Í leiðara Árbæjarblaðsins var á dögunum vikið að Ríkisútvarpinu og sagt „ekki að furða þó traust almennings á stofnuninni fari minnkandi dag frá degi“. Minnt var á milljarða forgjöf Rúv. og nefskattinn, sem og að þegar hann dygði ekki…

Í leiðara Árbæjarblaðsins var á dögunum vikið að Ríkisútvarpinu og sagt „ekki að furða þó traust almennings á stofnuninni fari minnkandi dag frá degi“. Minnt var á milljarða forgjöf Rúv. og nefskattinn, sem og að þegar hann dygði ekki til væri reikningurinn „sendur niður á Austurvöll og við látin greiða fyrir óráðsíuna“.

Leiðarahöfundur sagði hvert hneykslið reka annað á Rúv. að undanförnu og tiltók sérstaklega framkvæmd söngvakeppninnar sem hefði verið „eitt allsherjar hneyksli“.

Þá vék hann að öðru hneyksli, því þegar María Sigrún Hilmarsdóttir „var smánuð af yfirmönnum sínum á RÚV. Þar sýndu karlremburnar sitt rétta andlit. Ritstjóri Kveiks gaf út þá yfirlýsingu að María Sigrún væri vanhæf til að starfa fyrir Kveik. Hún væri að vísu hæfur fréttaþulur en ónothæf sem rannsóknarblaðamaður. Verið var að þagga niður umræðu um lóðamál borgarinnar gagnvart olíufélögunum.“

Loks bætti leiðarahöfundur við að þessi framkoma opinberaði „kvenfyrirlitningu svo ekki sé sterkara að orði kveðið og æpir á að þessar karlrembur segi tafarlaust af sér. Og svo á útvarpsstjórinn, Stefán Eiríksson, sem auðvitað ber mestu ábyrgðina á skandalnum, auðvitað að fylgja sem hraðast í kjölfarið.“

Hvernig er það, á málið einfaldlega að sofna án nokkurra afleiðinga fyrir nokkurn mann í Efstaleiti?