Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, verður næsti biskup Íslands. Hún tekur við embættinu 1. júlí og verður vígð 1. september. Hún er önnur konan sem verður biskup, tekur við af Agnesi M. Sigurðardóttur.
Spurð hvort það skipti máli að kona sé biskup segir Guðrún: „Núna skiptir það máli. Það skiptir máli vegna þess að með því að velja konu sem biskup á eftir fyrstu konunni sem varð biskup þá er búið að brjóta glerþakið í þjóðkirkjunni.“
Hún segist hafa orðið trúuð strax sem barn. „Ég ólst upp í kirkjulegu umhverfi, mér voru kenndar bænir og við fjölskyldan fórum reglulega í kirkju. Ég var heittrúað barn og bað Guð um hvað eina. Ef það var ekki uppfyllt þá gafst ég ekkert upp heldur bað bara ákafar.
Afi minn, sr. Kristján Bjarnason, var prestur á Reynivöllum í Kjós og þar áður á Raufarhöfn. Það var ekki síst amma mín, Guðrún Guðmundsdóttir, sem lagði ríka áherslu á bænina og trúna og fór með bænir með mér, en foreldrar mínir gerðu það líka. Fyrir ofan hjónarúm afa og ömmu var falleg biblíumynd þar sem englar gæta barna sem eru að ganga yfir brú. Það er stórt gat á brúnni og þar fossar áin ógnvekjandi undir. Ég held enn mikið upp á þessa mynd.“
Faðir Guðrúnar, Karl Magnús Kristjánsson, vann lengst af sem starfsmannastjóri á Alþingi og móðir hennar, Helga Einarsdóttir, starfaði sem leikskólakennari. Guðrún er elst fjögurra systkina. Fjölskyldan upplifði mikinn harm þegar yngsta barnið, sonur, lést 19 ára gamall. „Hann svipti sig lífi. Þá var ég um þrítugt og bjó í Svíþjóð. Þetta var gríðarlegt áfall fyrir alla fjölskylduna og hefur eðlilega sett mark sitt á líf okkar allra.“
Hafði þetta mikla áfall einhver áhrif á trú þína?
„Trúin er það sem hefur komið mér í gegnum öll áföll í mínu lífi, ekki síst á fullorðinsárum. Ég bið, reyni að leggja allt í Guðs hendur og treysti almættinu. Þegar ég lít til baka sé ég að ég hef hreinlega verið borin í gegnum erfiðustu tímana, þótt ég hafi yfirleitt ekki áttað mig á því fyrr en eftir á.“
Hefurðu aldrei efast í trúnni?
„Jú, oft. Ég segi: Guði sé lof að ég efast stundum vegna þess að ég held að efi sé ein forsenda trúarþroskans. Trúin og efinn eru systkin og í raun hluti af trúarlífi hverrar hugsandi manneskju sem veltir trú fyrir sér.
Ég fór í ákveðna uppreisn á unglingsárum eins og algengt er. Fermingin aftrúaði mig enda þótti mér fermingarfræðslan óhemjuleiðinleg. Sjálfsmyndin var ekki sterk á þessum árum. Mér fannst erfitt að halda fermingarveislu þar sem ég var aðalatriðið. Ég ákvað í kjölfarið að trúin væri ekkert fyrir mig.
Á menntaskólaárunum fór ég aftur að leita til Guðs og upplifði oft sterka nálægð æðri máttar. Ég lagðist í heimspekilegar pælingar um Guð og trú. Á síðasta ári í menntaskóla lærði ég siðfræði og kennarinn minn þar var guðfræðingur sem lagði mikla áherslu á Biblíuna. Þá komst ég að því hvað Biblían er merkileg og dásamleg bók. Ég ákvað upp úr því að fara í guðfræði en ætlaði alls ekki að verða prestur, ég taldi það starf engan veginn eiga við mig. Svo gleymdi ég þessu og skráði mig í sagnfræði um haustið. Góð kona í tengdafjölskyldunni minnti mig á síðsumars að ég hefði sagt að ég ætlaði í guðfræðina. Ég fann þá að mig langaði það enn og fór og breytti skráningunni. Eftir eitt ár í guðfræði vissi ég að ég væri komin á rétta hillu og gæti jafnvel mögulega orðið prestur. Ég sótti mikið kirkju á þessum árum og naut þess að hlusta á góðar prédikanir.
