Verðlaunahafarnir Þeir Haraldur Orri Hauksson og Hafsteinn Einarsson sjást hér taka við viðurkenningu úr hendi Jóns Atla Benediktssonar.
Verðlaunahafarnir Þeir Haraldur Orri Hauksson og Hafsteinn Einarsson sjást hér taka við viðurkenningu úr hendi Jóns Atla Benediktssonar. — Ljósmynd/Háskóli Íslands/ Kristinn Ingvarsson
„Markmiðið er að við getum þróað lausnir sem byggjast á þessu mállíkani, eins og þegar læknar skrifa skýrslur að þá fái þeir meðmæli um hvaða kóða sé hægt að hengja við skýrslurnar. Þannig færi minni tími í leit og minni líkur eru á því að villur séu í þessari kóðun

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Markmiðið er að við getum þróað lausnir sem byggjast á þessu mállíkani, eins og þegar læknar skrifa skýrslur að þá fái þeir meðmæli um hvaða kóða sé hægt að hengja við skýrslurnar. Þannig færi minni tími í leit og minni líkur eru á því að villur séu í þessari kóðun. Þetta er sérstaklega mikilvægt núna þar sem fjármögnun Landspítalans er að miklu leyti orðin árangurstengd og þá skiptir máli að allt sé rétt skráð þannig að það sé hægt að halda utan um hvað var gert. Það er ekki hægt að fletta því öllu upp í texta eftir á, það þarf að skrá þetta allt með formlegum hætti,” segir Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, sem hannaði ásamt Haraldi Orra Haukssyni, meistaranema við ETH-háskólann í Zürich, sjálfvirkt kerfi sem getur kóðað sjúkraskýrslur á íslensku samkvæmt alþjóðlegu ICD-kóðunarkerfi.

Auka skilvirkni og nákvæmni sjúkraskráningar

Snýst verkefnið „Sjálfvirk kóðun á íslenskum sjúkraskrám“ um að þróa áðurnefnt kerfi með notkun íslenskra mállíkana. Markmið verkefnisins er því að auka skilvirkni og nákvæmni sjúkraskráningar með því að styðja heilbrigðisstarfsfólk við kóðun og bæta þar með gæði kóðunar í íslenskum sjúkraskrám. Þá er afurð verkefnisins mállíkan fyrir íslensku en verkefnið bar sigur úr býtum í samkeppninni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2024.

„Þetta er verkefni sem var unnið á Landspítala og var meistaraverkefni Haralds Orra sem varð síðan að grein sem við erum að fara að birta á ráðstefnunni NAACL (North American Chapter of the Association for Computational Linguistics) sem er ein af virtari ráðstefnum fyrir máltækni í heiminum í dag,“ segir Hafsteinn og bætir því við að hann hafi lengi velt því fyrir sér hvernig hægt væri að hagræða hlutum innan heilbrigðiskerfisins.

„Ég á nokkra félaga sem eru læknar og hafa ítrekað talað um hvað það fer mikill tími í skráningarbyrði í stað þess að geta sinnt skjólstæðingum. Ég er búinn að vera að vinna mikið á sviði máltækni og þetta er eitt af því sem ég sé að verið er að skoða mikið fyrir önnur tungumál, sérstaklega ensku. Ég sá því tækifæri til að reyna að gera þetta fyrir íslensku og nú er fyrstu máltækniáætlun að ljúka. Það urðu til miklir innviðir í þeirri áætlun, meðal annars svona mállíkön sem höfðu verið forþjálfuð á texta af netinu og er svo hægt að nýta áfram í alls konar verkefni,“ segir hann og tekur fram í kjölfarið að eðli málsins samkvæmt sé mikið af textagögnum á Landspítalanum sem búið sé að vinna af heilbrigðisstarfsfólki.

„Það er búið að merkja öll þessi gögn svo vinna þessa fólks er að skila sér í gögnum sem hægt er að nota til að þjálfa svona gervigreindarlíkön og það er það sem við ákváðum að prófa. Það gekk bara virkilega vel.“

Ávinningur fyrir samfélagið

Í flokknum Heilsa og heilbrigði hlaut verkefnið verðlaun að upphæð 1,5 milljón króna en þar sem það var jafnframt sigurvegari í keppninni í heild sinni hlutu aðstandendur þess eina milljón króna til viðbótar í verðlaunafé. Var það mat dómnefndar að hagnýtingargildi og nýnæmi verkefnisins væri mikið því það nýtti tækni með nýjum hætti til að styrkja heilbrigðiskerfið í heild sinni, hefði mikinn ávinning fyrir samfélagið og gæti jafnframt leitt af sér afurðir sem myndu nýtast í alþjóðlegu samhengi.

Inntur að lokum eftir því hvaða þýðingu verðlaunin hafi fyrir þá félaga segir Hafsteinn viðurkenninguna gríðarlega mikilvæga. „Við höfðum trú á því að þetta væri hægt og erum nú búnir að sýna fram á það.“