Peter Holbrook fæddist í Warrington á Englandi 17. febrúar 1949. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 28. apríl 2024.
Foreldrar Peters voru Albert og Gladys Holbrook. Peter átti einn bróður, Ian.
Eftirlifandi eiginkona Peters er Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor emerita, f. 14. desember 1948. Foreldrar hennar voru Ögmundur Jónsson verkfræðingur og Ortrud Jónsson meinatæknir.
Synir Peters og Helgu eru Ögmundur, f. 7. apríl 1980, flugvélaverkfræðingur, og Baldvin, f. 28. september 1982, stjórnmálafræðingur.
Útför fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. maí 2024, kl. 11.
Sorgin er komin og mun fylgja okkur um langan spöl. Það er til marks um hve mikið við áttum, hversu mikið við munum sakna þín elsku Peter. Það er sjaldan sem maður gefst sú gæfa að kynnast einhverjum gæddum jafn mörgum mannkostum og þú einatt barst með þér. Blíður í gegn, fljótur til svars og afar hnyttinn, fluggáfaður og með hjarta úr gulli. Fyrirmynd í einu og öllu, sérstaklega sem foreldri og afi. Það var alltaf gott að leita til þín, bæði ráðagóður, geysilega fróður og velviljaður. Fjölskyldan var alltaf í fyrirrúmi og við öll nutum góðs af. Veikindi settu mark á síðasta spölinn og flutningur okkar til Þýskalands gerði að verkum að við sáum þig sjaldnar en okkur langaði til. En stundirnar sem við áttum saman voru dásamlegar, blíðan og manngæskan stafaði af þér allt undir það síðasta. Það stafar birtu og hlýju af öllum skemmtilegu ferðunum okkar saman, hvort sem var í Árbakka, Hörpu, Ítalíu, Siglufjörð, Grímsey eða dásamlegar minningar úr Miðtúninu. Þú tókst mér opnum örmum sem tengdadóttur og ég er þeirra gæfu aðnjótandi að svo margt frá þér býr í Ögmundi mínum og börnunum okkar.
Bestu þakkir fyrir allt og allt elsku Peter okkar. Ósérhlífni þín, brosið, örlætið og gleðin sem þú færðir okkur öllum mun halda áfram að vera leiðarstef í lífinu. Bjartar minningar um þig munu varða veginn, hvert sem liggur för.
Þurý Ósk Axelsdóttir.
Við aðkomu Peters Holbrooks á Tannlæknadeild árið 1981, sem lektors, síðan dósents og svo prófessors, gjörbreyttist rannsóknarvirkni deildarinnar. Ég kynntist Peter 1984 sem var ötull við að hvetja kennara og nemendur til framhaldsnáms erlendis. Hann var vel kynntur fræðimaður erlendis, mjög virtur og hjálpaði það okkur mikið.
Ég er honum mjög þakklát fyrir að hafa opnað fyrir mér áhuga á rannsóknum og mikilvægi þeirra til að bæta tannheilsu íslenskra barna. Ég naut góðs af að fá að vinna með honum, sækja ráðstefnur og kynna verkefnin okkar innanlands og á erlendri grundu. Fyrst byggðust rannsóknir okkar á tannheilsu íslenskra barna með tilliti til forvarna, örverufjölda í munni og mataræði þeirra. Síðan var lögð áhersla á glerungseyðingu unglinga og neysluvenjur þeirra. Þá var tekið þátt í sjö landa rannsókn um tannheilsu barna með forvarnaráhrifum flúors í tannkremi og greiningu flúorflekkja. Rannsóknir okkar voru gerðar í forvarnarskyni og hafa verið til gagns til að bæta tannheilsu Íslendinga. Peter var minn frábæri leiðbeinandi og fyrirmynd.
Blessuð sé minning þín og samúðarkveðjur sendi ég til Helgu, Ögmundar, Baldvins og fjölskyldna þeirra.
Með þakklæti og sól í sinni.
Inga B. Árnadóttir
prófessor.
Látinn er William Peter Holbrook, kennari okkar, vinur, samkennari og kollega.
Þegar við sátum sjálfir á skólabekk í Tannlæknadeild Háskóla Íslands fyrir margt löngu, á níunda áratugnum, var Peter tiltölulega nýtekinn til starfa þar.
Við litum mjög upp til Peters og skynjuðum að hér fór maður sem kom úr annarri átt. Það hvarflaði jafnvel að manni að maður sæti á skólabekk erlendis.
Peter var afar áhugasamur kennari en hann gerði sér fulla grein fyrir að hans sérsvið var þó ekki kannski beinlínis það fyrsta sem greip áhuga ungra tannlæknanema. Með árunum hefur okkur þó orðið ljóst hve sá grunnur sem hann lagði er mikilvægur og sterkur.
Peter var mikill eljumaður og einlægur talsmaður sérmenntunar, rannsókna og alþjóðasamstarfs. Hann var mikill hvatamaður framhaldsnáms og bakhjarl þeirra sem sóttu í sérnám erlendis.
Þegar kom að því að skoða og velja skóla til framhaldsnáms í útlöndum kom Peter sterkur inn, fullur áhuga og eldmóðs fyrir okkar hönd.
Peter var eins konar kíkir okkar út í hinn stóra heim fyrir daga netsins, þegar upplýsingar um hina ýmsu skóla og menntastofnanir lágu ekki á glámbekk.
Tengslanet Peters teygði sig um víða veröld. Ef hann ekki þekkti mann þá þekkti hann mann sem þekkti mann. Hann var alltaf boðinn og búinn til ráðgjafar og það nýttum við okkur svo sannarlega.
Það kom sér vel að eiga slíkan mann að.
Peter var um ára- og áratugabil einn helsti máttarstólpi tannlæknakennslu á Íslandi. Eftir hann liggur að auki fjöldi rannsókna og vísindagreina og mörgum kom hann af stað á þeim vettvangi.
Peter var hlýr og góður maður sem lét sér annt um nemendur sína og kollega og vildi þeirra hag sem bestan og frama sem mestan.
Helgu og fjölskyldu þeirra Peters sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Ásgeir Sigurðsson,
Gunnar Rósarsson,
Ingólfur Eldjárn,
Jónas Geirsson,
Sigurður Rúnar
Sæmundsson.
Kveðja frá FUMFS – félagi um munnheilsu fólks með sérþarfir:
Í dag kveðjum við merkan tannlækni og fræðimann, William Peter Holbrook. Hann þreyttist aldrei á að deila þekkingu með sér og fræða okkur í sínu fagi. Í norrænu og alþjóðasamstarfi FUMFS – það er NFH og iADH – var hann einnig mjög þekktur og virtur sem fyrirlesari og fræðimaður og voru margir sem komu að máli við okkur til að hrósa honum. Hann var félagsmaður í FUMFS frá upphafi og tók virkan þátt í starfi félagsins. Árið 2021 var hann kjörinn heiðursfélagi FUMFS.
Að leiðarlokum þökkum við fyrir samstarfið og góð kynni. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.
F.h. FUMFS,
Elín S. Wang.
Kveðja frá Tannlæknafélagi Íslands:
Lyflækningar munns eru ekki gömul fræðigrein innan tannlæknisfræðinnar. Danski prófessorinn J.J. Pindborg lagði grunn að henni um miðja síðustu öld á Norðurlöndum, ef ekki á heimsvísu. Peter Holbrook, prófessor emeritus, var einn öflugasti vísindamaður Tannlæknadeildar Háskóla Íslands um árabil, hann var okkar Pindborg.
Peter lauk námi í tannlæknisfræði frá Edinborgarháskóla 1972 og doktorsprófi í örverufræði munns frá sama háskóla 1976. Síðar lauk hann sérfræðinámi í örveru- og lyflæknisfræði munns. Hann lést 28. apríl sl. 75 ára að aldri eftir erfið veikindi.
Eftir hann liggur fjöldi rita og fræðigreina, bæði erlendra og innlendra. Hann ritstýrði fræðiritinu Acta Odontologica Scandinavica um nokkurra ára skeið og átti áður sæti í ritstjórn Journal of Dental Research og Tannlæknablaðsins. Peter hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Árið 1997 hlaut hann norrænu Bensow-verðlaunin fyrir framlag sitt í þágu vísinda og árið 2015 hlaut hann vísindaverðlaun frá alþjóðlegum samtökum sem helguð eru rannsóknum í tannlæknisfræði, International Association for Dental Research, IADR. Verðlaunin hlaut hann fyrir rannsóknir og þróun á lyfjaformum til notkunar gegn ýmsum sjúkdómum á munnslímhúð, m.a. sýkingum af völdum baktería, sveppa og veira ásamt sárum í munni. Rannsóknarhópur stofnaði sprotafyrirtækið Líf-Hlaup ehf., Bio-Gels Pharmaceuticals ehf., árið 1998, sem m.a. vann að þróun lyfja gegn herpessýkingum og munnangri. Meðal stofnenda auk Peters voru þau Þórdís Kristmundsdóttur, Halldór Þormar og Skúli Skúlason.
Peter var mjög tengdur IADR, var í stjórn og í ótal nefndum. Nokkur hópur íslenskra kollega sótti rannsóknaráðstefnur IADR. Erfitt var af fá Peter í hitting með hópnum í lok dags, því hann var fastur á fundum í hinum ýmsu nefndum fræðasamfélagsins.
Peter hóf störf á tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 1981, fyrst sem lektor, síðar dósent og prófessor frá 1992 til starfsloka. Peter var deildarforseti tannlæknadeildar um árabil og gegndi hlutastarfi sem sérfræðingur í lyflækningum munns fyrir Landspítala og á tannlæknastofu Mörkinni 6. Hann var leiðbeinandi í rannsóknartengdu framhaldsnámi.
Ekki er hægt að minnast kollega Peters Holbrooks án þess að eiginkona hans, Helga Ögmundsdóttir prófessor emerita, komi í hugann. Þau virtust óaðskiljanleg, hún starfaði einnig í Læknagarði eins og Peter og var mjög sýnileg í húsinu. Þau voru unnendur klassískra lista, með áskrift að tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og sýningum Þjóðleikhússins. Eftir að húmaði að kvöldi hjá Peter var Helga í því að örva huga hans með ótal viðburðum.
Peter var virkur í félagsstörfum fjölda vísinda- og fagfélaga, sérstaklega erlendra en einnig innlendra, og gegndi þar nefndar- og stjórnarstörfum. Fyrir hönd Tannlæknafélags Íslands eru störf hans í þágu félagsins þökkuð.
Á þessum tímamótum þökkum við Peter samfylgdina, vottum Helgu, öðrum ættingjum og samstarfsfólki virðingu okkar. Blessuð sé minning hans.
F.h. Tannlæknafélags Íslands,
Svend Richter.