Um leið og ég var búin með námið fór ég til Svíþjóðar en maðurinn minn var þá prófessor við háskóla í Gautaborg. Það tók mig þrjú og hálft ár að fá prestvígslu í sænsku kirkjunni. Ég var prestur á tveimur stöðum í Svíþjóð í tæplega fimm ár. Svo komum við heim. Eldri dóttirin var þá komin á menntaskólaaldur og tengdamóðir mín var veik. Við hjónin fengum bæði vinnu hér heima. Maðurinn minn, Einar Sveinbjörnsson, er prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Ég hef verið prestur og sóknarprestur hér í Grafarvogskirkju í samtals 16 ár.“
Virðing fyrir fjölbreytileika
Hjónin eiga tvær dætur, önnur þeirra er trans. „Það kom okkur mjög á óvart þegar hún sagði okkur frá því en það var haustið eftir að hún fermdist,“ segir Guðrún. „Við veljum ekki hvaða verkefni við fáum sem foreldrar og verkefni okkar er fyrst og fremst að elska, styðja og standa með börnunum okkar. Ég hef alltaf verið með opinn huga fyrir því að við mannfólkið erum alls konar en þetta varð þó til þess að ég finn enn sterkar hversu miklu máli það skiptir að við tökum öllum manneskjum eins og þær eru og berum virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Ég held að ný kynslóð sé að kenna okkur ýmislegt þegar kemur að þessu.“
Hefur dóttir ykkar eða þið fjölskyldan mætt fordómum vegna þessa?
„Aldrei nokkurn tímann. Það hafa allir tekið þessu vel. Til að byrja með ruglaðist fólk stundum á kyni þegar það talaði við hana en það er bara eðlilegt og hún skilur það. Hún er í Menntaskólanum í Hamrahlíð þar sem fólk fær að vera eins og það vill. Hún er mjög sátt og örugg í dag og líður vel í þessum skóla.“
Guðrún hefur sem prestur ætíð látið sig mannréttindi varða og staðið ötullega með hinsegin samfélaginu en regnbogafáninn er málaður á kirkjutröppur Grafarvogskirkju. Árið 2016 lagði Guðrún ásamt séra Vigfúsi Bjarna Albertssyni fram á kirkjuþingi tillögu þess efnis að ekki mætti neita samkynja pari um hjónavígslu í þjóðkirkjunni. Tillagan var samþykkt.
Er ekki nokkuð undarlegt að kirkjan, sem er stofnun sem ætti að taka fagnandi á móti öllum, skyldi svo lengi útiloka samkynhneigða?
„Kirkjan brást. Þar af leiðandi stendur hún í skuld við hinsegin samfélagið. Kirkjan átti strax að opna faðm sinn fyrir fjölbreytileikanum. Meirihluti presta stóð samt alltaf með hinsegin samfélaginu, það er mikilvægt að því sé haldið til haga, þótt kirkjan sjálf gerði það ekki formlega fyrr en of seint.“
Þú ert í frjálslyndari hóp kirkjunnar manna. Svo er annar hópur sem er íhaldssamari, finnst þér hann vera til vandræða?
„Eftir því sem ég eldist á ég auðveldara með að skilja að það hugsa ekki allir eins, og ég kann sífellt betur að meta breiddina. Ég held að það sé afar mikilvægt að vera ekki eingöngu í bergmálshelli heldur virða ólík sjónarmið. Ég vil leiða kirkju sem er víð og breið.“
Er karlremba innan kirkjunnar?
„Ekki í sjálfri presta- og djáknastéttinni. Karlremban var þó nokkur hér áður fyrr enda aðeins 50 ár síðan fyrsta konan vígðist hér á landi, það er ekki langur tími.
Ég kynntist alvöru karlrembu í kirkjunni í Svíþjóð. Þar var hópur presta í mínu biskupsdæmi sem litu niður á konur og settu þá sýn í trúarlegan búning. Fyrir prestvígslu í sænsku kirkjunni þarf prestsefni að svara spurningunni: Muntu vinna með prestum af báðum kynjum? Viðkomandi fær ekki að vígjast nema svarið sé jákvætt. Það sem hefur gerst þar er að einstaka karlmenn hafa fengið vitrun frá Guði eftir vígslu sem segir þeim að prestvígsla kvenna sé ekki sönn.
Staða kynja og sýnin á kynin innan kirkjunnar hér á landi endurspeglar bara samfélagið og samfélagið endurspeglar kirkjuna. Að mínu mati hefur kirkjan aldrei skorið sig neitt sérstaklega úr samfélaginu hér á Íslandi þegar kemur að jafnréttismálum.“
Ekki auðvelt starf
Það er ekki alltaf auðvelt að vera biskup. Agnes M. Sigurðardóttir hefur í embætti sínu fengið á sig gagnrýni sem hefur á köflum verið óvægin og jafnvel einkennst af andúð.
