Hjörleifur Hallgríms
Mikið er rætt og ritað um væntanlegar forsetakosningar og sýnist sitt hverjum. Ég hef hallast að því að kjósa Katrínu Jakobsdóttur alfarið vegna þess að ég vil ekki samkynhneigðan mann sem forseta Íslands. Stjórnmálaskoðanir Katrínar trufla mig ekki og störf hennar sem forsætisráðherra ekki heldur. Hef ég oft verið henni ósammála á því sviði en hún hefur getið sér gott orð á erlendum vettvangi og sýnt þar víðsýni og hógværð. Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá því að minnast á að pólitískt þvarg á ekki heima á Bessastöðum enda embættið ekki slíkt.
Áhugavert hefur verið að fylgjast með ýmsu því sem fólk hefur fram að færa í sambandi við væntanlegar kosningar. T.d. var ég að lesa á Vísi þar sem Steinunn Ólína tjáir sig um að kosningastjóri Höllu Hrundar sé gerð tortryggileg vegna starfa hjá OS og þiggi laun fyrir. Einnig tekur Gunnar Smári undir þetta og vill að hafnað verði slúðurberum sem séu á vegum og á launum hjá auðfólki. En stöldrum nú við, því ég man þá tíð, eldri maðurinn, að sagt var: „Ekki lýgur Mogginn.“ Því til stuðnings er blaðamaður á Mbl. með úttekt um mál sem varða Höllu Hrund í blaðinu sl. laugardag, 4. maí, þar sem segir m.a. orðrétt: „Margir af nánustu samstarfsmönnum Höllu Hrundar Logadóttur í forsetaframboði hennar eru stjórnendur og eigendur hjá fyrirtækjum sem hafa undanfarin misseri selt þjónustu til Orkustofnunar (OS) fyrir tugmilljónir króna. Halla Hrund er orkumálastjóri og forstöðumaður stofnunarinnar.“
Síðan segir: „Á síðustu 16 mánuðum hefur OS greitt samtals 31.117.824 krónur til þriggja fyrirtækja þar sem lykilmenn hafa líka verið lykilmenn í kosningateymi Höllu Hrundar eða upphafsmenn í facebook-hópi til stuðnings henni.“ Þrjú fyrirtæki virðast koma þarna mjög við sögu og Orkustofnun virðist hafa greitt þeim milljónir fyrir mislitla vinnu. Sagt er að margir frá fyrrgreindum fyrirtækjum séu í stuðningsmannateymi Höllu Hrundar fyrir forsetakosningarnar og einnig að fyrrgreind fyrirtæki með tengsl við framboð hennar fái greiðslur frá OS, a.m.k. 24.673.965 kr.
Að lokum kemst ég ekki hjá að geta þess að Halla Hrund er vænd um að hafa án samráðs við íslensk stjórnvöld skrifað undir viljayfirlýsingu við stjórnvöld í Argentínu á sviði jarðvarma og herma heimildir að hún hafi hlotið tiltal frá ráðuneytisstjóra vegna yfirlýsingarinnar. Af þessu að dæma er ekki nema von að þau skötuhjú Steinunn Ólína og Gunnar Smári séu bangin vegna stuðnings auðfólks við forsetakosningarnar.
Höfundur er eldri borgari.