Besta deildin
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Stöðutafla Bestu deildar karla í fótbolta er farin að líkjast meira því sem sérfræðingarnir spáðu
fyrir um áður en Íslandsmótið hófst.
Flestir reiknuðu með því að Víkingur, Breiðablik og Valur myndu raða sér í þrjú efstu sætin og slást um meistaratitilinn og eftir að sjöundu umferðinni lauk í gærkvöld, þar sem Breiðablik vann Stjörnuna, 2:1, og Valur vann HK, 2:1, er þetta einmitt röðin. Víkingur með 18 stig, Breiðablik með 15 og Valur með 14 og nú er stutt í stórleik Breiðabliks og Víkings á Kópavogsvelli 30. maí.
Fimm sigrar í sjö leikjum
Blikar unnu sinn fimmta sigur í fyrstu sjö umferðunum þegar þeir lögðu Stjörnuna í tvísýnum grannaslag í Kópavogi. Patrik Johannesen og Jason Daði Svanþórsson komu Blikum í 2:0 en eftir að Emil Atlason svaraði um hæl fyrir Stjörnuna úr vítaspyrnu sem Örvar Eggertsson krækti í undir lok fyrri hálfleiks var seinni hálfleikurinn æsispennandi.
Blikar héldu út og innbyrtu stigin þrjú en Stjarnan situr eftir í neðri hluta deildarinnar.
Skrautlegt mark í Kórnum
Valsmenn þurftu að hafa talsvert fyrir sínum þriðja sigri í röð en voru sterkari aðilinn í Kórnum ef undan eru skildar fyrstu 20 mínúturnar þegar HK-ingar áttu nokkrar ágætar marktilraunir.
Jónatan Ingi Jónsson skoraði bæði mörk Valsmanna sem áttu líka tvö stangarskot í síðari hálfleiknum. Þeir fengu hins vegar á sig skrautlegt jöfnunarmark í síðari hálfleik. Frederik Schram spyrnti frá marki Vals en beint í höfuð Arnþórs Atla Arasonar og af honum spýttist boltinn af 20 metra færi í tómt Valsmarkið.
Gylfi Þór Sigurðsson lék ekki með Valsmönnum en hann glímir við bakmeiðsli og hefur ekkert æft að undanförnu. Hann spilaði heldur ekki gegn Aftureldingu í bikarkeppninni síðasta föstudagskvöld.
HK gat ekki notað varnarmanninn öfluga Þorstein Aron Antonsson sem er í láni hjá félaginu frá Val. HK-ingar eru áfram í níunda sæti deildarinnar og náðu ekki að fylgja eftir sigrunum á Víkingi og KR. En eftir eitt stig úr fyrstu fjórum leikjunum er staða HK mun betri en flestir reiknuðu með.
Dramatík í lokin
Fram og ÍA skildu jöfn í hörkuleik í Úlfarsárdal, 1:1, þar sem engu munaði að hinn 15 ára gamli Viktor Bjarki Daðason yrði öðru sinni hetja Framara í lok leiks í vor.
Hann komst í algjört dauðafæri á lokasekúndum uppbótartímans en hetjutitilinn fékk Árni Marinó Einarsson markvörður Skagamanna sem varði frá honum á ótrúlegan hátt.
Framarar eru taplausir í fimm leikjum í röð en þrír þeirra hafa endað 1:1 og þeir væru jafnir Val á stigatöflunni ef Viktor hefði skorað í lokin.
Viktor Jónsson skoraði jöfnunarmark Skagamanna í leiknum og er markahæstur í deildinni
með sjö mörk úr fyrstu sjö umferðunum.