Forsvarsmenn þriggja bílaleiga eru sammála um að sumarið í ár verði ekki eins gjöfult og undanfarin sumur. Til að mynda breyttist rekstrarumhverfi þeirra í byrjun ársins þegar kílómetragjald var sett á notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða, sem á að endurspegla notkun á vegasamgöngum. Eigendur slíkra bifreiða, þ.m.t. bílaleigur, þurfa að greiða sex krónur fyrir hvern ekinn kílómetra en tvær fyrir tengiltvinnbifreiðar.
Bílaleigurnar gerðu margvíslegar athugasemdir m.a. við flókna útfærslu á innheimtu gjaldsins, hve skammur fyrirvarinn var sem þeim var gefinn og erfiðleika við að setja gjaldið út í verðlagið, eins og Morgunblaðið fjallaði um skömmu fyrir áramót.
Styttri leiga, minni framlegð
„Það stefnir ekki í metsumar og bókanir eru heldur niður ef miðað er við sumarið í fyrra. Veturinn var hins vegar nokkuð góður. Mér skilst að víðar í kringum okkur hjá gistiaðilum og öðrum sé minni þrýstingur en verið hefur sl. tvö sumur,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds bílaleigu, í samtali við ViðskiptaMoggann, spurður um horfur fyrir sumarið.
Hann segir að innleiðing kílómetragjaldsins hafi gengið illa, enda hafi því verið skellt á með engum fyrirvara og löngu búið að gefa viðskiptavinum leiguverð. „Viðskiptavinir hafa tekið það óstinnt upp og sumar ferðaskrifstofur hafa hreinlega tekið þá bíla sem undir gjaldið falla úr umferð og minnkað þ.a.l. framboðið,“ segir Steingrímur.
Aðspurður segir hann að ekki sé hægt að fullyrða að gjaldið hafi bitnað á viðskiptunum og vísar til fyrri ummæla um að stórar ferðaskrifstofur hafi tekið slíka bíla úr umferð sem minnki vöruframboðið með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á viðskiptin.
Þrátt fyrir að sumarið leggist ágætlega í Magnús Sverri Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Blue Car bílaleigu, tekur hann í sama streng og segir fólk leigja bíla í styttri tíma og að leiguverðið sé orðið lægra. Að hans sögn er langur vegur frá því að sumarið komi til með að slá einhver met hjá fyrirtækinu.
Spurður hvernig hafi gengið að innleiða kílómetragjaldið segir hann að það hafi gengið ágætlega en ekki meira en það.
„Gjaldheimtan er flókin sem sést til að mynda í leigu á bifreiðum frá sama framleiðanda sem eru knúnir dísil eða rafmagni/bensíni. Það er sett kílómetragjald á tengiltvinnbílana en ekki dísilbíla. Flækjustigið liggur einmitt þar að gjaldið er sett á tiltekna bíla en ekki alla,“ segir Magnús Sverrir.
Að hans sögn hefur gjaldið ekki haft mikil áhrif á reksturinn en skynsamlegast væri ef stjórnvöld drægju eina línu sem allir færu eftir, eins og gert var með gistináttaskattinn.
Allir rafmagnsbílar til sölu
Hjörleifur Björnsson, framkvæmdastjóri og eigandi Icerental bílaleigu, segir að það sé algjörlega þannig að fólk leigi bíla í styttri tíma og framlegðin sé minni.
„Yfirleitt byrjar fólk að bóka fyrir sumarið í desember, en janúar og febrúar eru líka stórir bókunarmánuðir og skila þessir mánuðir mestum tekjunum. Það er minna bókað fyrir sumarið í þessum mánuðum og meira er bókað með stuttum fyrirvara sem veldur lægra leiguverði og minni framlegð,“ útskýrir Hjörleifur.
Spurður um innleiðinguna á gjaldinu segir hann að fyrirtækið hafi gefist upp á að leigja slíka bíla.
„Allt sem heitir rafmagnsbílar hjá okkur er til sölu á tombóluverði, þar sem flækjustigið á gjaldheimtunni er glórulaust,“ segir Hjörleifur.
Hann álítur aðspurður að fréttaflutningur erlendra fjölmiðla af eldsumbrotunum hafi haft áhrif á eftirspurnina. Myndir af brennandi húsum og umfjöllun um að landið sé við það að springa hafi hrætt marga ferðamenn frá því að koma hingað.