Sigurður Hákon Kristjánsson fæddist 20. júní 1927 á Lækjarósi í Dýrafirði. Hann lést á öldrunarheimilinu Sólvangi 6. maí 2024.
Foreldrar hans voru Kristín Halldóra Guðmundsdóttir, f. 8. september 1902, d. 29. nóvember 1989, og Kristján Sigurður Sigurðsson, f. 8. desember 1898, d. 29. október 1956. Bæði fædd í Dýrafirði og búsett í Hafnarfirði frá 1924.
Systkini hans: Eyjólfur, f. 4. ágúst 1929, d. 17. júní 2012, Ingimar Kristjánsson, f. 25. september 1934, d. 29. júlí 2015 Magnús, f. 25. nóvember 1937, og Elísabet, f. 19. nóvember 1942.
Þann 27. október giftist Sigurður Lilju Árnu Sigurðardóttur, f. 15.8. 1928, d. 28.1. 2015. Börn þeirra eru: 1) Kristján Sigurður Sigurðsson, f. 28.6. 1964, kvæntur Huldu Björgu Jónasdóttur, f. 8.4. 1971. Börn þeirra: a) Ingibjörg Lilja, f. 10.6. 1994. Gift Jóhanni E. Sigurðssyni, f. 23.9. 1989. Sonur þeirra Guðmundur Kári, f. 1.7. 2016. b) Sólveig Lára, f. 8.7. 1996, sambýlismaður Valþór A. Birgisson, f. 8.3. 1991. Synir þeirra: Birnir Þór, f. 25.2. 2000, Róbert Aron, f. 1.0. 2022. c) Margrét Linda, f. 25. janúar 1998, sambýlismaður hennar Guðfinnur S. Magnússon, f. 20.6. 1997. Sonur þeirra Júlíus Jarl, f. 31.3. 2023. d) Sigurður Hákon, f. 13.11. 1999. 2) María Sigurðardóttir, f. 27.8. 1967.
Lilja Árna átti tvo syni frá fyrra hjónabandi. 1) Oddur Björn Sveinsson, f. 22.9. 1952, d. 9.8. 2017, fv. maki Kristín Hulda Jóhannesdóttir, f. 30.11. 1949. Börn þeirra Jóhannes Oddsson, f. 23.3. 1977, kvæntur Hlín Guðjónsdóttur. Dóttir þeirra Júlía Kristín, f. 2.11. 2005. Lilja Oddsdóttir, f. 21.8. 1985, sambýlismaður hennar Hákon Zimsen. Dætur þeirra Björg Zimsen, f. 22. júní 2017, Sif Zimsen, f. 14. apríl 2020. 2) Halldór Árni Sveinsson, f. 22.2. 1955, kvæntur Önnu Kristínu Haraldsdóttur, f . 21.7. 1957, d. 15.4. 2022. Synir þeirra: Hilmar Árni Halldórsson, f. 14.2. 1992, Hörður Brynjar Halldórsson, f. 12.7. 1995 og fóstursonur Halldórs, Haraldur Gunnarsson, f. 25.2. 1988. Sigurður ólst upp að mestu leyti hjá ömmu sinni og afa í Dýrafirði, eða frá því að hann var tveggja ára og þar til að hann byrjaði í barnaskóla. Þá fór hann suður og gekk í Lækjarskóla í Hafnarfirði þar sem foreldrar hans bjuggu. Þegar hann hafði lokið barnaskóla fór hann vestur og tók gagnfræðapróf á Núpi í Dýrafirði. Fimmtán ára gamall gerðist hann landpóstur og fór með og sótti póst frá Skeggjastöðum í Miðfirði og allt norður á Hólmavík. Hugur hans stefndi að sjómennsku og sextán ára fékk hann hásetapláss á Maí GK. Árið 1951 settist hann á skólabekk í Stýrimannaskólann og lauk þaðan meira fiskimannaprófi árið 1953. Hann var á togurum og vélbátum þar til hann gerðist stýrimaður á m.b. Þórði Jónassyni frá 1964-1971. Þá fór hann í land og gerðist starfsmaður í álverinu í Straumsvík og vann þar til starfsloka. Hann var heiðraður af Sjómannadagsráði Hafnarfjarðar 1998.
Útför Sigurðar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 21. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku pabbi fékk hvíldina á mánudaginn fyrir viku, hægt og hljótt. Ég er þakklátur fyrir að við nánustu aðstandendur náðum að sitja hjá honum síðasta spölinn. En ég er líka þakklátur fyrir svo margt sem hann var mér og okkur öllum, góðar minningar ylja eftir rúmlega sex áratuga samfylgd. Hann fylgdist vel með gengi okkar allra, vildi heyra frá okkur og vita að allt væri í lagi. Upp á síðkastið hringdi hann til mín ef hann var farið að lengja eftir heimsókn á Sólvang. Öll okkar samtöl enduðu á því að hann hvatti mig til að mála meira, hann vildi veg minn í myndlistinni sem mestan.
Ég hugsa oft um þessa brýningu, ég byrjaði að mála 12 ára, einmitt vegna þess að hann og mamma gáfu mér málaratrönur, liti og léreft í jólagjöf. Pabbi var að fiska í Norðursjónum, kom í land í Bergen og varð litið í búðarglugga myndlistarvöruverslunar, og fékk þá þessa hugljómun. Þessi jól verða mér alltaf minnisstæð.
