Guðrún Kalla Bárðardóttir fæddist 15. apríl 1946 í Reykjavík. Hún lést 9. maí 2024 á Landspítalanum í Reykjavík eftir stutt og óvænt veikindi.

Foreldrar hennar voru Bárður Friðgeir Sigurðsson endurskoðandi, f. 15. júlí 1921, d. 11. september 2008, og Fanný Erna Þorsteinsdóttir, f. 24. janúar 1927, d. 22. mars 1956. Systkini Köllu eru Gyða, f. 30. september 1948, Auður, f. 4. ágúst 1952, Sigurður Kristinn f. 25. febrúar 1955, d. 5. júní 2018 og hálfbróðir þeirra Bárður Örn, f. 15. ágúst 1959.

Árið 1964 giftist Kalla eiginmanni sínum Hilmari Þór Sigurþórssyni húsasmíðameistara, f. 5. nóvember 1944. Kalla og Hilmar eignuðust fjögur börn, þau eru:

1) Örn Hilmarsson húsasmiður, f. 19. mars 1965, d. 24. október 2021. Örn átti stjúpson og tvær dætur með fyrrverandi eiginkonu sinni Jóhönnu Jónsdóttur, f. 14. september 1963, d. 6. desember 2009. Þau eru Stefán Hafberg Sigurðsson, f. 15. október 1983, d. 11. desember 2013, Heiða Arnardóttir, f. 28. júlí 1987 og Lísa Arnardóttir, f. 7. ágúst 1988, d. 15. september 2009.

2) Ingibjörg Bára Hilmarsdóttir, miðill og líkamsræktarþjálfari, f. 4. maí 1967, gift Bjarka Þór Magnússyni rafeindavirkja, f. 11. apríl 1973. Börnin hennar eru: a) Eva Rós Sverrisdóttir, f. 4. september 1991, gift Ríkharði Friðgeirssyni, dóttir þeirra er Helena Rán Ríkharðsdóttir. b) Lena Rut Sverrisdóttir, f. 30. ágúst 1994, býr með Axel Árna Herbertssyni. c) Daníel Máni Bjarkason, f. 29. mars 2004.

3) Hrönn Hilmarsdóttir þroskaþjálfi, f. 27. júní 1972, gift Guðmundi Sævarssyni rafmagnsverkfræðingi, f. 5. febrúar 1973. Dætur þeirra eru: a) Sif Guðmundsdóttir, f. 17. desember 2000, býr með Páli Sigurði Sigurðssyni og b) Karen Guðmundsdóttir, f. 23. maí 2003, býr með Eyvindi Enok Sigurðssyni.

4) Ómar Hilmarsson rafmagnsverkfræðingur, f. 19. nóvember 1973, giftur Heklu Guðmundsdóttur bandvefslosunarkennari, f. 7. júlí 1974. Börn þeirra eru Saga Ómarsdóttir, f. 6. desember 2003 og Dagur Ómarsson, f. 16. mars 2010.

Guðrún Kalla ólst upp á Bergþórugötu 2 í Reykjavík og bjó þar til 22 ára aldurs. Þá fluttu þau hjónin á Smyrlahraun í Hafnarfirði í húsnæði sem þau byggðu. Hún sinnti börnum og búi og saman ráku þau hjónin trésmíðaverkstæði, þar sem hún sá um bókhaldið og skrifstofuna. Síðar starfaði hún í föndurverslunum þar sem sköpunargleði hennar fékk að njóta sín. Aðaláhugamál hennar var allt sem tengist skapandi hönnun.

Útför Guðrúnar Köllu fer fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 21. maí 2024, kl. 15.

Elsku mamma.

Þú fórst svo óvænt að maður situr hálfdofinn á eftir. Eftir sitja samt allar fallegu minningarnar um þig og þakklæti fyrir að hafa átt þig að.

Ég hugsa um smákökubakstur um jólin á Smyrlahrauninu, „steinakökuna“ á afmælisdaginn minn og þegar þú varst að reyna að fá mig til að taka til í herberginu mínu og ég sagði alltaf já en gleymdi mér svo í einhverju öðru. Ég minnist hversu vel þú passaðir alltaf upp á að við systkinin værum vel til höfð en settir sjálfa þig aldrei í fyrsta sætið. Ég man hversu mikið þú brostir og hversu einlæglega þú hlóst og hversu gaman var að segja brandara til að fá þig til að hlæja.

Þú varst haukur í horni fyrir öll börnin og barnabörnin þín og fylgdist alltaf vel með því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þú varst hrein og bein, stóðst fast á þínu og sagðir það sem þú hugsaðir án þess að nein sía væri að flækjast fyrir. Það var líka allt í lagi af því við vissum hversu mikil ást bjó að baki.

