Herdís Guðmundsdóttir fæddist í Keflavík 7. september 1947. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 29. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Guðný Guðmundsdóttir sjúkraliði, f. 14. júlí 1918 á Hafursstöðum, Kolbeinsstaðahreppi, d. 13. október 1985 í Reykjavík, og Guðmundur Sigurbjörn Sigurgeirsson umsjónarmaður, f. 26. júní 1910 í Hömluholtum, Eyjahreppi, d. 8. janúar 1986 í Hveragerði.

Herdís var fimmta í röð 14 systkina. Hin eru: Kristinn Þór, Jófríður Margrét, Arnór, d. 9. des 2021, Sigríður, Anna, drengur, d. sama dag, Þórey, Þorkell, Kristín, Kolbrún, Guðmundur, Sigurgeir og Magnús, d. mánaðargamall.

Herdís giftist hinn 17. maí 1973 Yngva Eiríkssyni múrarameistara og tæknifræðingi, f. 29. desember 1948.

Börn þeirra eru: 1) Arnór. 2) Grettir. 3) Eiríkur, fv. eiginkona Elin Stensland. Þeirra börn Herman Ingvi og Nora. 4) Sjöfn, fv. eiginmaður Einar Egill Halldórsson. Þeirra börn Eva Sóllilja, Herdís Eik og Þórarinn Sjafnar.

Herdís ólst upp í Keflavík, Ölfusinu og Reykjavík. Æska hennar var hefðbundin á þess tíma mælikvarða; barnagæsla, unnið í fiski í Þorlákshöfn, búðarloka í Reykjavík o.fl. Eftir að Herdís flutti að heiman, 16 ára, hóf hún fljótlega nám í Kennaraskólanum. Þar lauk hún prófi 1968 og stúdentsprófi 1969. Herdís vann við kennslu mestalla sína ævi, m.a. í Keflavík, Laugalandi á Holtum, Landakotsskóla, Flúðaskóla og Egilsstaðaskóla, en lengst var hún í Engidalsskóla í Hafnarfirði, auk þess að sinna stóru heimili.

Herdís hætti að mestu að kenna 2006 til að geta sinnt börnum og barnabörnum.

Útför Herdísar fer fram frá Garðakirkju í dag, 21. maí 2024, kl. 13.

Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast Herdísar móðursystur minnar sem lést á dögunum. Minningarnar eru margar og margt sem ber að þakka.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að verja stórum hluta æsku minnar sem „bónusbarn“ í hinum ýmsu ferðum Herdísar og Yngva um landið þvert og endilangt. Þau drösluðu okkur krökkunum út um allar trissur og með þeim fékk ég að fara í ævintýralegar jeppaferðir, kynntist hálendinu og lærði á svigskíði. Herdís og í raun öll systkinin voru alveg ótrúlega dugleg að ferðast og búa til allskyns hversdagsævintýri með okkur. Það var farið á skauta á Rauðavatni, Reykjavíkurtjörn eða Seltjörn. Farið í sumarútilegur í Þórsmörk, farið í göngur um landið og við borin á hestbaki yfir ár og farið með okkur á staði sem ég hef aldrei fundið aftur. Ef ég hefði nú bara fylgst betur með!

Herdís var líka dugleg að fara með krakkana sína á skíði þó hún stundaði ekki skíði sjálf. En hún lét ekki nægja að koma sínum eigin börnum á skíði heldur keyrði hún oft alla leið frá Hafnarfirði í Hlíðarnar í Reykjavík til að sækja mig áður en brunað var upp í Bláfjöll. Í minningunni biðu Anna frænka og Herdís alltaf eftir okkur við Mitsubishi-inn með heitt kakó á brúsa og ísbox full af gúrku- og eggjasamlokum, jógúrtkökum eða vínarbrauði. Þá voru engir símar til að láta vita af sér en einhvern veginn voru þær bara þarna, tilbúnar þegar við vorum orðin svöng. Ég hef aldrei alveg skilið hvernig þær fóru að þessu.