„Já, gagnrýnin á hana var oft óvægin. Nokkrum í fjölskyldunni leist ekkert allt of vel á að ég yrði biskup vegna þess að það hefur mætt mjög mikið á síðustu biskupum og starf þeirra hefur ekki alltaf verið auðvelt. Því fannst ekki öllum sem standa mér nærri sérstaklega skynsamlegt að ég gæfi kost á mér sem biskup því þau vilja mér vel.“
Af hverju bauðstu þig fram til biskups?
„Segja má að ástæðan sé köllun, innri og ytri köllun, mikil hvatning fólks og innri hugsjón og trú á það að ég geti sinnt þessari þjónustu vel. Ég treysti því að Guð leiði mig í þessu eins og öðru. Við, þjónar kirkjunnar, lítum svo á að við séum ekki ein í þjónustunni heldur sækjum við styrk til Guðs og það á reyndar við um flest trúað fólk. Það er svo gott að geta hvílt í þessu þegar þjónustan verður þung. En ég er líka umkringd einstöku fólki og góðum ráðgjöfum sem vilja bæði mér og kirkjunni vel.“
Margt er kirkjunni mótdrægt, það dregur úr trú og fólk treystir ekki lengur stofnunum í sama mæli og áður. Sem biskup vilt þú örugglega gera þitt til að laga þetta en kannski er það ómögulegt.
„Ég geng ekki með þá tálsýn að kirkjan verði aftur trúfélag 90 prósenta Íslendinga. Samfélagsgerðin er allt önnur en hún var þegar sú staða var uppi og við erum ekki á leiðinni þangað aftur. En kirkjan á fullt inni. Ég vil beita mér fyrir því að kirkjan taki meira pláss, þetta pláss sem hún á inni. Hún á enn fullt erindi við þjóðina á svo mörgum sviðum. Í aðdraganda biskupskjörs ferðaðist ég um landið og hitti fólk. Ég sá svo skýrt hvað kirkjan á mikið inni. Um landið allt er fólk sem elskar kirkjuna sína og vill að hún standi sterk.
Ég get ekki séð að það sé eða hafi verið flótti úr kirkjunni undanfarin ár. Hins vegar hefur fjöldi fólks í kirkjunni minnkað sem hlutfall af heildinni enda samfélagsgerðin tekið miklum breytingum á undanförum árum. Ef við tökum prófastsdæmið mitt sem dæmi, sem er Reykjavíkurprófastsdæmið eystra, Kópavogur, Breiðholt, Árbær, Grafarholt og Grafarvogur, þá eru tæplega 60 prósent íbúa sem tilheyra þjóðkirkjunni. En ef við tökum fólk sem er fætt á Íslandi þá er hlutfallið nær 80 prósentum. Þrátt fyrir allt er kirkjan tæplega 230.000 manna hreyfing. Það er heill hellingur af fólki. Á venjulegri viku, þegar ekkert sérstakt er að gerast, koma yfir 3.000 manns í Grafarvogskirkju, sem er ansi mikill fjöldi. Hingað kemur fólk á stærstu stundum lífsins, sínum erfiðustu, gleðilegustu og dýrmætustu. Margt fólk sækir sálgæslu til presta og djákna. Þetta er ekki aðeins fólk sem er skráð í þjóðkirkjuna eða skilgreinir sig trúað.
Að þessu sögðu, þá voru úrsagnir úr kirkjunni og hluti af þeim kom í kjölfar erfiðra mála sem kirkjan hefur þurft að takast á við á undanförnum árum. Mín skilaboð til þeirra sem hafa yfirgefið kirkjuna eru að við sjáum eftir hverri einni og einustu manneskju og þau eru ávallt velkomin til baka.“
Getur kirkjan orðið of frjálslynd?
„Mögulega. Kirkjan getur ekki verið eins og lauf í vindi og galopin fyrir öllu. Kirkjan má ekki vera meðvirk og fylgja einhverju af því bara. En kirkjan verður að vera víð og breið. Hún þarf að rúma alla breiddina. Kirkjan getur verið íhaldssöm og frjálslynd á sama tíma. Við getum haldið stolt í okkar hefðir án þess að það þýði að fjölbreytni og margbreytileiki geti ekki blómstrað innan kirkjunnar. Kirkjan verður að vera í samtali við samtíma sinn á öllum tímum og þekkja þann tíma sem hún tilheyrir hverju sinni og vera hluti af honum.
