Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra tekur forystuna í nýjustu vikulegri skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið í aðdraganda forsetakjörs. 22,1% segist ætla að kjósa hana.
Fylgi Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra fellur áfram, niður í 19,7%, litlu ofar en Baldur Þórhallsson prófessor sem er með 18,2%.
Þarna á milli er ekki mikill munur og þannig eru efri vikmörk fylgis bæði Höllu Hrundar og Baldurs innan neðri vikmarka Katrínar. Þar þarf því lítið að breytast til að miklu muni.
Halla Tómasdóttir forstjóri sækir enn í sig veðrið með 16,2% og fer fram úr Jóni Gnarr leikara með 13,4%. Arnar Þór Jónsson lögmaður er talsvert neðar með 6,0% en aðrir frambjóðendur eru við það að þurrkast út.
Þetta er í fyrsta sinn sem Katrín er efst í fylgismælingum Prósents, en fylgi hennar jókst þó fremur hóflega í vikunni. Þar munar hins vegar mestu um hve hratt hefur saxast á fylgi Höllu Hrundar eftir hið öra ris hennar fyrir fjórum vikum.
Hins vegar er eftirtektarvert að Katrín hefur tekið afgerandi forystu þegar spurt er um hver menn haldi að vinni, frekar en hver menn vilji að vinni. Þar eru rúm 40% á því að hún beri sigur úr býtum í forsetakjörinu, en 31% telur að Halla Hrund geri það. Í liðinni viku voru þær nánast jafnar í kringum 35% á þann mælikvarða.
Þá vaknar líka spurning um hversu fast í hendi fylgi annarra frambjóðenda reynist, ef innan við helmingur þess hefur trú á því að „sinn maður“ sigri þegar á hólminn er komið.