Kristinn Þór Jónsson
Kristinn Þór Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Virkjum framkvæmdagleði og uppbyggingarhug í Fjarðabyggð. Þar liggur trúin á framtíð samfélagsins.

Ragnar Sigurðsson og Kristinn Þór Jónasson

Nýr sterkur meirihluti hefur tekið við bæjarstjórn Fjarðabyggðar, skipaður þremur bæjarfulltrúum Framsóknarflokks og fjórum fulltrúum Sjálfstæðisflokks.

Meirihlutinn kynnti strax metnaðarfullan málefnasamning. Áformin markast af því að taka þurfi mun fastar á fjárhag sveitarfélagsins með agaðri vinnubrögðum. En að sama skapi er hann í takt við kraft og tækifæri til vaxtar í þessu 5.200 íbúa sveitarfélagi.

Þessi kraftur er ekki síst sýnilegur á sviði skipulags- og framkvæmdanefndar. Framkvæmdagleði einstaklinga og fyrirtækja byggist á tiltrú á framtíð samfélagsins. Hún sést ágætlega á úthlutun lóða og útgáfu byggingarleyfa:

Árið 2021 var 25 lóðum úthlutað í Fjarðabyggð, 2022 voru þær 46, 2023 alls 34 og nú þegar í ár hefur 8 lóðum verið úthlutað.

Árið 2021 var 26 byggingarleyfum úthlutað, árið 2022 voru þau 42, og 2023 voru byggingarleyfin 27. Þegar hafa verið gefin út 14 á þessu ári.

Uppbygging í byggðakjörnum

Séu byggðakjarnarnir skoðaðir sést að víða er framkvæmdahugur:

Á Breiðdalsvík er eitt einbýli í byggingu og eitt parhús sem hefur nýlega fengið lokaúttekt. Fram til þessa hefur ekki verið byggt þar íbúðarhús síðan 1994.

Frá árinu 2021 hafa verið byggð á Fáskrúðsfirði tvö einbýlishús og eitt parhús, ný þjónustumiðstöð. Í byggingu er 5 íbúða raðhús og eitt parhús.

Frá 2021 hafa verið byggð á Reyðarfirði 6 einbýli, tvö parhús, eitt hesthús og 5 íbúða raðhús. Í byggingu eru nú 6 einbýli, búsetukjarni, 11 íbúða fjölbýlishús, tvö þriggja íbúða raðhús og eitt iðnaðarhús, endurgerð á tveimur iðnaðarhúsum, auk breytingar á gömlu þjónustuhúsnæði í þrjár íbúðir.

Á Eskifirði frá 2021 hafa verið byggð þrjú parhús og 8 íbúðir í raðhúsum. Í framkvæmd er viðbygging við leikskóla, eitt iðnaðarhús og eitt einbýlishús.

Frá árinu 2021 hafa á Norðfirði verið byggð þrjú einbýlishús, tvö átta íbúða fjölbýlishús, eitt fjögurra íbúða raðhús, tvö tveggja íbúða sambýlishús og fjögur iðnaðarhús, auk eins hesthúss. Í byggingu er 11 íbúða fjölbýlishús, eitt parhús, viðbygging við skrifstofuklasann og nýsköpunarhúsið Múlinn, eitt einbýlishús, eitt frístundahús og viðbygging við gistihús.

Í dag er í Mjóafirði unnið að viðbyggingu við einbýlishús og breyttri notkun og endurgerð Stefánsbúðar í Mjóafirði.

Gerum betur í Fjarðabyggð

Áfram skal haldið. Nýr meirihluti hefur skýr markmið um að ýta undir uppbyggingu enda sýnir húsnæðisáætlun sveitarfélagsins að mikil þörf er á fjölbreyttu húsnæði. Auka þarf framboð ólíkra lóða til muna, hraða lóðaafgreiðslu og efla samráð við húsbyggjendur.

Meirihlutinn leggur áherslu á að auka enn frekar framboð íbúða. Það ætti gera í samstarfi við leigufélagið Bríeti og húsnæðissjálfseignarstofnunina Brák. Markmið Bríetar er að vera hluti af uppbyggingu langtímaleigumarkaðar á landsbyggðinni, rekið án hagnaðarsjónamiða og í samstarfi við sveitarfélög. Gott samstarf við Bríeti og Brák gefur tilefni til enn frekari uppbyggingar leiguíbúðamarkaðar í Fjarðabyggð.

Að sama skapi þarf að örva húsnæðisuppbyggingu með samráði sveitarfélagsins við atvinnulífið. Það verður best gert með klasasamstarfi sveitarfélagsins og atvinnulífsins í Fjarðabyggð.

Metnaður meirihlutans snýr að því að nýta hin mörgu tækifæri til vaxtar. Virkjum betur framkvæmdagleði og uppbyggingarhug íbúa. Þar liggur tiltrú manna á framtíð Fjarðabyggðar sem samfélags.

Ragnar Sigurðsson er formaður bæjarráðs. Kristinn Þór Jónasson er varaformaður skipulags- og framkvæmdanefndar.