Herdís var mikið kjarnakvendi sem kallaði ekki allt ömmu sína. Ég segi til dæmis oft söguna af frænkum mínum sem ákváðu að fara á puttanum hringinn í kringum landið á gamals aldri. Og ég meina hverjum dettur bara í hug að hjóla með stórfjölskyldunni til Grindavíkur eða á Akranes. Hjólaferðin til Grindavíkur var sérstaklega mögnuð í minningunni. Þá var kerra tengd við Mitsubishi og hægt að skella hjólinu aftan á og taka sér hjólapásu á leiðinni. Þetta var eins og WOW cyclothonið nema bara krakkar og fullorðnir á öllum aldri.

Ég á henni Herdísi frænku minni margt að þakka. Við Sjöfn gistum mikið saman og fjölskyldulífið á Heiðvanginum átti þátt í að móta mig sem einstakling. Þar var til dæmis mikið lagt í að herða mig með góðlátlegri stríðni og hjá þeim kynntist ég bæði því besta og versta í íslenskri matargerð; Hlöllabátum og gellum, þvílíkar andstæður. Herdísi þótti vænt um mig og mér um hana, henni þótti vænt um fólkið sitt og sýndi það í verki. Ég er þakklát fyrir allar minningarnar.

Kolbrún Kristínardóttir.

Á svona stundum fer hugurinn að reika og upp koma alls konar minningar úr djúpinu. Það sem einkenndi Herdísi var kraftur. Hún var skörungurinn sem kom stórfjölskyldunni í ferðalög um allt land og það var ekki morgunkaffi nema að Herdís væri mætt.

Herdís hafði þann einstaka hæfileika að hafa skoðun á öllu. Það sem meira var, hún lá ekkert á skoðunum sínum heldur fékkstu þær beint í æð. Hún var þeirri dyggð gædd að vera hreinskilin og þú vissir nákvæmlega hvar þú hefðir hana. Hún fylgdi skoðunum sínum eftir með einskærri góðmennsku og velvild í garð þeirra sem henni þótti vænt um.

Rétt fyrir ferminguna mína, komst Herdís að því að ég hefði aldrei farið á skíði. Sjálf hafði Herdís verið ötul við það að stuðla að því að börn sín og systkinabörn gætu notið sín í fjöllunum. Hún smurði margoft nesti, hitaði kakó og keyrði á næsta skíðasvæði, en þar sem ég er 10 árum yngri hafði ég ekki verið hluti af þessum ferðum. Yfir þessum fréttum fussaði Herdís og skammaði mömmu fyrir framtaksleysið. Viku seinna var Herdís búin að taka málin í sínar hendur. Við mamma vorum komnar í bílinn hjá henni á leiðinni í Skálafell. Svona var Herdís, hún tók málin í sínar hendur og leysti þau.

Annað atvik sem kemur upp í hugann er þegar við Jónatan giftum okkur. Við ákváðum að halda stóra veislu og gifta okkur með pompi og prakt. Þetta þótti alltof dýrt fyrir okkur og algjör vitleysa að bjóða svona mörgum. Herdís hafði miklar áhyggjur af þessu, hvernig í ósköpunum við ætluðum að gera þetta og bauðst margoft til þess að borga hluta af kostnaðinum, sem var að sjálfsögðu afþakkað með þökkum. En þetta lýsir henni svo vel, hún bar hag annarra ávallt fyrir brjósti og var alltaf tilbúin að hjálpa til á allan þann hátt sem hún mögulega gat.

Í dag er mikil umræða um það hvert eigi að vera helsta hlutverk nýs forseta. Eitt af algengustu svörunum er að hann þurfi að vera sameiningartákn fyrir þjóðina. En það á líka við um allar stórfjölskyldur. Herdís var fyrir mér nákvæmlega þetta, sameiningartákn. Hún hélt hópnum saman og beindi á rétta braut og hjálpaði til þar sem hægt var.

Takk fyrir alla hjálpina elsku Herdís mín, takk fyrir að kenna mér að láta ljós mitt skína, takk fyrir að vera alltaf þú sjálf þrátt fyrir alla helstu tískustrauma. Takk fyrir að vera alltaf til staðar.

