Útskriftarhópurinn 1974 Fremri röð frá vinstri: Margrét Gunnarsdóttir, Sigurbjörg Rafnsdóttir, Herdís M. Hübner, Lilja Stefánsdóttir, Bergrós Ásgeirsdóttir og Ingibjörg Daníelsdóttir. Aftari röð frá vinstri: Jón S. Jóhannesson, Bjarni Jóhannsson, Ásgeir Ásgeirsson, Halldór Jónsson, Þórarinn Hrafn Harðarson, Snæbjörn Reynisson, Matthías Berg Stefánsson, Guðni K. Þorkelsson, Kristján Jóhannsson, Sigurður Grímsson, Ársæll Friðriksson, Gísli Ásgeirsson, Helgi Kjartansson, Haraldur Helgason, Einar Hreinsson, Guðmundur Guðjónsson, Einar Jónatansson, Jón G. Guðbjartsson, Jón Guðmundsson, Friðbert Traustason, Guðmundur Stefán Maríasson, Snorri Grímsson, Örn Leós og Jóhannes Laxdal.
Útskriftarhópurinn 1974 Fremri röð frá vinstri: Margrét Gunnarsdóttir, Sigurbjörg Rafnsdóttir, Herdís M. Hübner, Lilja Stefánsdóttir, Bergrós Ásgeirsdóttir og Ingibjörg Daníelsdóttir. Aftari röð frá vinstri: Jón S. Jóhannesson, Bjarni Jóhannsson, Ásgeir Ásgeirsson, Halldór Jónsson, Þórarinn Hrafn Harðarson, Snæbjörn Reynisson, Matthías Berg Stefánsson, Guðni K. Þorkelsson, Kristján Jóhannsson, Sigurður Grímsson, Ársæll Friðriksson, Gísli Ásgeirsson, Helgi Kjartansson, Haraldur Helgason, Einar Hreinsson, Guðmundur Guðjónsson, Einar Jónatansson, Jón G. Guðbjartsson, Jón Guðmundsson, Friðbert Traustason, Guðmundur Stefán Maríasson, Snorri Grímsson, Örn Leós og Jóhannes Laxdal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði verður í dag, en 50 ár eru frá fyrstu útskriftinni. Friðbert Traustason frá Flateyri var í hópnum. „Skólinn markaði líf mitt um alla framtíð, því ég kynntist Sigrúnu Ósk Skúladóttur á námsárunum á Ísafirði og við eigum 50 ára brúðkaupsafmæli í júní

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði verður í dag, en 50 ár eru frá fyrstu útskriftinni. Friðbert Traustason frá Flateyri var í hópnum. „Skólinn markaði líf mitt um alla framtíð, því ég kynntist Sigrúnu Ósk Skúladóttur á námsárunum á Ísafirði og við eigum 50 ára brúðkaupsafmæli í júní. Ef ég hefði farið suður í nám hefðum við aldrei hist.“

Friðbert tók landspróf í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði 1970 og ætlaði að fara í Kennaraskólann og verða kennari eins og afi hans, Friðbert Friðbertsson, skólastjóri á Suðureyri í Súgandafirði, hafði gert. Trausti Friðbertsson, faðir Friðberts og kaupfélagsstjóri á Flateyri, var á öðru máli.

„Sumarið 1970 hringdi Jón Baldvin Hannibalsson, nýráðinn skólameistari, í foreldra allra nemenda fyrir vestan, sem útskrifuðust úr landsprófi um vorið og þeirra í 4. bekk í gagnfræðaskóla sem náðu inntökuskilyrðum í menntaskóla, og tókst að fá mjög marga, meðal annars pabba, til að senda unglingana í skólann,“ rifjar Friðbert upp. „Ég ákvað því að slá til og prófa, en margir sögðu að það væri algjör vitleysa hjá okkur, því ekkert kæmi út úr þessum nýja skóla, engir almennilegir kennarar yrðu ráðnir og svo framvegis. Þess í stað var okkur ráðlagt að fara í rótgróna menntaskóla eins og Vestfirðingar gerðu á þessum árum. Engu að síður létum við, 31 Vestfirðingur, slag standa auk þess sem fjórir nemendur komu annars staðar frá fyrsta haustið.“

Nær allir í háskólanám

Í byrjun fengu aðkomustrákarnir inni í tveimur húsum, sem Mánakaffi átti, og stúlkurnar í heimavist Húsmæðraskólans, þar sem sameiginlegt mötuneyti var. Kennslan var í gamla barnaskólanum. „Fáir kennarar voru fastráðnir og til dæmis kenndi bæjarverkfræðingurinn stærðfræði og bókhaldarinn hjá Norðurtanganum bókhald,“ segir Friðbert. „En skólinn stóð vel undir nafni og 25 af 30 nemendum, sem brautskráðust 1974, eru háskólamenntaðir.“

Félagslífið var öflugt og Friðbert bendir á að strax á öðru ári hafi nemendur með aðstoð Bryndísar Schram, kennara við MÍ og eiginkonu Jóns Baldvins, komið á Sólrisuhátíðinni. „Bryndís var strax potturinn og pannan í menningarlífinu á Ísafirði og mjög áhugasöm með okkur í félagslífinu.“

Eftir stúdentspróf fluttu Friðbert og Sigrún suður og hann hóf nám í verkfræði við Háskóla Íslands. Eftir tvö ár gerði hann hlé á náminu og fór að vinna hjá Rafmagnsveitum Reykjavíkur til að standa straum af kaupum á lítilli kjallaraíbúð. 1978 hóf hann síðan störf sem kerfisfræðingur og forritari hjá Reiknistofu bankanna. Hann útskrifaðist síðar með BS-gráðu í hagfræði frá HÍ, tók við sem framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) 2000 og hætti þar í fastri vinnu í nýliðnum apríl.