Myrká Oddgeir hljóp uppi fálka á túninu heima fyrir nokkrum árum. Fálkinn var fyrst sendur í Húsdýragarðinn og síðan sleppt á Snæfellsnesi.
Myrká Oddgeir hljóp uppi fálka á túninu heima fyrir nokkrum árum. Fálkinn var fyrst sendur í Húsdýragarðinn og síðan sleppt á Snæfellsnesi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinn Oddgeir Sigurjónsson fæddist 22. maí 1954 á Þóroddsstöðum í Ólafsfirði og ólst þar upp fyrstu ár ævinnar. „Þórður afi var einn af þeim sem stofnuðu Ólafsfjarðarkaupstað og var fyrsti bæjarstjórinn,“ segir Oddgeir sem er aldrei…

Steinn Oddgeir Sigurjónsson fæddist 22. maí 1954 á Þóroddsstöðum í Ólafsfirði og ólst þar upp fyrstu ár ævinnar. „Þórður afi var einn af þeim sem stofnuðu Ólafsfjarðarkaupstað og var fyrsti bæjarstjórinn,“ segir Oddgeir sem er aldrei kallaður sínu fyrsta nafni heldur alltaf Oddgeir eða bara Oggi. Fjölskyldan flutti á bæinn Lund fyrir ofan Akureyri þar sem hann bjó fram yfir fermingu, en faðir Oddgeirs var bústjóri á Lundi, sem var stórt tilraunabú.

Oddgeir var aðeins 13 ára þegar hann fór að vinna í Mjólkursamlaginu sem sumarmaður, og vann þar nokkur sumur. „Síðan deyr pabbi þegar ég er 17 ára gamall og það var gríðarlegur skellur.“ Oddgeir hætti í skóla og fór að vinna í Mjólkursamlaginu eitt ár og fór síðan á samning hjá Mjólkursamlagi KEA. Nítján ára fór hann til Danmerkur til að fullnuma sig í fræðunum, en þar var eini skólinn á Norðurlöndum í faginu. Hann útskrifaðist sem mjólkurfræðingur og bætti einnig við sig tæknifræði.

Árið 1976 kom hann heim og fór að vinna sem mjólkurfræðingur hjá Mjólkursamlagi KEA. „Ég var gerður ábyrgur fyrir ostagerðinni 1981 og svo gekk þetta koll af kolli og það bættust á mann einhverjir titlar. Ég varð þrisvar sinnum ostameistari ársins og við sendum vörur á Norðurlandasýningarnar og þar fékk ég einhverjar heiðursviðurkenningar.“

Mjólkurfræðingurinn ungi fann ástina á Akureyri. „Ég var ungkarl í tvö ár eftir að ég kom heim úr námi og kynntist frúnni í gegnum vin minn, sem reyndist vera bróðir hennar,“ segir Oddgeir. „Við höfum horfst í augu síðan þá,“ segir hann og hlær.

Oddgeir vann hjá Mjólkursamlagi KEA þar til það var gert að sjálfstæðu fyrirtæki, Norðurmjólk, og þá var hann gerður að yfirverkstjóra. Síðan gekk Norðurmjólk inn í MS og mörg mjólkursamfélög sameinuðust einnig Osta- og smjörsölunni, sem rekur MS, og mörgum mjólkursamlögum var lokað segir Oddgeir. „Á þeim tíma var ég framleiðslustjóri hjá MS hérna á Akureyri og tæknistjóri og sá um vélainnkaup, stillingar á tækjum og fleira.“ Á þessu tímabili lauk hann við nám í rekstri og stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Oddgeir hætti hjá MS eftir 40 ár árið 2008 og fór að vinna hjá Mjólku í Hafnarfirði og var þar verksmiðjustjóri þar til fyrirtækið var selt tveimur árum síðar. „Þá aðstoðaði ég nokkra ofurhuga við að koma upp mjólkursamlagi í Borgarnesi og var þar fram að gangsetningu fyrirtækisins.“ Síðan fór hann að vinna hjá Matvælastofnun sem eftirlitsmaður matvælafyrirtækja.

Árið 2013 ákváðu hjónin að flytja að Myrká í Hörgársveit, en hún hafði ekki verið í ábúð um tíma. „Okkur fannst það spennandi að flytja í sveitina og við fórum að gera allt upp og fengum okkur nokkrar rollur.“ Hann segir að þau hafi hugsað sér að fara í einhvers konar ferðaþjónustu og útbjuggu stóran sal og stórt eldhús, en þegar heimsfaraldurinn skall á hafi þær hugmyndir aðeins dalað. „Við vorum samt með heilan hóp kvikmyndagerðarmanna hér þegar verið var að taka upp myndina Dýrið og þá var salurinn notaður.“

Á sama tíma stofnaði Oddgeir í félagi við fleiri Mjólkurvinnsluna Örnu á Bolungarvík. „Við reiknuðum með að þetta yrði kannski 5-7 manna fyrirtæki en við erum yfir 40 í dag og sprengdum allar væntingar,“ segir Oddgeir.

„Síðan skaust ég nokkrum sinnum til Indlands á „bannárunum“ og tók að mér að koma upp mjólkursamlagi í Nýju-Delí, þannig að ég er búinn að fara margar ferðir til Indlands síðustu þrjú árin og tók konuna með í eitt skiptið og þótt hún hafi fengið menningarsjokk fyrst endaði þetta í bráðskemmtilegri ferð.“

Oddgeir hefur verið virkur í félagsmálum, var formaður skíðaráðs Akureyrar um tíma, vann mikið við Andrésar Andar-leikana, hlaut silfurmerki ÍSÍ fyrir íþróttastarf, var forseti Kiwanis og svo sat hann lengi í stjórn íþróttafélags fatlaðra.

Í dag er Oddgeir heilbrigðisfulltrúi auk þess að fylgjast með rekstri Örnu. „Núna er ég að taka út fæðingarorlofið, en von er á 200 lömbum þetta vorið, sjáðu, en ég á fimm börn og það var kominn tími til.“

Fjölskylda

Eiginkona Oddgeirs er Áslaug Ólöf Stefánsdóttir bóndi, f. 26.10. 1959, og þau búa á Myrká. Foreldrar Áslaugar voru hjónin Stefán B. Einarsson lögreglumaður, f. 19.4. 1930, d. 5.5. 2003, og Guðmunda M. Jóhannsdóttir húsmóðir, f. 3.9. 1930, d. 5.8. 2019.

Börn Oddgeirs og Áslaugar eru: 1) Stefanía Guðlaug, sóknarprestur á Ólafsfirði, f. 2.5. 1980; 2) Sigurjón, viðskiptalögfræðingur í Reykjavík, f. 13.7. 1984; 3) Otti Freyr, mjólkurfræðingur á Akureyri, f. 26.1. 1991; 4) Haukur, nemi, f. 15.7. 1994; og 5) Ríkey Lilja, bankastarfsmaður á Ólafsfirði, f. 23.3. 1997. Barnabörn Oddgeirs og Áslaugar eru tíu.

Bræður Oddgeirs eru Þórður Gunnar, f. 1950; Sigmundur, f. 1958; Ingi Rúnar, f. 1960, og Guðmundur, f. 1967.

Foreldrar Oddgeirs eru hjónin María Sigríður Þórðardóttir, húsfreyja á Þóroddsstöðum, síðar Akureyri, f. 18.5. 1931, d. 1.10. 2017, og Sigurjón Steinsson, bóndi á Þóroddsstöðum, síðar bústjóri og ráðunautur á Akureyri, f. 2.1. 1927, d. 23.3. 1972.