Ég spurði pabba, þegar við biðum þess sem verða vildi, hvaða ár hann teldi vera bestu ár lífs ykkar og hans svar var það hefðu verið þessi síðustu ár þegar þið gátuð áhyggjulaus notið þess að vera bæði á Íslandi og í litla húsinu ykkar á Spáni sem þú innréttaðir svo fallega. Ég man hve gaman það var að heimsækja ykkur þangað og að í hvert skipti sem við hringdum þangað frá Íslandi, var fyrsta spurningin „eruð þið ekki að koma“?

Við eigum eftir að sakna þín afskaplega mikið elsku mamma en minningarnar lifa og þær munum við varðveita svo lengi sem við lifum.

Hvíldu í friði,

Ómar, Hekla,
Saga og Dagur.

Elsku mamma.

Ég trúi því ekki að ég sitji hér og skrifi minningargrein um þig. Þú sem hefur alltaf verið svo heilsuhraust og gríðarlega ung í anda. Ég man ekki einu sinni eftir þér með flensu. Síðan varstu skyndilega tekin frá okkur.

Þú varst mín besta vinkona, við töluðum saman mörgum sinnum á dag. Þú skildir mig svo ótrúlega vel og alltaf var hláturinn allsráðandi. Þegar maður hringdi í þig alveg ómögulegur, þá enduðum við alltaf hlæjandi. Meira að segja þegar við tvær fórum saman til Danmerkur til að ganga frá málum og sækja ösku Arnar bróður, þá í stað þess að ferðin væri tengd sorg og þyngslum þá var ferðin ótrúleg þar sem við gátum gert mikið grín að okkur og hlógum mikið. Þú talaðir mikið um hvað þessi ferð hefði verið skemmtileg og vorum við að plana næstu Danmerkurferð.

Allt lék svo frábærlega vel í höndunum á þér, hvort sem það var að prjóna, sauma eða skreyta. Þér tókst að gera sérhvern hlut sem þú skapaðir fallegan því þú hafðir svo gott auga fyrir hlutunum. Þú hefðir átt að verða innanhúsarkitekt því heimilið þitt var eins og hjá yngri manneskju og svo rosalega flott. Þú hafðir ótrúlega gaman af að hugsa fyrir hverjum hlut á heimilinu. Við leituðum alltaf til þín þegar við vorum að gera eitthvað á okkar heimilum. Dætur mínar tala mikið um það hvað það var gott að fá ömmu til að hjálpa að innrétta íbúðirnar þeirra og skreyta fyrir hina ýmsu viðburði. Þú varst svo mikil vinkona þeirra. Þær áttu því svo auðvelt með að leita til þín og treystu því að amma væri með gott auga fyrir hlutunum. Þær minnast með gleði allra góðu stundanna sem þær áttu með þér. Þar má meðal annars nefna jólaboðin hjá ömmu og afa þar sem hláturinn ómaði. Ferðirnar að kaupa blóm í Hveragerði, því þú vildir alltaf hafa garðinn fallegan. Stundirnar saman þar sem þú leiðbeindir þeim í prjóna- og saumaskap. Allar bæjar- og verslunarferðirnar í gegnum árin því okkur fannst það eðlilegasti hlutur í heimi að fara saman fjórar kynslóðir af stelpum, þú, ég, dæturnar og langömmubarnið, sem bættist við hópinn fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan.

Ég er svo fegin að hafa fengið þína hæfileika að geta tengt yfir á hitt sviðið. Það gerir söknuðinn örlítið léttari. Það er líka svo yndislegt að hafa allar þessar yndislegu minningar um þig.

Elsku mamma, við munum öll hugsa vel um pabba fyrir þig. Ég veit að þér líður ótrúlega vel og ert búin að hitta fólkið þitt, mömmu þína og pabba, Sigurð bróður þinn, Örn bróður (son þinn) og börnin hans, þau Stefán og Lísu.

Bára, Bjarki, Eva,
Lena og Daníel.

Elsku mamma, amma og tengdamóðir, það er erfitt að átta sig á því hve fljótt þú kvaddir þennan heim. Aðdragandinn enginn og þú full af lífsgleði og þrótti. Á tímum sem þessum ylja okkur minningar um samveru og gleði.

Þú varst handlagin og hvort sem var að prjóna, sauma, föndra eða skreyta, allt lék í höndunum á þér. Bútasaumsteppin sem þú saumaðir fyrir barnabörnin voru hreint og beint listaverk. Þú hafðir mikinn áhuga á hönnun og arkitektúr og gafst þér tíma til að velja saman fallega stílhreina hluti á heimilið. Einnig að fylgjast með tískunni þegar þú keyptir flíkur á börn eða barnabörn. Alltaf í takt við tímann og með puttann á púlsinum.

