Peter Mason frá Barclays-banka segir að UFS-markaðurinn komi til með að vaxa í Evrópu en að minni áhugi sé til staðar í Bandaríkjunum.
Peter Mason frá Barclays-banka segir að UFS-markaðurinn komi til með að vaxa í Evrópu en að minni áhugi sé til staðar í Bandaríkjunum. — Morgunblaðið/Eggert
Ein stærsta evrópska skuldabréfaráðstefna ársins á vegum ECBC fór fram hér á landi í síðustu viku. European Covered Bond Council (ECBC) eru samtök útgefenda sértryggðra skuldabréfa í Evrópu. Samtökin eru tengd European Mortgage Federation (EMF) sem eru regnhlífarsamtök evrópskra húsnæðislánaveitenda

Ein stærsta evrópska skuldabréfaráðstefna ársins á vegum ECBC fór fram hér á landi í síðustu viku.

European Covered Bond Council (ECBC) eru samtök útgefenda sértryggðra skuldabréfa í Evrópu. Samtökin eru tengd European Mortgage Federation (EMF) sem eru regnhlífarsamtök evrópskra húsnæðislánaveitenda.

Á ráðstefnunni stýrði Peter Mason frá Barclays-banka pallborði þar sem fjármálastjórar stóru viðskiptabankanna sátu fyrir svörum. Það voru þeir Hreiðar Bjarnason, fjármálastjóri Landsbankans, Ellert Hlöðversson, fjármálastjóri Íslandsbanka, og Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka. Þeir ræddu markaðinn fyrir sértryggð skuldabréf hér á landi, hlutverk hans, horfur fyrir bankana, tækifæri og áskoranir.

Einnig var fjallað nokkuð um UFS-áherslur bankanna, það er áhersluna á umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, sem hafa verið til umfjöllunar á liðnum árum.

Kostnaður og áhættudreifing lykilþættir

Peter segir í samtali við ViðskiptaMoggann að Barclays sé einnig útgefandi sértryggðra skuldabréfa og að það sem mikilvægast sé að íhuga áður en farið er í slíka fjármögnun sé kostnaðurinn.

„Þetta er ódýrasta langtímafjármögnunin fyrir marga evrópska banka. Það má heldurr ekki gleyma því heldur að bréfin veita áhættudreifingu fyrir fjárfesta sem er mikilvægt fyrir banka að hafa,“ segir Peter. Spurður hvernig hann sjái markaðinn með sértryggð skuldabréf þróast og hvort hann telji að það séu einhverjar hindranir fyrir vexti hans segir hann svo ekki vera.

„Við höfum séð útgáfu sértryggðra skuldabréfa minnka á undanförnum árum, þar sem seðlabankar hafa veitt bönkum hagstæð lán, en hún fer vaxandi aftur um þessar mundir. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafa um 100 milljarðar evra verið gefnir út í sértryggðum skuldabréfum,“ segir Peter og segir enn fremur að fjöldi þátttakenda í ráðstefnunni sé til marks um hversu mikið markaðurinn geti vaxið.

„Við erum með þátttakendur frá Georgíu, Indónesíu, Tansaníu og fleiri stöðum. Ég tel því að markaðurinn eigi mikið inni og horfurnar fyrir frekari vöxt eru góðar.“

UFS-markaðurinn vaxandi

Peter segir að markaðurinn fyrir græn skuldabréf fari vaxandi og fyrirtæki leggi sífellt meiri áherslu á UFS-þætti, einkum í Evrópu. Áhuginn í Bandaríkjunum á þeim fjármálavörum fari þó minnkandi.

„Ég tel að minnkandi áhugi þar hafi mikið með pólitík að gera. Áhuginn mun þó vaxa enn meira í Evrópu að sama skapi. Við sjáum að í Evrópu er meiri peningur að fara inn í UFS-sjóði, við sjáum ríki gefa út græn skuldabréf ásamt fjármálastofnunum og fyrirtækjum og almennt er meiri áhersla þar á þennan eignaflokk,“ segir Peter og bendir á að í Bandaríkjunum sé útflæði úr UFS-sjóðum.

„Það er mikill áherslumunur á milli Evrópu og Bandaríkjanna í þessum málum og ég tel að hann verði enn meiri þegar fram líða stundir,“ segir Peter að lokum.