Varanasi Rask kom þangað 1821.
Varanasi Rask kom þangað 1821.
Nýlega var mér boðið að flytja fyrirlestra við tvo háskóla á Indlandi, í Nýju-Delhi og Varanasi, um danska Íslandsvininn Rasmus Kristian Rask. Indversku áheyrendurnir voru ekki síst forvitnir um Austurlandaferð hans á árunum 1816-1823

Tungutak

Þórhallur Eyþórsson

tolli@hi.is

Nýlega var mér boðið að flytja fyrirlestra við tvo háskóla á Indlandi, í Nýju-Delhi og Varanasi, um danska Íslandsvininn Rasmus Kristian Rask. Indversku áheyrendurnir voru ekki síst forvitnir um Austurlandaferð hans á árunum 1816-1823. Eins og Íslendingar vita dvaldist Rasmus Kristian Rask hér á landi á árunum 1813-15 og samdi þá verðlaunaritgerð um uppruna íslensku. Fyrir ritgerðina hlaut hann gullmedalíu danska vísindafélagsins en hún kom ekki út fyrr en 1818 þegar höfundurinn var í langferð sinni sem átti eftir að bera hann alla leið til Indlands og Sri Lanka. Hvernig stóð á þessu ferðalagi, hver var tilgangurinn og hvernig gekk?

Með stuðningi Danakonungs lagði Rask af stað í sjö ára rannsóknarferð til að kynna sér Austurlandamál og öðlast þar með betri hugmyndir um uppruna norrænna mála. Rask gerði sér grein fyrir því að án kunnáttu í sanskrít, hinu klassíska fornmáli Indlands, væri ekki hægt að gera nægilega vel grein fyrir skyldleika indóevrópskra mála. Dæmi úr sanskrít sem sýna tengslin eru pitar, matar, bhratar sem samsvara íslensku faðir, móðir, bróðir – og þannig mætti áfram telja.

Rask fór sér að engu óðslega. Eftir dvöl í Svíþjóð og Rússlandi lagði hann upp í hina eiginlegu austurför árið 1819: um Tbilisi í Georgíu, Tehran og Shiraz í Persíu (Íran) til Bombay (nú Múmbaí) á Indlandi. Þar steig hann á land í september 1820 og var vel tekið af landstjóra Breta sem greiddi götu hans og útvegaði honum handrit. Rask unni sér ekki hvíldar heldur lagði af stað þvert yfir Indland: til Agra, sem er fræg fyrir hið undursamlega Taj Mahal, og Varanasi, þar sem enn í dag fara fram áhrifamiklar útfarir hindúa við ána Ganges. Loks komst hann til Calcutta (Kolkata) og var þá mjög af honum dregið, líkamlega og andlega.

Í Madras (Chennai) dvaldi Rask nokkra mánuði til að safna kröftum en náði þó að semja ritgerð á ensku um fornpersnesku og læra tamílamál, sem hann áttaði sig á að tilheyrði annarri ætt en hinni indóevrópsku. Í nóvember 1821 sigldi Rask suður til Colombo á Sri Lanka. Þar rannsakaði hann palí, helgimál búddista, en einnig aðrar tungur, fornar og nýjar, og eignaðist sjaldgæf handrit á pálmalaufum.

Heimferðin gekk ekki þrautalaust. Í mars 1822 strandaði enskt skip sem Rask hafði fengið far með en honum tókst að bjarga ómetanlegum fjársjóði austurlenskra handrita sem hann hafði viðað að sér. Í desember 1822 náði hann loks skipi í dönsku nýlenduborginni Frederiksnagore. 5. maí 1823 kom hann til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið hálft sjöunda ár á ferðum.

Þvert á áform sín auðnaðist Rask ekki að skrifa sanskrít-málfræði, enda dó hann langt um aldur fram, tæpra 45 ára. Það kom í hlut annarra lærdómsmanna að vinna það starf. Handritin sem hann safnaði eru þó á meðal helstu djásna Konungsbókhlöðunnar í Kaupmannahöfn en eru enn lítt rannsökuð.