Pabbi minn og stjúpi var hreinn og beinn í allri framgöngu og hafði sterkar skoðanir um réttlæti og jöfnuð. Hann var lítið fyrir prjál og tilgerð, og mamma rifjaði stundum upp tilhugalíf þeirra með bros á vör og hlátri. Þau höfðu þekkst frá ungum aldri, en felldu hugi saman þegar ég var á sjöunda ári. Þá var hann langdvölum í Norðursjónum á síld, og var með sjóriðu þegar hann kom í land, rétt eins og drukkinn væri. Ekkert var þó fjær sanni – hann var reglumaður allt sitt líf.
Mömmu þótti skorta aðeins upp á rómantíkina í þessu nýja sambandi og benti pabba á að það myndi gleðja hana ef hann sendi henni henni kveðju í Óskalögum sjómanna, en á Gufunni í þá daga voru óskalagaþættir sjúklinga og sjómanna vinsælustu þættirnir. Hjarta hennar tók því kipp þegar hún hlustaði með andakt yfir uppvaskinu og ómþýð útvarpsröddin bar henni ástar- og saknaðarkveðju frá fjarstöddum sjómanni. Vonbrigðin urðu nokkur þegar lagið reyndist vera vinsælasta færeyska lagið á þessum tíma; „Rasmus í Görðum“. Heim kominn var hann spurður hvort honum hefði ekki dottið neitt rómantískara í hug svo sem Heyr mína bæn, Hvíta máva eða Föðurbæn sjómannsins? Það stóð ekki á svarinu: Finnst þér þetta ekki flott lag? Og raulaði úr laginu: „Hann droymir um Rasminu, bæði dagar og nætur.“ Rasmínu var ekki skemmt, en gat oft hlegið að þessu síðar.
Líf okkar breyttist mikið þegar við við fluttum í Hafnarfjörð. Pabbi keypti hús í Köldukinn, og fljótlega fæddust systkini mín Stjáni og Mæja. Þegar álverið í Straumsvík tók til starfa kom pabbi í land og vann alla starfsævina eftir það þar, ásamt bræðrum sínum. Hann var afar samviskusamur, hreinskiptinn og stundvís. Enda naut hann óskoraðs trausts allra sem kynntust honum í starfi og leik.
Já, það er margs að minnast. Ég á þér svo margt að þakka, elsku pabbi, og get lítið gert annað en að minnast þín með hlýju og virðingu. En ég bið kærlega að heilsa mömmu.
Halldór Árni Sveinsson.
Hvernig kveður maður pabba sinn, svo ótal minningar sem ég varðveiti um samveru okkar á hans löngu ævi. Hann lagði mér snemma lífsreglurnar, maður þyrfti að mennta sig og alltaf að klára það sem maður byrjaði á, vera stundvís og standa við það sem maður segðist ætla að gera. Þetta voru góð heilræði í veganestið út í lífið. Því þessu var hann sjálfur trúr, og samkvæmur sjálfum sér alla ævina.
Fyrstu minningarnar um pabba voru þegar hann kom heim af sjónum rétt fyrir jól. Þá kom hann með ýmsan varning sem hann hafði keypt úti. Eitt af því sem hann kom með handa okkur voru stórir jólasokkar fullir af útlendu sælgæti, sem var sport að keyra í dúkkuvagninum þar sem dúkkan var ekki komin.
Þegar ég var barn fórum við fjölskyldan oft í ferðalög á sumrin á Cortinunni og vorum í tjaldi, minnisstætt er þegar við fórum hringinn í kringum landið og mamma bakaði pönnukökur í Vaglaskógi.
Í seinni tíð, þegar við deildum heimili í Köldukinninni, fórum við oft á rúntinn niður á höfn að skoða hvaða bátar væru inni og nauðsynlegt var að skoða nýjustu togarana. Þegar nýja varðskipið Þór kom plataði hann mig til þess að fara í ísbíltúr og svo að fara að skoða hann. Við skruppum í ístúra, eða fórum með nesti á Þingvelli til þess að athuga hvort það væru komin ber. Honum fannst alltaf gaman að gá að berjum, en mér fannst nú best að borða nestið. Svo þurfti að fara að skoða Krísuvík og Gunnuhver á Reykjanesinu. Þetta voru hinar bestu ferðir hjá okkur. Heima í Köldukinninni horfðum við saman á fréttir og spjölluðum mikið um pólitík, oft vorum við sammála en ekki alltaf og þá var aðeins skipst á skoðunum. Örlítið.
Pabbi dvaldi á Sólvangi í hlýrri umsjón indæls starfsfólks síðasta árið sitt. Ég kom jafnan við á leið heim úr vinnu og við horfðum oft á fótbolta saman. Það voru góðar stundir sem við áttum. Spjalla um hversu flott spilið var á vellinum, og hvernig keppnum myndi fram vinda.
Takk fyrir allt sem þú gafst mér. Takk. Takk fyrir mig, þín verður sárt saknað.
Þín dóttir,
María.