— Skútur Tæki sem eru í stöðugri þróun, segir Sæunn Ósk hér með hluta
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Samgöngubyltingin er í fullum gangi og margt í ferðavenjum okkar mun taka breytingum á næstu árum,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík. Grænu skúturnar, rafknúnu hlaupahjólin sem fyrirtækið er með í útgerð, eru um 3.300 og áberandi á götum borginnar. Þróunin hefur verið hröð á undanförnum árum og sífellt fleiri nota skúturnar góðu til þess að komast leiðar sinnar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Samgöngubyltingin er í fullum gangi og margt í ferðavenjum okkar mun taka breytingum á næstu árum,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík. Grænu skúturnar, rafknúnu hlaupahjólin sem fyrirtækið er með í útgerð, eru um 3.300 og áberandi á götum borginnar. Þróunin hefur verið hröð á undanförnum árum og sífellt fleiri nota skúturnar góðu til þess að komast leiðar sinnar.

40 þúsund notendur á mánuði

Starfsemi Hopp Reykjavík hófst árið 2019 og byrjaði smátt. Á síðasta ári voru notendur, það er fólk sem greip tiltækar skútur sem á vegi urðu til þess að komast milli staða, rúmlega 40 þúsund á hverjum mánuði frá maí og fram í nóvember. Yfir árið voru notendurnir 122 þúsund og ferðirnar eru um 2,2 milljónir samtals.

Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru við Skúlagötu í Reykjavík. Sæunn Ósk segir þungann í starfseminni vera þó þann að fylgjast með hvar farartæki í eigu þess séu staðsett þá stundina. Hugbúnaður, hannaður og þróaður hér á landi, er í senn gangvirki og driffjöður fyrirtækisins. Hlaupahjólin eru öll með staðsetningarbúnað, þannig að notendur geta í appi síma sinna séð hvar laust hjól er að finna. Það sama geta starfsmenn einnig gert en þeir eru á stöðugum ferðum um bæinn allan sólarhringinn til þess að skipta um rafhlöður í hjólum og fjarlægja þau af gangbrautum og götum auk þess að grípa í minni háttar viðgerðir ef þess þarf.

2% ferða borgarbúa

Árið 2021 bættust við deilibílar sem nálgast má með sömu aðferð og skúturnar. Deilibílarnir sem Hopp gerir út, allir rafknúnir, eru alls um 50 og þá má helst nálgast í miðborginni. Ferðirnar að undanförnu hafa verið um 150 á dag og auðvelt er að nálgast bíla. Appið vísar á hvar bíl sé að finna og með því að skanna inn ökuskírteini, gefa upp kortaupplýsingar og fleira slíkt er bíllinn tiltækur. Einnig starfa með fyrirtækinu leigubílstjórar, en með Hopp-appinu tengjast saman bílstjórar og væntanlegir farþegar.

„Við sjáum nákvæmlega hvar öll okkar tæki eru og stillum flotann af samkvæmt þörf,“ segir Sæunn Ósk. Mest er notkunin á skútum í miðborginni. Um 11% íbúa í Laugardal, Háaleitishverfi og Hlíðum nota rafskútur til þess að komast til og frá vinnu, en skútur sem margir leigja eru þó til á um fimmta hverju heimili í borginni. Af heildarfjölda ferða borgarbúa er notkun skútanna nú um 2%.

Flestar ferðir miðsvæðis

Skútunotendur eru á öllum aldri, en þó áberandi mest fólk frá tvítugsaldri til fimmtugs. „Hér miðsvæðis í borginni eru stystu vegalengdir milli þeirra staða sem fólk þarf helst að sækja. Slíkt væntanlega ræður því að þar eru skúturnar mest notaðar. Við teljum skúturnar vera góða viðbót við aðra virka samgöngumáta, svo sem göngur, hjólreiðar og strætó. Innviðirnir verða líka sífellt betri þó hjólastígarnir endi oft í algjörri vegleysu. En þetta kemur smám saman. Deilihagkerfið sem er starfsumhverfi Hopp vinnur að því að fækka plássfrekum bílum á götunum,“ segir Sæunn og að síðustu:

„Virkir ferðamátar eins og skútu­ferðir eru nútíminn og framtíðin. Skútur eru í stöðugri þróun eins og við hjá Hopp fylgjumst með hjá verksmiðjunum í Kína. Þetta eru örugg farartæki. Skútunum verður ekki kennt um þegar fólk er ölvað á ferðinni. Veldur hver á heldur.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson