Sveinbjörn Þórisson fæddist á Lyngási í Holtum 9. nóvember 1957. Hann lést á gjörgæsludeild LSH 6. maí 2024.

Foreldrar Sveinbjörns voru Þórir Sveinbjörnsson, f. 16. mars 1936, d. 29. janúar 2011, og Vilborg Eyjólfsdóttir, f. 8 október 1932, d. 16. júní 2022.

Systkini eru Eygló, f. 1953, Áslaug, f. 1963, d. 1965, Ásdís, f. 1966, Ásþór, f. 1972, Gunnar, f. 1975, d. 2014, Hjörtur, f. 1964, og Steinar, f. 1968.

Eiginkona hans var Anna Rut Hauksdóttir, f. 27. ágúst 1956, d. 26. júní 1994. Börn þeirra eru: 1) Þórir, f. 1975, kvæntur Kristjönu Dögg Hafþórsdóttur, f. 1981, börn þeirra eru Sveinbjörn, Þórhildur og Hörður. 2) Sóley, f. 1978, börn hennar eru Aníta og Kiana, Sóley er í sambúð með Kenneth W. Frederick, f. 1968. 3) Bjarni Steinar, f. 1987, sonur hans er Brimir, Bjarni er í sambúð með Hrafnhildi Þrastardóttur, f. 25.6. 1996, hennar börn eru Unnar og Líf, Bjarni og Hrafnhildur eiga von á barni.

Eftir fráfall Önnu kvæntist Sveinbjörn Maríu H. Ragnarsdóttur, f. 1953, d. 1.7. 2017.

Eftirlifandi eiginkona Sveinbjarnar er Hildur Þorsteinsdóttir, f. 18. september 1964. Fyrir átti Hildur þrjár dætur, þær eru: Soffía Thorberg, f. 20.6. 1984, hún á tvo drengi, þá Kristján og Sölva; Sonja Thorberg, f. 3.6. 1990, hennar maður er Fannar Eyjólfsson, f. 7.8. 1986, Sonja á tvo drengi, þá Loga og Hjört, Fannar á þrjár dætur, þær Viktoríu, Ísabellu og Aþenu; Olga Maggý W., f. 20.2. 2002, hennar kærasti er Markús Loki, f. 6.1. 2003.

Barnabörnin eru 15 og eitt á leiðinni.

Sveinbjörn ólst upp í foreldrahúsum á Lyngási í Holtum. Að skólagöngu lokinni, þá aðeins 17 ára, fór hann að vinna með föður sínum hjá Jarðborunum ríkisins og svo Jarðborunum hf. þar sem hann vann í 46 ár.

Sveinbjörn verður jarðsunginn frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 22. maí 2024, klukkan 13.

Elsku Bjössi, hjarta mitt er í molum. Ég veit ekki hvernig hægt er að orða þetta öðruvísi. Í dag kveð ég eiginmann minn, minn besta vin og sálufélaga til sjö ára. Börnin kveðja föður, stjúpföður og afa.

Þú varst það besta sem gat hent mig, tryggur og traustur reyndist þú mér og mínum, umvafðir mig ást og umhyggju. Þú vildir allt fyrir mig gera og það var svo sannarlega gagnkvæmt. Við áttum fallegt samband og þú varst minn helsti heilsupeppari. Við æfðum í bílskúrnum, fórum í göngur með hann Pablo okkar sem saknar þín sárt, nutum samvista heima og að heiman, í siglingum, sólarferðum og borgarferðum. Okkur þótti líka gaman að skoða bíla en við deildum ólæknandi bíladellu meðal annars og þurftum að eiga fallega og góða bíla og útlitið skipti okkur bæði miklu máli.

Við eigum fallegt heimili, þar sem ég fékk að ráða hvernig hlutirnir litu út og þú framkvæmdir þá fyrir mig. Þér var ýmislegt til lista lagt, eins og að vera meistarakokkur, smiður, málari, garðræktandi … já þú kunnir líka á saumavél, það er fátt sem þú ekki kunnir. Það lifnaði allt í þínum höndum enda ber hraunhleðslan þess merki nú þegar sólin og sumarið strjúka vanga minn. Við nutum samvista heima og að heiman, það var gott að hlæja með þér og dvelja í þögn. Við vorum svo mikið saman að oft voru orð óþörf. Við áttum einstaklega vel saman og unnum vel saman.

Oft sagði Bjössi að hann hefði svo gjarnan, ef hann mætti einhverju breyta, viljað kynnast mér fyrr. Þið sem þekkið okkar sögu vitið hvað hann meinti. Við vorum einfaldlega hamingjusöm yfir því að hafa hist og átt svona vel saman.

Það var og er margt fram undan sem verður mikil áskorun fyrir mig að takast á við án þín. Mig langar það ekki en verð að gera það.

Þetta eru óskaplega fátækleg orð elsku Bjössi minn og ótímabært að kveðja þig. Þú skilur mig þó eftir í góðum höndum með stóra fjölskyldu að baki mér, börnin okkar öll sem mér þykir svo vænt um.

Takk fyrir allt sem við áttum saman og munum alltaf eiga.

Þar til við sjáumst á ný bið ég Guð að geyma þig í hendi sér, blessa minningu þína og okkur sem eftir lifum í sorg.

Þín fallegu augu fylgja mér. Fallegi þú í hjarta mér.

Þín

Hildur.

Elsku pabbi minn, hjartað mitt er í molum. Alltaf hef ég verið sterk, en þetta er öðruvísi. Ég horfi á símann minn og langar að hringja í þig, en þá dettur raunveruleikinn inn, þú ert farinn.

Þú ert pabbi minn, sá sem ég leit alltaf upp til, minn besti vinur. Þú varst frekar lokaður en við skildum hvort annað. Þú elskaðir okkur og vildir allt fyrir okkur gera. Við áttum það sameiginlegt að elska að ferðast. Þú varst alltaf að reyna að fá okkur í siglingu með þér, ég mun fara í eina til minningar um þig. Allar jólaferðirnar okkar til Glasgow, skrítið verður að fara án þín. Fyrir mér var lífið þitt rétt að byrja, hættur að vinna og svo tilbúinn að njóta lífsins. Þú áttir eftir að fara í siglinguna, til Grikklands, svo margt annað.

Doppa Dís og þú áttuð einstakt samband, hún mun sakna þín.

Ég veit að þú varst stoltur af afastelpunum þínum. Ég man eftir að þú keyptir kúrekastígvél fyrir þig og Anítu. Hún var svo ánægð með þau og var alltaf í þeim, svo var mikilvægt að raða þeim hjá afaskóm. Þú elskaðir Anítu og Kiönu afastelpurnar þínar mikið.

Þú varst mikill snyrtipinni og fagmaður í öllu sem þú gerðir. Heimilið okkar var fallegt og umvafið ást og kærleika. Þú kenndir mér að búa mér til öryggi og treysta á mig, menntun var mikilvæg. Hef ég kennt mínum stelpum það. Þú hafðir ekki tök á að mennta þig, þurftir að byrja að vinna ungur, aðeins 17 ára. En þú varst duglegur og vannst hjá Jarðborunum til 2019.

Ég vildi óska þess að við hefðum haft meiri tíma saman, við áttum eftir að gera svo mikið. Við hlökkuðum svo til þess að fara í útilegu með þér í sumar á nýja húsbílnum þínum. Þú varst mjög ákveðinn með að fara í Þjórsárdal.

Ég á svo margar minningar þaðan frá því að ég var lítil stelpa. Þegar ég hugsa til baka þá hef ég alltaf verið pabbastelpa, þú vannst mikið og hlakkaði ég alltaf til þess að þú kæmir heim.

Það veitir mér svo mikla hlýju í hjartað að þú verður nálægt Gus, þið voruð svo miklir vinir og þótti þér svo vænt um hann.

Þú ert og verður alltaf minn pabbi.

Elska og sakna þín, elsku pabbi minn,

Sóley Sveinbjörnsdóttir.