Minningin um kraftmikla og blíða konu mun lifa í hjarta mínu.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Hvíldu í friði, mín kæra. Ég mun passa páskaliljurnar þínar.

Sólveig Margrét
Kristjánsdóttir.

Kveðja úr A-bekknum:

Vorið færir okkur nýtt upphaf þegar náttúran vaknar af vetrardvalanum. Og Herdís vinkona mín er á bak og burt. Farin. Í haust verða sextíu ár síðan við söfnuðumst saman í Kennaraskólanum, ungmennin sem skipuðum A-bekkinn. Við vorum nokkuð fjölbreyttur hópur, komum héðan og þaðan af landinu. Aldursmunur fimm ár á milli þeirra elstu og yngstu. Sum höfðu þess vegna fengist við eitt og annað. Herdís hafði verið í lýðháskóla í Danmörku og gat talað dönsku við Ágúst Sigurðsson kennara. Það voru þrengsli í Kennaraskólanum á þessum tíma og engin skólastofa fyrir A-bekkinn. Honum var komið fyrir í opnu rými sem var reyndar þiljað af fljótlega. Við vorum þess vegna dálítið út af fyrir okkur. Með öðru átti það kannski þátt í að við urðum fljótlega býsna þéttur hópur.

Við Herdís bjuggum báðar í göngufæri við skólann og urðum yfirleitt samferða heim. Hún gekk báðar leiðir. Með okkur tókust strax einkar góð kynni og vináttuböndin hafa aldrei trosnað heldur styrkst með árum og áratugum. Trygglyndi, örlæti og hjálpsemi var Herdísi í blóð borin. Þegar kom til tals að okkur hjónin langaði í gönguferð um Hornstrandir bauðst hún umsvifalaust til að sjá um börnin okkar. Síðan fluttu þau Yngvi heim til okkar með ungann sinn á fyrsta ári og ekki væsti um tveggja og fimm ára krílin okkar hjá þeim. Löngu seinna tókst ég um tíma á við afleiðingar af slysi. Þá lét tryggðatröllið hún Herdís mín ekki sitt eftir liggja við að gera mér tilbreytingu og létta lundina. Það var alltaf skemmtilegt að hitta Herdísi, hún var hreinskilin og orðheppin, hitti gjarnan naglann á höfuðið.

Kennsla varð ævistarf Herdísar. Hún var barngóð, hafði einlægan áhuga á börnum og átti einstaklega auðvelt með að umgangast ungviði. Hún hafði yndi af íslenskum fornsögum, sótti námskeið um þær og tók þátt í ferðalögum í tengslum við fróðleikinn. Ferðalög innan lands og utan áttu vel við hana og hún var órög við að breyta til, stíga út fyrir þægindarammann. A-bekkurinn, sem útskrifaðist úr Kennaraskólanum 1968, hefur verið einkar samheldinn gegnum árin og makarnir fullgildir í hópnum. Við höfum ekki látið okkur nægja að hittast á árgangsmótum. Það eigum við ekki síst Herdísi að þakka. Hún var dugleg að smala mannskapnum saman á kaffifundi og sendi okkur iðulega skemmtilega pistla um umræðuefnin, hnyttin sem hún var.

Ekki fór Herdís varhluta af erfiðleikum. Þótt hún tækist á við veikindi síðustu ára af aðdáunarverðri þrautseigju tóku þau sinn toll. Hugurinn var þó óbilandi og fljótlega eftir hvert áfall taldi hún sig vera á uppleið. Og í raun og veru var hún alltaf á uppleið. Það er sjónarsviptir að konu eins og Herdísi og hennar verður sannarlega saknað úr hópnum okkar. Ég er þakklát fyrir vináttuna, umhyggjuna og tryggðina. Stórt skarð er höggvið í fjölskylduna hennar. Yngva, börnunum þeirra Herdísar og barnabörnunum sendum við Palli hlýjar hugsanir og samúð á kveðjustundu.

Hildur.