Sauðfé Bjartari tímar fram undan hjá bændum ef riðu er útrýmt.
Sauðfé Bjartari tímar fram undan hjá bændum ef riðu er útrýmt. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Sauðburðurinn er sólarhringsvinna og á þeirri háönn er enginn tími í pappírsvinnu,“ segir Sigríður Ólafsdóttir bóndi í Víðidalstungu í Húnaþingi vestra. Fyrir liggur lands­áætlun um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé, lögð fram af matvælaráðherra, og hefur hún verið í Samráðsgátt að undanförnu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Sauðburðurinn er sólarhringsvinna og á þeirri háönn er enginn tími í pappírsvinnu,“ segir Sigríður Ólafsdóttir bóndi í Víðidalstungu í Húnaþingi vestra. Fyrir liggur lands­áætlun um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé, lögð fram af matvælaráðherra, og hefur hún verið í Samráðsgátt að undanförnu. Frestur til að senda inn umsagnir rann út í gær, 20. maí, og undir kvöld höfðu sex slíkar borist. Algengt er þó að í sambærilegum málum komi fleiri erindi.

Áætlunin gerir ráð fyrir breytingum á vinnubrögðum við útrýmingu riðuveiki í sauðfé. Rækta á fjárstofn sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu. Landsáætlunin gerir ráð fyrir flokkun á bæjum með tilliti til hættu á riðuveiki. Öllum sauðfjárbændum er gert að rækta fé í samræmi við sett markmið stjórnvalda. Samhliða er krafa um að á riðubæjum verði eingöngu fé sem ber verndandi arfgerðir.

„Þetta er stórmál sem varðar bændur miklu. Að óska umsagna í maí þegar bændur eru á kafi í öðrum verkum lýsir þó takmörkuðum skilningi á aðstæðum þeirra. Fresturinn þarf að vera lengri,“ segir Sigríður sem jafnhliða eigin búskap er ráðunautur í landbúnaði. Jafnframt er hún sveitarstjórnarmaður í héraði þar sem riðuveiki í fé hefur komið upp með þungum búsifjum, sem kunnugt er.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson