Valsmenn fara með fjögurra marka forskot til Grikklands í úrslitaeinvígi sínu við Olympiacos í Evrópubikar karla í handbolta eftir sigur á heimavelli í fyrri leiknum á Hlíðarenda á laugardagskvöld, 30:26.
Það lið sem vinnur einvígið verður Evrópubikarmeistari og eru íslensku bikarmeistararnir í sterkri stöðu fyrir seinni leikinn. Olympiacos er hins vegar gríðarlega erfitt heim að sækja og ljóst að einvígið er hvergi nærri búið.
Seinni leikurinn fer fram næstkomandi laugardag og fær Valur tækifæri á að verða fyrsta íslenska liðið til að vinna Evróputitil í handbolta.
Benedikt Gunnar Óskarsson átti glæsilegan leik fyrir Valsmenn og skoraði tíu mörk. Magnús Óli Magnússon skoraði fimm. Gríski landsliðsmaðurinn Savvas Savvas skoraði tíu fyrir Olympiacos, þrátt fyrir að Björgvin Páll Gústavsson hafi varið 17 skot í marki Vals.