Eiríkur Jónsson yrkir á Boðnarmiði og nefnir Vornótt á Skjaldfönn – Síðasta næturvaktin mín á Skjaldfönn þetta vorið: Lækjarniður ljúfur ómar það liggur kyrrð um Djúp og Dal, náttúrunnar næturhljómar og nýfædd lömb í fjallasal

Eiríkur Jónsson yrkir á Boðnarmiði og nefnir Vornótt á Skjaldfönn –

Síðasta næturvaktin mín á Skjaldfönn þetta vorið:

Lækjarniður ljúfur ómar

það liggur kyrrð um Djúp og Dal,

náttúrunnar næturhljómar

og nýfædd lömb í fjallasal.

Hallmundur Guðmundsson horfir um öxl:

Nú er ljúft að líta til

leikja æskuáranna.

Þá var mikið spaug og spil

og spé á milli náranna.

Magnús Halldórsson við ljósmynd af Heklu:

Svona er hún sunnanvert,

senn mun dökkna tindur.

Haddinn ljósa hefur skert,

heitur sunnanvindur.

Philip Vogler Egilsstöðum bætti við:

Ský því hefur haddinn skert

Heklu sunnan til,

nú er fjall hér nyrðra bert,

nýtt hefst tímabil.

Limran Sakamál eftir Magnús Halldórsson:

Löggan var mætt eftir morðið,

mannshræið sett var á borðið.

Læknirinn þagði,

að lokum þó sagði:

Mér finnst það mjög líklegt orðið.

Maídagar (skammhent) eftir Skúla Pálsson:

Birkigreinar brumi iða,

bærir gola tré,

þrestir hátt í kjarri kliða

kímið fuglaspé.

Vogur blár af gárum glitrar,

gargar kríuher,

loft af fuglatali titrar

til að segja mér:

Þekktu sjálfan þig og skoða

þína hrjáðu sál;

láttu vakna ljóð úr doða,

lærðu fuglamál!

Hellidembuþula eftir Magnús Halldórsson:

Ég eflaust nefndi andskotann,

utan þess að virða hann.

Vel á nefi vætu fann,

varla neitt af sólu brann

Núna get ég sagt með sann,

að sull á mínum vegi rann.

Ekkert regnhlíf á ég kann

og ekki drepur rykið mann.

Öfugmælavísan:

Skatan á að skrýða prest,

skrifað er það í bókum,

krummi oft í kórnum sést,

kálfur á við stýrið best.