Þú hafðir skoðanir og vissir hvað þú vildir og ófeimin við að leggja til þitt álit. Þú passaðir upp á ungana þína, vildir vel og stóðst ávallt með þínu fólki. Þú hringdir reglulega til að taka stöðuna og ef þú hafðir ekki heyrt í okkur í nokkra daga þá sagðir þú glettin „ég hringdi bara kanna hvort þú værir á lífi“. Þú varst ávallt til staðar og það skipti okkur miklu máli.

Það er stutt síðan við eyddum saman helgi uppi í sumarbústað að spjalla og spila. Við gátum slakað á og lesið í ró og næði, en þú hafðir unun af því að lesa góða bók og leggja einn og einn spilakapal. Stundirnar uppi í sumarbústað með ykkur voru yndislegar.

Einnig áttum við saman dásamlega tíma á Spáni í fína húsinu ykkar. Ferðin okkar saman til Valencia stendur samt upp úr þar sem við örkuðum um allt að skoða borgina og menningu hennar. Við borðuðum þar góðan mat, gengum mikið, skoðuðum, spjölluðum og hlógum.

Þið hjónin hafið verið dugleg að hafa eitthvað fyrir stafni saman. Við fjölskyldan saman í hestamennsku hér á árum áður og svo fóruð þið að ferðast þegar börnin voru uppkomin. Fóruð að dunda ykkur í golfi og að sinna sumarbústaðnum. Voruð dugleg að fara í heimsókn og hitta vini og kunningja eða gerðuð eitthvað annað skemmtilegt. Nú síðustu ár hafið þið farið reglulega til Spánar til að njóta alls þess sem landið hefur upp á að bjóða. Eigið þar stóran hóp góðra vina og kunningja sem hafa gert veru ykkar þar enn skemmtilegri.

Þú varst hláturmild, listræn, ákveðin, létt og kát. Þín er sárt saknað en minning þín lifir með okkur.

Hrönn, Guðmundur (Gummi), Sif og Karen.

Kalla, eins og hún var alltaf kölluð, ólst upp á Bergþórugötunni og gekk í Austurbæjarskóla, hún var elst af okkur systkinunum.

Þar sem móðir okkar lést þegar Kalla var aðeins níu ára gömul ákváðu móðuramma okkar og afi að flytja inn á heimilið og annast okkur og gekk það vel, en það er aldrei eins að alast upp hjá ömmu og afa heldur en foreldrum sínum, söknuðurinn átti alltaf sinn stað í huga okkar.

Ekki var auðvelt fyrir fullorðið fólk að taka við heimili með fjórum börnum, yngsta 13 mánaða, Sigurður Kristinn, f. 25.2. 1955, d. 5.6. 2018, Auður, f. 4.8. 1952, Gyða, f. 30.9. 1948, og svo eignaðist faðir okkar Bárð Örn, f. 15.8. 1959.

Amma fékk heilablóðfall í ágúst 1963 og þar með vorum við orðin ein en einhvern veginn gátum við látið hlutina ganga og lærðum að hugsa um okkur sjálf. Kalla var að vinna í Kaupmannahöfn þegar amma dó en kom heim og hjálpuðumst við öll að við að halda heimili ásamt föður okkar.

Kalla var sautján ára þegar hún kynntist manni sínum, Hilmari Sigurþórssyni, f. 5.11. 1944, og átján ára var hún gift og búin að eignast sitt fyrsta barn, Örn, síðan kom Ingibjörg Bára, þá Hrönn og síðan Ómar.

Þar sem Hilmar var frá Hafnarfirði þá byggðu þau sér hús þar og hafa búið í Hafnarfirði síðan og öll börnin hafa búið sér heimili þar líka en Örn flutti svo til Kaupmannahafnar og bjó þar í mörg ár og andaðist þar 24.10. 2021, það var Köllu og Hilmari mikið áfall að missa hann.

Kalla var alla tíð mjög myndarleg í höndunum, bæði saumaði hún og prjónaði mikið á börnin sín og á tímabili var hún að mála mjög fallegar myndir.

Þau hjónin byggðu sér sumarhús í Hraunborgum fyrir austan og voru mikið þar á sumrin, síðan keyptu þau hús á Spáni og dvöldu þar nokkra mánuði í senn yfir kaldasta timann hér heima.

Kalla og Hilmar hafa eignast níu barnabörn og eitt barnabarnabarn.

Hennar verður sárt saknað, við Auður eigum eftir að sakna þess að geta hringt í hana og spjallað eða hittast á kaffihúsi.

Við Auður vottum Hilmari, Báru, Hrönn, Ómari og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Systrakveðja,

Gyða og Auður.