnist núna að talsvert af áfrýjuðum málum sé að koma inn. Ég á ekki von á öðru en að þau verði eitthvað fleiri heldur en í fyrra miðað við stöðuna núna,“ segir hann.

„Það er ekki útilokað að málahalinn styttist örlítið í haust en ég get ekki ábyrgst að sú stytting verði varanleg. Við erum að ná að halda í horfinu.“

Segir stórfelldan samdrátt í verkefnum Hæstaréttar

Fleiri dómarar en þörf er á

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur í ræðu og riti gagnrýnt fjölda dómara við Hæstarétt eftir að Landsréttur tók til starfa. Í pistli sem hann skrifaði á vef JSG lögmanna í apríl, undir yfirskriftinni Lystisemdir dómara á kostnað skattgreiðenda, segir hann að eftir breytingarnar 2018 hafi sýnilega verið efni til að fækka dómurum við Hæstarétt a.m.k. niður í fimm vegna stórfellds samdráttar í verkefnum. Ber hann saman starfsálagið árin 2010 og 2022. „Árið 2010 voru kveðnir upp 710 dómar en 60 dómar árið 2022. Dæmdum málum hefur því fækkað um 650 eða ca. 88%. Beiðnum um áfrýjunarleyfi hefur hins vegar fjölgað, en hafa verður í huga að vinna við afgreiðslu þeirra er miklu minni en við þau mál sem ganga til dóms. Ef fjölda þessara beiðna er bætt við fjölda dæmdra mála kemur í ljós að málunum fækkar (milli áranna 2010 og 2022) úr 767 í 232, þ.e.a.s. um meira en tvo þriðju hluta.“ 2010 hafi hver dómari tekið þátt í 426 afgreiðslum en 2022 í 165. Eftir að Landsréttur tók til starfa hafi dómendur við Hæstarétt því verið fleiri en þörf er á. Þeir hafi sinnt öðrum störfum meðfram dómsstörfunum og auk þess fái þeir miklu meiri tíma en áður til orlofsferða til annarra landa.

Höf.: Ómar Friðriksson