Þrátt fyrir að ég sé að mörgu leyti frjálslynd þá er ég einnig kona hefða. Mér líður mjög vel í klassískri messu og tel hana mikilvæga af mörgum ástæðum. Ég er mikið fyrir klassíska tónlist og pípuorgel en ég hef líka mjög gaman af gospel og alls konar annarri tónlist. Við þurfum að hafa þessa breidd í kirkjunni og fólk þarf að hafa val til dæmis þegar kemur að helgihaldi.“
Finnst þér að prestar og biskup eigi að tjá sig um þjóðfélagsmál?
„Biskup og kirkjufólk á að mínu mati að tjá sig um málefni líðandi stundar og þannig taka þátt í gleði og sorgum þjóðarinnar. Kirkjan á ekki að skipta sér af stjórnmálum en hún á að beita sér fyrir mannúð, friði og mannhelgi. Kirkjan á ávallt að láta sig mannréttindi varða. Hlutverk kirkjunnar er að standa með fólki sem verður undir og hún á að láta í sér heyra ef hún óttast að mannréttindi séu virt að vettugi.“
Allir prestar standa einhvern tímann frammi fyrir fólki sem hefur upplifað gríðarmikla sorg. Þá er presturinn sálusorgari sem þarf að leyna tilfinningum sínum. Hvernig hefur þú tekist á við þetta?
„Þegar ég var að hefja störf sem prestur ráðlagði handleiðarinn minn mér að muna alltaf að sorg annarra væri ekki mín sorg. Þegar ég hitti fólk sem líður óskaplega illa þá hættir mér til að taka það inn á mig. Þá þarf ég, þegar ég fer heim, að fara vel yfir hvað er mitt og hvað er eitthvað sem ég hef tekið inn á mig frá öðrum.
Síðan er mikilvægt að vera í handleiðslu, það er að segja að ræða við einhvern í trúnaði um það sem við erum að ganga í gegnum. Ég er með trúnaðarprest sem ég ræði við um þessa hluti. Það skiptir öllu máli því við vinnum úr hlutum með því að tala um þá. Svo fer ég út að hlaupa eða í líkamsrækt til að hreinsa hugann.“
Þú hleypur reglulega maraþon, er það aðaláhugamálið?
„Það er eitt af áhugamálunum en ég á mörg áhugamál fyrir utan hlaupin. Ég les mikið og prjóna og svo hef ég gaman af að horfa á góða sjónvarpsþætti. Ég á líka svo gott félagslíf og góða fjölskyldu sem ég nýt þess að vera með.“
Myrkur og ljós
Það er undirliggjandi reiði, gremja og pirringur í samfélaginu. Sumir myndu sennilega reiðast ef maður segði að trúin gæti verið svar við þessu.
„Trúin er svarið fyrir marga einstaklinga, ekki alla. Það að iðka trú getur fyllt upp í ákveðið tómarúm. Það að finna æðri tilgang og tengjast því sem er æðra okkur getur veitt ákveðinn innri frið. Að iðka trú er eitthvað sem getur gefið næringu og lífsfyllingu og kirkjan býður upp á svo ótal margt sem getur verið svar við gremju og pirringi.“
Áttu uppáhaldssögu í Biblíunni eða uppáhaldsritningargrein?
„Nei, eiginlega ekki. Það fer yfirleitt eftir stað og stund, líðan og aðstæðum hvað talar mest til mín. Það eru samt ákveðnir textar sem ég leita gjarnan í. Til dæmis 139. Davíðssálmur sem hefst á: Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það. Þessum hluta sálmsins, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, lýkur á orðunum: Myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
Hér er verið að vísa til þess að Guð er með okkur alls staðar. Guð er með okkur í myrkrinu og erfiðleikunum. Guð er með okkur í ljósinu og gleðinni. Guð yfirgefur okkur aldrei. Það er mikil hlýja og öryggi í þessum texta.
Ég hef mikinn áhuga á mannlegum breyskleika, sem fylgir okkur öllum. Eins og Páll postuli segir: Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.
Við eigum þetta öll til. Það er alveg sama hversu heitt við trúum og hversu dásamleg við reynum að vera. Einhvern tímann erum við öll þarna og gerum ekki það góða sem við viljum. Þetta ættum við að hafa í huga í öllum samskiptum og reyna því að vera sparsöm á dóma í garð annars fólks.“