Göfug markmið, öfug áhrif

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum sem liggur nú fyrir Alþingi er umfjöllunarefni greinar sem birt var í ViðskiptaMogganum í vikunni. Greinarhöfundur, María Guðjónsdóttir lögfræðingur Viðskiptaráðs, varar við samþykkt frumvarpsins og nefnir einkum í því sambandi að afleiðingar þess verði minna framboð og meiri vandi á fasteignamarkaði.

María nefnir að húsaleigulögin séu almennt talin sanngjörn í garð bæði leigusala og leigutaka og að hagsmunir leigjenda séu vel varðir. En hún bendir á að breytingarnar í frumvarpinu feli í sér „takmarkanir á eignarrétti og samningsfrelsi, aukið flækjustig og íþyngjandi aðkomu stjórnvalda að einkaréttarlegum samningum milli aðila. Ekkert af þessu styður við markmið um aukið framboð á húsnæði.“

Stjórnvöld ætli að „leysa framboðsskort á húsnæði með því að takmarka samningsfrelsi aðila, ganga langt í stjórnvaldsfyrirmælum og refsiheimildum og leggja fjölmargar kvaðir á leigusala“. Hún bendir á að auknar kröfur á hendur leigusölum séu „aðeins til þess fallnar að draga úr framboði á langtímaleiguhúsnæði, sem mun leiða til hærra verðs til leigjenda“.

Þá vekur María athygli á að það séu „gömul sannindi og ný að opinber afskipti af leigumarkaði hafa áhrif á magn og gæði íbúa. Bæði fræðin og reynslan hafa sýnt okkur einmitt að þrátt fyrir að takmarkanir á samningafrelsi á leigumarkaði geti haldið leiguverði í skefjum séu áhrifin á bæði leigjendur og leigusala neikvæð, t.d. dragi slíkt úr framboði leiguíbúða og minnki gæði leiguhúsnæðis.“ Loks segir hún að markmiðið um að tryggja húsnæðisöryggi sé göfugt, en það sé eins og svo oft með göfug inngrip ríkisins, þau vilji gjarnan snúast upp í andhverfu sína.