Jórunn Tómasdóttir fæddist 21. maí 1954. Hún lést 20. október 2023. Útför Jórunnar fór fram 6. nóvember 2023.
Elsku Jórunn vinkona okkar hefði fagnað sjötíu ára afmæli sínu í dag hefði henni enst aldur. Af því tilefni langar okkur að minnast hennar nokkrum orðum.
Á bernskuárum okkar í Keflavík mynduðust vinatengsl sem aldrei slitnuðu þótt samskiptin hafi verið mismikil eins og gengur. Jórunn orðaði það svo í ljóði sínu „Óður til vináttunnar“ að vinátta okkar væri næstum því eldri en við sjálfar. Minningarnar eru mömmó með dúkkurnar, snúsnú og teygjutvist, róló, hopp í parís, hjólatúrar og flestir dagar voru sólardagar. Við urðum ljósálfar og skátar og nutum alls þess sem það starf býður upp á. Það verður seint ofmetið hversu mikilvægur góður vinahópur er á þessum árum og jafnframt ylja minningar um kæru Tómas og Hædý foreldra Jórunnar.
Það kom fljótlega í ljós að Jórunn var afburðavel gefin og var hún ári á undan jafnöldrum sínum í skóla og stóð skólasystrum sínum jafnfætis og rúmlega það. Einnig má segja að snemma hafi komið í ljós hvert ævistarf hennar yrði, því tíu ára gömul stóð hún fyrir því að stofna skóla, þar sem litlir vinir og systkini urðu að mæta samviskusamlega samkvæmt stundaskrá.
Á táningsaldrinum breyttust áherslurnar og við tók gaggó, handbolti, bíóin stunduð reglulega og síðan kom Stapinn. Seinna komu framhaldsskólar í Reykjavík, með nýjum vinum og kærustum, en strengurinn slitnaði aldrei og alltaf þegar við hittumst var eins og það hefði síðast verið í gær.
Jórunn var tignarleg og glæsileg heimskona. Hún var við nám í París og drakk í sig franska menningu. Hún var í mörg ár fararstjóri á Spáni og elskaði heita loftslagið á þeim slóðum. Hún var dugleg og yfirveguð í öllu því sem hún gerði og unni fegurðinni í umhverfinu. Á níunda áratugnum kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Skúla Thoroddsen, og þau eignuðust Halldísi. Eins og gengur líður þessi kafli ævinnar við barnauppeldi og önnur skyldustörf og samskiptin því minni.
Eftir því sem aldurinn færist yfir verður meiri tími til að sinna sjálfum sér og vinum. Við höfum nýtt þann tíma til að auka samskiptin og hittast oftar, rifja upp gamlar minningar og búa til nýjar. Eins og Jórunn orðaði það í áðurnefndu ljóði: „Fortíðin er okkar – og framtíðin líka.“ Í nokkur skipti höfum við fjórar vinkonurnar notið samveru á Spáni þar sem okkur leið eins og við hefðum ekki elst um einn dag. Sú síðasta var í júní á síðasta ári þar sem lagðar voru línur um hvernig haldið skyldi upp á sjötugsafmæli okkar allra um það leyti sem Jórunn yrði sjötug. Af því verður því miður ekki.
Vatnaskil urðu í lífi Jórunnar þegar Halldís dóttir þeirra Skúla veiktist af krabbameini og lést í árslok 2022. Sorgin, reiðin og vonleysið náði tökum á Jórunni og þótt eitthvað rofaði til inn á milli var harmurinn óyfirstíganlegur. Var það okkur erfitt að horfa upp á vinkonu okkar fölna og geta lítið gert til að létta henni lífið. Jórunn varð bráðkvödd þann 20. október síðastliðinn og höfum við orðað það þannig að hún hafi dáið úr sorg.
Á þessum tímamótum viljum við ítreka samúðarkveðjur okkar til Skúla og annarra ættingja og vandamanna.
Guðrún M. Benediktsdóttir, Helga Árnadóttir.