Jón Hilmar Karlsson, annar stofnenda Noona Labs, hefur haft í nægu að snúast á liðnum misserum. Fyrr á þessu ári keypti Noona Labs allt hlutafé í SalesCloud en Noona þjónustar nú þegar um 1.800 fyrirtæki í 16 löndum.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Fjármagnsumhverfið fyrir sprotafyrirtæki hefur aldrei verið eins „tricky“ og það er um þessar mundir. Fyrir utan háa stýrivexti á alþjóðavísu, þá hefur sprotabúbblan sem var upp á sitt hæsta á covid-tímum sprungið og verðmöt á sprotum fallið gífurlega. Ef við pörum þessa dínamík við uppgang gervigreindar, þá gefur augaleið að það er sáralítið af fjármagni sem er að renna til sprota sem eru ekki beint að vinna í gervigreind á einn eða annan máta, enda VC-fjárfestar orðnir kröfuharðir á þær fjárfestingar sem þeir gera fyrir utan „AI-spaceið“. Á sama tíma er þetta einfaldlega tækifæri fyrir Noona til að straumlínulaga og vinna okkur markvisst í áttina að því að geta rekið og stækkað félagið án þess að treysta á utanaðkomandi fjármagn.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Ég og Kjartan fórum á Slush í Finnlandi í nóvember sl. Þar stóðu tveir fyrirlestrar upp úr. Í fyrsta lagi var það fyrirlestur Rahul Vohra, stofnanda Superhuman, um vörumerki, hvernig maður byggir upp vörumerki sem stenst tímans tönn og hvernig maður fær fólk til að tengja ákveðnar tilfinningar eða eiginleika við vörumerki. Í öðru lagi var það fyrirlestur Des Treynor, stofnanda Intercom, um mikilvægi einfaldleikans þegar maður byggir upp og skalar sprotafyrirtæki.
Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Þeir eru nokkuð margir. Það eru margir frábærir hugsuðir sem hafa haft djúpstæð áhrif á mig persónulega og Noona sem fyrirtæki. Sá fyrsti sem kemur upp í hugann er Ray Dalio sem skrifaði m.a. bókina Principles. Sú bók opnaði augun mín fyrir mikilvægi þess að tileinka sér djúp kjarnagildi og haga sér eftir þeim í einu og öllu. Ben Horowitz og bækurnar hans um daglegar áskoranir frumkvöðla hafa haft mikil áhrif sömuleiðis. Cal Newport sem skrifaði bókina Deep Work, James Clear í gegnum bókina Atomic Habits sem og Naval Ravikant hafa enn í dag mikil áhrif á það hvernig ég kýs að hátta vinnunni minni. Richard P. Rumelt í gegnum bókina Good Strategy, Bad Strategy hefur mótað það hvernig við hugsum um strategíu almennt og hvernig við mótum stefnur sem hafa leitt til samkeppnisforskots Noona. Að lokum langar mig líka að nefna bók Danny Meyer, Setting the Table, sem ég gríp í við og við til að minna mig á hvað Noona snýst raunverulega um: að gera viðskiptavini ánægða og líf þeirra betra.
Hugsarðu vel um líkamann?
Ég er eflaust ofarlega á skalanum þarna, já. Ég trúi að það skipti litlu máli hvernig maður hreyfir sig og það skipti mun meira máli að lifa aktívum lífsstíl. Sú hreyfing sem ég tileinka mér á hverjum tímapunkti sveiflast því með árstíðunum. Á veturna stunda ég oftast meiri og þyngri lyftingar og reyni að styrkja mig. Á sumrin eyði ég meiri tíma úti í golfi, í löngum göngutúrum eða að vinna upp þol. En allt þetta er kjarnað af vissum hreyfingum sem ég hef mikla trú á og stunda óháð árstíðum – sérstaklega vinnu með líkamsþyngd. Upphífingar, armbeygjur, dýfur og að hanga – slíkar hreyfingar. Upphitun mín er líka alltaf sú sama, en ég er mikið að vinna með movement-æfingar og að hreyfa líkama minn í gegnum óvenjulegar stöður. T.d. hita ég nær alltaf upp með því að skríða á tám og höndum fram og til baka. Að lokum skiptir það mig miklu máli að borða náttúrulegan mat án aukaefna og grænmetisolía (repjuolíu, sólblómaolíu o.s.frv). Það nýjasta hjá mér er svo að ég reyni að klæðast eingöngu náttúrulegum efnum eins og bómull, hör eða ull. Húðin okkar dregur í sig það sem hún snertir og ég er ekki viss um að það sé sérstaklega jákvætt að klæðast og hvað þá svitna í plastefni sem búin eru til úr olíu eins og pólýester.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Draumastarfið mitt er það starf sem leyfir mér að beita huganum mínum til að hanna litla veröld með fólki sem ég get bæði kallað klárasta fólk sem ég þekki og bestu vini mína. Ég er svo heppinn að þetta er nákvæmlega það sem ég geri frá degi til dags hjá Noona og segi ég fullur þakklætis að ég er í mínu draumastarfi. Ég myndi ekki breyta einum stökum hlut.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Það þarf ekki að vera samasem-merki á milli gráðu og lærdóms. Að mínu mati samanstendur lærdómur af þremur þáttum. Í fyrsta lagi er það þekkingaröflun, eins og lestur, sem gefur manni hugmyndir um hvernig þau bestu hafa nálgast sín vandamál í fortíðinni. Í öðru lagi er það raunverulegt action, sem er innblásið af þekkingunni sem maður hefur aflað sér en þarf að vera aðlagað að þeirri stöðu og raunveruleika sem blasir við hverju sinni. Að lokum er það reglulegt „introspection“, þar sem maður skoðar vel það sem maður hefur gert í fortíðinni og reynir að læra af því sem maður gerði rangt og rétt. Besta leiðin sem ég hef fundið til þess er í gegnum skrif. Ég tel að ef allir þessir þrír þættir af lærdómi eru hluti af daglegri rútínu, þá læri maður sífellt af þessu skrítna og flókna en fallega fyrirbæri sem lífið er.
Ævi og störf:
Nám: Stúdentspróf úr Verzlunarskólanum. Kláraði tvö ár í verkfræði áður en ég hætti til að setja fullan fókus á uppbyggingu Noona.
Störf: Fyrir utan sumarstörf með mennta- og háskóla, t.d. sem barþjónn eða í töskunum á Keflavíkurflugvelli, spannar vinnuferillinn minn eingöngu tímann hjá Noona, enda byrjaði ég þar 22 ára.
Áhugamál: Lestur, skrif, núlíðandi stundir, hugleiðsla og nær hverskyns íþróttir.
Fjölskylduhagir: Bý í Hlíðunum ásamt dömunni í lífi mínu, Önnu Dís Ægisdóttur, og hundinum Æró. Síðan er lítil stúlka á leiðinni í heiminn í ágúst.