„Einkaleyfin eru mikill drifkraftur og vörn gagnvart stórum fyrirtækjum. Margir halda að slík leyfi séu bara tól fyrir stórfyrirtæki til að halda litlum fyrirtækjum niðri. Að minni reynslu virka þau á hinn veginn og eru í raun besta vörn í heimi til að verja lítil fyrirtæki og þeirra hugmyndir.“
Þetta segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, í samtali við ViðskiptaMoggann. Tilefnið er erindi hans á nýsköpunarviku um mikilvægi einkaleyfa í nýsköpun. Guðmundur var tilnefndur til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna, sem Evrópska einkaleyfisstofan (EPO) veitir, eins og Morgunblaðið fjallað um í síðustu viku.
Tilnefninguna hlýtur Guðmundur fyrir þá uppfinningu sína að nota fiskroð til að hjálpa sárum að gróa hratt og vel vegna sykursýki, bruna eða skurðaðgerða. Kerecis varð sem kunnugt er eitt verðmætasta fyrirtæki Íslandssögunnar þegar danska lækningavörufyrirtækið Coloplast festi kaup á félaginu fyrir tæpa 180 milljarða króna í fyrrasumar.
Hugaði strax að einkaleyfinu
Guðmundur segir lykilatriði fyrir nýsköpunarfyrirtæki að huga strax að einkaleyfum. Hann rifjar upp að þegar hugmyndin kviknaði fyrst um græðandi eiginleika fiskroðsins hafi það verið eitt af hans fyrstu verkum að ræða við lögfræðing sem sérhæfir sig í einkaleyfum til að ganga úrí skugga um hvort aðrir aðilar hefðu skráð einkaleyfi. Það var gert í því skyni að vernda hugmyndina og tryggja einkaréttinn til að hagnýta hana.
„Einkaleyfi hafa fylgt Kerecis frá stofnun, enda var Ernst Kenny einkaleyfalögfræðingur í stofnendahópnum og starfaði hjá fyrirtækinu fyrstu árin. Hann hafði áður séð um einkaleyfin á stoðtækjahulsunni fyrir Össur. Þegar í ljós kom að enginn hafði fengið þessa hugmynd, þá skráðum við einkaleyfið,“ segir Guðmundur.
Hann segir að það sé tiltölulega ódýrt og einfalt að fá svokölluð bráðabirgðaeinkaleyfi skráð í byrjun sem gildi í eitt ár. „Maður skrifar það sjálfur og sendir til einkaleyfastofu og gildir í eitt ár. Sá tími veitti okkur svigrúm til að leita fjármögnun og styrkjum fyrir Kerecis. Þegar það ár er liðið verður að ráða lögfræðing til að skrifa og strúktúrera leyfið á vissan máta og eftir kúnstarinnar reglum,“ útskýrir Guðmundur.
Að hans sögn hleypur sá kostnaður á nokkrum milljónum og að svo búnu verður að velja í hvaða löndum á að skrá einkaleyfin. „Þá hakar maður við öll lönd og svo eftir tvö eða þrjú ár ber að greiða ýmiss konar gjöldi í formi þýðingar-staðfestingargjalda í öllum löndunum. Þegar sá kostnaður hrekkur inn er listinn skorinn niður eftir hversu mikið fjármagn er eftir. Í okkar tilfelli völdum við að hafa einkaleyfið skráð í 50 stærstu hagkerfum heims. Ef við hefðum haft meira fjármagn hefðum við skráð í 100 stærstu hagkerfunum,“ segir Guðmundur.
Mikilvægt að verja tæknina
Hann segir mikilvægt að halda áfram að verja tæknina þar sem alltaf eru að kvikna nýjar hugmyndir sem þarfnist athugunar hvort hæfar séu til einkaleyfa. Til að öðlast einkaleyfi mega þær ekki vera of augljósar (e. Patent nonobviousness) í augum sérfræðinga á því sviði.
„Þróunardeild Kerecis er alltaf að koma nýjar vöruhugmyndir, verkefni og pælingar og við athugum ávallt hvort eitthvað sé merkilegt. Það hefur leitt af sér að fyrirtækið hefur og er að skrá tugi einkaleyfa, ýmist til bráðabirgða eða til lengri tíma,“ útskýrir Guðmundur.
Aðspurður segir hann að einkaleyfin hafi átt stórann þátt í vexti Kerecis og bendir á mikilvægi þeirra bæði við sölu á nýju hlutafé og þegar Kerecis var selt síðasta sumar. Einkaleyfaverndin hafi skipt kaupandann miklu máli um hvort einhver önnur fyrirtæki gætu farið daginn eftir kaupin að framleiða fiskroð.
Eldri einkaleyfin stækki markaðinn
„Kjarnaleyfin okkar eiga 7-8 ár eftir og við erum alltaf að skrá ný og stöðugt að bæta við önnur. Við erum að undirbúa að setja á markað kynslóð númer tvö af roði sem hefur nýja eiginleika og í öðrum lit. Þegar kemur að því að grunneinkaleyfin renna út, þá verður það orðin gömul tækni sem líkja má við þegar skipt er út gömlum iPhone-síma fyrir nýjan. Út af þessu verður Kerecis að halda áfram að verja fé í rannsókn og þróun vörunnar,“ segir Guðmundur.
Hann segist aðspurður ekki hafa áhyggjur af því þegar kjarnaleyfin falla úr gildi, sem mun gera öðrum aðilum kleift að hefja framleiðslu á sams konar vöru.
„Þegar það gerist eftir 7-8 ár verður fyrirtækið komið með nýja vöru, sem hefur nýja eiginleika og byggist á nýjum einkaleyfum. Ef keppinautar fara að framleiða vörur byggðar á gömlu einkaleyfunum eru þeir að framleiða gamla Iphone-síma á meðan við framleiðum nýja,“ segir hann.
Í dæmaskyni nefnir Guðmundur fyrstu hulsur Össurar, en þær voru þungar og þykkar og hafa ekki einkaleyfisvernd lengur. Nýju hulsunar séu hins vegar léttar, mjúkar og auðvelt að setja þær á sig, en þær hafi einkaleyfi.
„Fólk getur keypt gömlu vöruna sem er verri og ódýrari sem að sama skapi stækkar markaðinn. Út af því er ekkert að fá samkeppni sem leiðir til að markaðurinn stækki, að því gefnu að fyrirtækið sé með betri vöru. Það er einmitt það sem ég er áhugasamur um; að vörur Kerecis verði notaðar af öllum í fyllingu tímans,“ segir Guðmundur að lokum.