Rúnar Guðbjartsson
Rúnar Guðbjartsson
Það er ekki hægt að lesa um og læra reynslu, þú verður að upplifa hana.

Rúnar Guðbjartsson

Þegar okkar ágæta Alþingi á Þingvöllum 17. júní 1944 breytti stjórnarskránni að mér viðstöddum var ég níu ára og stóð nálægt trépallinum sem Alþingi var á. Ég tel að Alþingi hafi sett inn 26. gr. stjórnarskrárinnar sem öryggisventil þar sem forsetinn getur gripið inn í atburðarásina ef einhver vá steðjar að þjóðinni. Nákvæmlega eins og Ólafur Ragnar Grímsson forseti gerði í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Alþingi hefur líklega hugsað til Bandaríkjanna, sem á þeim tíma voru áhrifamesta og sterkasta þjóð heimsins með valdamikinn og þjóðkjörinn forseta.

Með þessa túlkun í huga gefur það augaleið að forsetaframbjóðendur þurfa helst að vera reyndir stjórnmálamenn. Þeir eru til hjá öllum stjórnmálaflokkunum okkar. En þeir þurfa að hafa reynslu og geta tekið ábyrgð. Það er ekki hægt að lesa um og læra reynslu, þú verður að upplifa hana.

Við skulum taka flugið sem dæmi, en þar þekki ég til. Frá fyrsta degi er gert að halda til bókar verklegri reynslu, þ.e. halda bókhald um hverja einustu mínútu sem viðkomandi er að stjórna flugvél. Til að geta flogið er ekki nóg að hafa lært allt um flug, flugvélar, flugsöguna og allar aðstæður sem geta komið upp í einni flugferð. Þú verður að upplifa þær, það er reynsla. Þetta á í raun við hvaða starf sem er.

Mér finnst Katrín Jakobsdóttir klæðskerasaumuð í forsetaembættið og það er ótrúlegt hvað hún hefur komist fljótt áfram í pólitíkinni. Ég hvet alla til að lesa afrekaskrá hennar í pólitík á vef Alþingis, hún rúmast ekki í stuttri blaðagrein. Hún er kvenmaður og leysir af karlmann, sem mér finnst skipta máli, að kynin skiptist á um að vera forseti.

Katrín og Bjarni Benediktsson komu fram af heilindum haustið 2017 þegar þau mynduðu fyrstu ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en þá var mikil stjórnarkreppa í landinu. Kæri lesandi, hún kann líka að meta húmor og því til sönnunar ætla ég ljúka þessum texta og segja ykkur smá sögu af samskiptum mínum við hana.

Þetta sama haust, 2017, hélt SÁÁ þriggja daga ráðstefnu um alkóhólisma. Ráðstefunni lauk með fimm manna pallborði og Katrín var einn af þátttakendunum í því. Þau í pallborðinu svöruðu síðan ýmsum spurningum úr sal. Ég hafði mikið verið að hugsa um og hafa áhyggjur af stjórnarkreppunni í landinu. Þess vegna spurði ég Katrínu: Ef þið Bjarni Benediktsson væruð sett inn í herbergi og fengjuð ekki að fara út fyrir en þið væruð búin að mynda ríkisstjórn, hvað myndi það taka ykkur langan tíma? Hún horfði undrandi á mig en brosti svo og sagði: Það færi eftir því hvað við fengjum að hafa með okkur margar vínflöskur! Þá skellihló salurinn.

Lesandi góður, taktu nú eftir. Fáum dögum seinna las ég í Morgunblaðinu að Katrín og Bjarni væru farin að tala saman sem lauk síðan með myndun fyrstu ríkisstjórnar Katrínar. Kæru lesendur, á góðum degi, þegar sjálfsálit mitt er í góðu lagi, þá hef ég getað sannfært sjálfan mig um að líklega væri ég guðfaðir fyrstu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Höfundur er sálfræðingur og fyrrverandi flugstjóri.

Höf.: Rúnar Guðbjartsson