Stóriðja Álverið við Reyðarfjörð er knúið orku frá Kárahnjúkavirkjun.
Stóriðja Álverið við Reyðarfjörð er knúið orku frá Kárahnjúkavirkjun. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Til skoðunar er að breyta raforkulögum á þann veg að gera stórnotendum kleift að selja orku aftur inn á kerfið. Meirihluti atvinnuveganefndar gerir breytingatillögu á raforkulögum í þessa veru en frumvarpið hefur farið í gegnum aðra umræðu á Alþingi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Til skoðunar er að breyta raforkulögum á þann veg að gera stórnotendum kleift að selja orku aftur inn á kerfið.

Meirihluti atvinnuveganefndar gerir breytingatillögu á raforkulögum í þessa veru en frumvarpið hefur farið í gegnum aðra umræðu á Alþingi. Þingheimur á því eftir að greiða atkvæði um frumvarpið.

„Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að mögulega hefði mátt komast hjá þeim aðstæðum sem sköpuðust veturinn 2023–2024 ef til staðar væri virkur markaður með raforku. Meirihlutinn tekur undir það sjónarmið en telur að á meðan beðið er skýrari löggjafar þar um sé ljóst að auka þurfi sveigjanleika til viðbragða á markaði svo að hægt sé að bregðast við orkuskorti án þess að stjórnvöld telji sig tilneydd að grípa inn í. Það mætti m.a. gera með því að gera stórnotendum kleift að selja orku aftur inn á kerfið til kerfisstjóra en slík heimild er ekki til staðar í dag í raforkulögum,“ segir í frumvarpinu.

Hátt álverð

„Rafmagnið er takmörkuð auðlind. Stórnotendur hafa gert fasta samninga en einnig eru gerðir samningar um raforku sem er skerðanleg. Þá er hægt að skerða en með þessu gæti viðkomandi aðili selt til baka inn á kerfið, til dæmis ef viðkomandi hefur ekki not fyrir orkuna eða telur sig geta fengið betra verð fyrir orkuna heldur en að nota hana,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins.

Fram kemur hjá meirihlutanum að dæmi séu um slíka löggjöf í öðrum löndum. Þórarinn segir aðstæður á markaði ekki hafa verið með þeim hætti að kaupendur myndu selja orkuna aftur í stórum stíl og draga mjög úr starfsemi eða eitthvað slíkt.

„Ég held að hingað til hafi það ekki verið raunin að slíkt væri ákjósanlegt fyrir álframleiðendur. Álverðið er alla vega það hátt eins og staðan er í dag en heimildin væri fyrir hendi með þessari breytingu. Hvort menn nýti hana er allt annað mál. Fyrr í vetur var þetta nokkuð til umræðu í tengslum við umræðuna um forgangsorku, hvort stórnotendur gætu selt aftur inn á kerfið, en þá vantaði einfaldlega lög til þess. Víða erlendis er þessi leið farin og því var ákveðið að setja þetta inn í frumvarpið,“ segir Þórarinn Ingi.

Höf.: Kristján Jónsson