Ómar Ingi Magnússon skoraði tíu mörk og lagði upp eitt þegar lið hans Magdeburg lagði Balingen auðveldlega að velli, 43:29, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöldi. Magdeburg er á toppnum með tveggja stiga forskot og á einnig leik til góða

Ómar Ingi Magnússon skoraði tíu mörk og lagði upp eitt þegar lið hans Magdeburg lagði Balingen auðveldlega að velli, 43:29, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöldi. Magdeburg er á toppnum með tveggja stiga forskot og á einnig leik til góða. Janus Daði Smárason bætti við tveimur mörkum og sjö stoðsendingum og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar.

Franski körfuboltamaðurinn Jordan Semple hefur samið um að leika áfram með Þór í Þorlákshöfn og verður því sitt þriðja tímabil með liðinu næsta vetur. Semple, sem er 31 árs framherji, hefur áður leikið með KR og ÍR.

Handknattleiksmaðurinn Erlendur Guðmundsson hefur samið við Fram um að leika með liðinu næstu þrjú árin. Erlendur, sem er 22 ára línu- og varnarmaður, kemur frá Víkingi úr Reykjavík.

Tindastóll hefur samið við lettneska körfuboltamanninn Davis Geks um að leika áfram með liðinu. Geks er 29 ára bakvörður sem hefur leikið hálft annað tímabil með Skagfirðingum.

Spánverjinn Julen Lopetegui var í gær ráðinn knattspyrnustjóri West Ham á Englandi, í staðinn fyrir David Moyes sem hætti eftir tímabilið. Lopetegui hefur stýrt landsliði Spánar og liðum Real Madrid, Porto og Sevilla, og síðast Wolves á Englandi en þar hætti hann í ágúst 2023.

Orri Steinn Óskarsson skoraði fallegasta mark 31. umferðar dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, samkvæmt heimasíðu deildarinnar. Orri skoraði markið af 25 metra færi í ósigri Köbenhavn gegn AGF, 3:2.