Áslaug Ívarsdóttir
Áslaug Ívarsdóttir
Fregn um að stokka eigi upp hverfaskólana og byggja nýjan unglingaskóla kom eins og blaut tuska í andlitið á okkur í gær.

Áslaug Ívarsdóttir

Hjartað í Laugarnesskóla slær fast og reglubundið. Við sem þar störfum höfum að leiðarljósi einkunnarorð skólans; lífsgleði, nám, samvinna, kærleikur. Starfið okkar byggist á góðum hefðum, s.s. morgunsöng, palldagskrá og ferðum í skólaselið í Katlagili. Listkennsla er einn af hornsteinum okkar starfs, ásamt regnbogafræðslu og fræðslu um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við erum samheldin og starfsandinn er mjög góður. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hve slíkur mannauður er dýrmætur.

Skólinn okkar er svokallaður mygluskóli. Ég veit að við erum alls ekki eini skólinn sem glímir við myglu, en við erum svo sannarlega orðin langeyg eftir úrbótum. Allt of margir færir og frábærir starfsmenn hafa þurft frá að hverfa vegna heilsubrests af völdum myglu. Sumir í tímabundið veikindaleyfi, aðrir hafa þurft að leita að vinnu annars staðar. Þeir sem eftir standa eru margir hverjir í sorg og óvissu. Sorgmæddir yfir að missa gott fólk úr teymum, óöruggir yfir því hver verður næstur að greinast með einkenni og þurfa þá jafnvel að hætta vinnu hér. Þeir sem eru í veikindaleyfi lifa líka óvissutíma. Geta þeir snúið aftur hingað til vinnu á næsta skólaári?

Við vorum vongóð um að úr rættist næsta haust (2024), að starfsemin yrði flutt í gáma út á skólalóð og skólinn afhentur iðnaðarmönnum til lagfæringar. Þessi áform hjálpuðu okkur að þreyja þorrann og góuna í vetur. – En nei, áformum þessum hefur verið frestað og við höfum ekki enn fengið neinar traustar upplýsingar um hvenær af þessum lagfæringum verður. Hér verða borgaryfirvöld að gera betur.

Enn bættist í vonbrigðasúpuna, en fregn um að stokka eigi upp hverfaskólana og byggja nýjan unglingaskóla kom eins og blaut tuska í andlitið á okkur. Mikil og góð undirbúningsvinna af hálfu skólasamfélagsins alls var unnin fyrir tveimur árum. Þar var þessi tillaga slegin út af borðinu af öllum aðilum. Við viljum ekki skipta skólahverfinu upp í tvö hverfi þar sem helmingur barna hverfisins mun fara í Laugarnesskóla og hinn í Laugalæk. Samtalið á nú aftur að eiga sér stað, við erum aftur á byrjunarreit. Það er bara ekki hægt að breyta áður gefnum niðurstöðum með enn einni könnuninni og nokkrum pennastrikum. Það sættum við okkur ekki við. Nú viljum við fá skýr svör um hvað er fram undan í okkar skólamálum. Börnin í hverfinu eiga betra skilið. Mannauður Laugarnesskóla á betra skilið.

Höfundur er starfandi trúnaðarmaður kennara.

Höf.: Áslaug Ívarsdóttir