[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Töluverð umskipti urðu á fylgi forsetaframbjóðenda í könnun Prósents fyrir Morgunblaðið, sem birt var í gær. Þau helst að Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra reyndist efst með 22,1% eftir að hafa aukið fylgi sitt töluvert

Greining

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Töluverð umskipti urðu á fylgi forsetaframbjóðenda í könnun Prósents fyrir Morgunblaðið, sem birt var í gær. Þau helst að Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra reyndist efst með 22,1% eftir að hafa aukið fylgi sitt töluvert.

Þar munaði þó ekki síður um að fylgi Höllu Hrundar Logadóttur orkumálstjóra minnkaði um fjórðung, úr 26,0% niður í tæp 20%. Í sama mund hélt Halla Tómasdóttir forstjóri áfram að auka við sig fylgið, fór úr 12% í 16%. Þar með fór hún fram úr Jóni Gnarr leikara sem hélt sínu í rúmum 13% og á ekki langt að sækja á Baldur Þórhallsson prófessor, sem einnig var stöðugur í sínum 18%.

Spennandi sem það kann að vera að fylgjast með hvernig efstu frambjóðendur skjótast yfir og undir hver annan verður þó að vekja athygli á því hvað það er mjótt á munum. Spennan gæti hæglega orðið sú að frambjóðendur verði allir á sömu slóðum, svo nánast hending geti ráðið því hver ber sigur úr býtum.

Mjótt á munum

Þannig skilja innan við 6% að efstu fjóra frambjóðendur miðað við þessa könnun Prósents, svo þar þarf lítið að gerast til þess að allt breytist.

Fyrir nú utan hitt að nákvæmni fylgismælinga er aldrei óyggjandi, líkt og sést best á því að efstu þrír frambjóðendur eru innan vikmaka hver annars. Þótt Katrín sé þar mæld með 22,1% gæti hún miðað við vikmörkin fengið svo lítið fylgi sem 19,8% en Baldur svo mikið sem 20,4%. Og treystir sér einhver, miðað við risið á Höllu Tómasdóttur, til þess að fullyrða að hún verði ekki komin í þann hóp að viku?

Miðað við fylgishreyfingar innan liðinnar viku og liðinna vikna er ekki ósennilegt að Halla Hrund tapi einhverju frekara fylgi, en að nafna hennar bæti enn við sig og því til alls líkleg í toppbaráttunni.

Skipting fylgis í hópum

Þegar litið er á fylgi helstu frambjóðenda niðurbrotið má vel sjá – sennilega greinilegast skipt eftir kynjum – hvernig Halla Tómasdóttir hefur sótt lausafylgi, sem áður hafði sópast að Höllu Hrund, en það er nú einu sinni eðli lausafylgisins að það er laust.

Á sama hátt má segja að bæði Katrín, Baldur og Jón hafi á einhverju stigi farið niður að sínu kjarnafylgi. Barátta þeirra snýst því annars vegar um að sjá til þess að það komi örugglega á kjörstað en hins vegar að bæta við sig lausafylgi.

Sjá má að fylgistap Höllu Hrundar hefur til þessa einkum verið meðal yngra fólksins, hið eldra heldur mun frekar tryggð við hana. Þar kann þó að vera eftir nokkru að slægjast, bæði fyrir Katrínu og Höllu Tómasdóttur, en síður fyrir Baldur.

Margir frambjóðendur kunna að vilja huga að því af hverju þeir höfði frekar til eins kyns en annars. Ekki kemur allsendis á óvart að bæði Katrín og Halla Tómasdóttir eigi ívið meira fylgi meðal kvenna en karla, en Baldur á mun meira fylgi hjá konum en körlum meðan Halla Hrund á töluvert meira hjá körlum en konum.

Höfðað til nýrra hópa

En svo má líka reyna að styrkja stöðuna í tilteknum hópum. Katrín Jakobsdóttir hefur þannig verið sterkust í eldri hópunum, en nú í liðinni viku náði hún að styrkja stöðu sína í yngsta aldurshópnum mjög mikið. Hann er að sönnu ekki líklegastur til að kjósa, en þetta kann samt að vera vísbending um að það sé enn rými og tími til þess að vinna hópa á sitt band.

Ugglaust má líka líta til stjórnmálaskoðana í þessu viðfangi. Um sumt er það bara athyglisvert, eins og að Halla Hrund sé sterkust bæði meðal stuðningsfólks Miðflokks og Sósíalista, en tiltölulega veik meðal Viðreisnarfólks. Sem þá endurspeglar væntanlega að í persónukjöri til hins fremur valdalitla forsetaembættis láti menn stýrast frekar af persónulegri ásýnd frambjóðenda en skoðunum.

Árangursríkara er að horfa til fylgismeiri flokkanna, sérstaklega þá Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Katrín er sem fyrr sterk meðal sjálfstæðismanna, en meðal stuðningsfólks Samfylkingar er hún aðeins á pari við Jón Gnarr. Í þeim hópi hefur Halla Hrund gefið töluvert eftir, en það virðist fremur hafa komið Baldri til góða en Höllu Tómasdóttur. Baráttan næstu daga mun snúast um lausafylgið þar.

Höf.: Andrés Magnússon