Daði Kristjánsson fæddist á Litlabæ í Skötufirði 9. október 1935. Hann lést 8. maí 2024 á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi.

Foreldrar hans voru Kristján Finnbogason, f. 15. maí 1898, d. 9. október 1987, bóndi á Litlabæ í Skötufirði, og Guðbjörg Þórdís Jensdóttir, f. 15. október 1899, d, 9. júní 1986, húsmóðir.

Eiginkona Daða var Erla Aðalheiður Hjörleifsdóttir, f. 29. desember 1934, d. 21. október 2012. Barn Erlu var Guðmundur Róbert Ingólfsson, f. 15. mars 1952, d. 3. september 2009. Sambýliskona hans var Þórný Sigurjónsdóttir. Börn Daða og Erlu eru Sigrún Hrönn, f. 14. ágúst 1956, og Kristján Þröstur, f. 20. október 1960. Eiginkona Kristjáns er Friðrika Eygló Gunnarsdóttir, f. 21. mars 1962. Þeirra börn eru Finnbogi Rúnar, f. 8. maí 1996, sambýliskona Aníta Rún Óskarsdóttir, barn þeirra er Dagbjört Ylfa, f. 18. nóvember 2023, og Aðalheiður Kristín, f. 10. mars 2000, sambýlismaður Sindri Már Fannarsson, barn þeirra er Fannar Ýmir, f. 6. ágúst 2023.

Daði ólst upp við venjuleg sveitastörf í barnæsku. Fyrir tvítugt fór hann suður á vertíð og vann einnig við beitningar á Akranesi. Daði fékk síðan vinnu við uppbyggingu Sementsverksmiðjunnar sem hófst 1956. Eftir það var hann ráðinn við starfsemi verksmiðjunnar og vann þar allan sinn starfsaldur til 2002. Daði átti bát og stundaði grásleppu með vinnu á sínum yngri árum.

Útför Daða fer fram frá Akraneskirkju í dag, 24. maí 2024, klukkan 13. Streymi:
http://mbl.is/go/e2ud8

Nýlátinn er eiginmaður móðursystur minnar, Erlu Hjörleifsdóttur, 1934-2012, Daði Kristjánsson frá Litlabæ í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi. Hann var hógvær og mikill hæglætismaður, iðinn, traustur og hjálpsamur svo að eftir var tekið. Fyrirmyndarheimilisfaðir og verkmaður þótti hann mjög góður.

Í æsku átti ég oft leið um Akranes og naut mikillar gestrisni hvarvetna hjá ættingjum. Daði og Erla tóku saman 1955 og bjuggu fyrst á Mánabraut á Akranesi. Um tíma áttu þau heima á Deildartungubraut skammt frá Lambhúsasundi uns þau settust að á Heiðarbraut 35. Þar bjuggu þau lengst af sína búskapartíð sem varði lengi eða hátt í 60 ár.

Minnisstæð er mér heimsókn háskólanema í Sementverksmiðjuna fyrir um hálfri öld. Þá starfaði Daði við að fylgjast með brennsluofni verksmiðjunnar sem þurfti mikillar aðgæslu. Leyfði hann okkur skólanemendunum að kíkja inn í logann um loku sem var við enda ofnsins. Inni var skelfilega hár hiti þar sem efnaferlið fór fram og var lykilatriði starfseminnar.

Nú eru allir tengdasynir ömmu minnar, Guðrúnar Gunnarsdóttur, sem fæddist á Leirá í Borgarfirði 1904, látnir. Voru þrír þeirra frá Vestfjörðum, Daði frá Litlabæ í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi, Sigvaldi Loftsson (1931-2021) frá Hafnarhólma í Steingrímsfirði á Ströndum, faðir minn Jens (1925-1975) frá Ísafirði og Sveinn Þorláksson (1930-2016) frá Siglufirði. Lifir ein systranna, sú yngsta, Hjördís sem gift var Sveini. Alls þessa fólks alls er minnst með mikilli hlýju.

Aðstandendum, niðjum, vinum og vandamönnum öllum eru sendar innilegar samúðarkveðjur á erfiðri kveðjustundu.

Guðjón Jensson, Mosfellsbæ.